Færsluflokkur: Menning og listir

Menningarskjár Vestfjarða

Margt er rætt á leikferðum.

Var að koma heim eftir velheppnaða leikferð Kómedíuleikhússins með barnaleikritið Halla. Sýndum í hinu stórglæsilega Gaflaraleikhúsi í Hafnarfirði. Svo skemmtilega vill til að við erum tvö í þessu leikverki en yfirleitt er ég bara einn einsog þekkt er orðið. Enda er ég svo lélegur leikari einsog maðurinn sagði. Svo það var skemmtileg nýjung að hafa einhvern annan en útvarpið til að tala við á leið milli staða. Hlusta reyndar mikið á hljóðbækur þegar ég er einn á ferð en nú var bara græjann styllt lágt enda margt að spjalla. Að sjálfsögðu komu listir og menning mikið við sögu enda erum við bæði í lettedeildinni. Einkum voru markaðsmál listarinnar okkur hugleikin. Enda er það staðreynd í okkar nútímasamfélagi að markaðsmál skipta alveg gífurlega þegar listviðburður er settur á svið. Það hefði t.d. verið stórkoslegt ef við hefðum getað auglýst sýningar okkar á Höllu á helginni og notað til þess svona 200 þúsund eða svo. En fyrir svona lítið menningarapparat einsog Kómedíuleikhúsið er erfitt að finna solleiðis upphæðir. Hið Kómíska bókhald er sannarlega kómískt.

Það er bara þannig að vort lista- og menningarlíf er gífurlega öflugt og það er svo mikið um að vera. Sem er alveg stórkostlegt svo til að láta vita af þínum viðburði þá þarftu að auglýsa þig vel og standa vel að öllum kynningarmálum. Sjálfur fæ ég mjög oft þá spurningu eftir sýningu einhversstaðar: Ha, bíddu var þetta eitthvað auglýst?

Málið er bara að við í listinni erum ekkert voða klár í að selja okkur sjálf. Enda svo sem alveg nóg að vera að beita sínum kröftum í listinni og í raun alveg útí hróa að vera að ætla sínum litla kroppi og kolli í að gera allt. Leika, markaðssetja, svara í miðasölusímann og skúra leiksviðið.

Hér í menningarbænum Ísafirði eru allar auglýsingatöflur fullar af auglýsingum. Sem sýnir hve frábært vort mannlíf er. Oftar en ekki kemur maður ekki upp sinni auglýsingu sökum plássleisis. Enn verra er hinsvegar að oft eru auglýsingar teknar niður þó viðburði sé ekki lokið.

En það eru tækifæri í öllum stöðum svo gerum eitthvað nýtt og spennandi. 

Sú hugmynd sem við ræddum mest. Var sú að sniðugt gæti verið að koma upp Menningarskjá Vestfjarða. Þessum skjám væri komið fyrir á helstu samkomu stöðum fjórðungsins t.d. í Hamraborg á Ísafirði, í Bónus, á Vegamótum á Bíldudal, á Galdrasafninu á Hólmavík og víðar. Á skjánum væru auglýsingar þar sem menningarlífið væri kynnt. Mundi rúlla allan sólarhinginn árið um kring. Þannig gæti t.d. Leikfélag Hólmavíkur kynnt sínar leiksýningar, kórar gætu auglýst sína tónleika, myndlistarmaður auglýst sýningu og já bara allt nema fatamarkaðir ættu þarna heima. Vissulega þarf að stýra þessu á einhvern hátt og eðlilegast væri að hafa ritstjóra yfir dæminu sem gæti t.d. verið blaðamaður á Bæjarins besta. Þeir sem vildu kynna sína viðburði gætu þá einfaldlega sent  kynningartexta og mynd á ritstjórann sem setur þetta á Menningarskjá Vestfjarða. 

Auðvitað kostar þetta eitthvað en fyrst er að hugsa og melta. Svo finnst ávallt besta lausnin. Kannski kemst Menningarskjár Vestfjarða í loftið? Það yrði nú gaman mar'. 


Leikhúspáskar á Ísó

Vá það er bara ekkert minna það eru fimm leiksýningar á fjölunum í Ísafjarðarbæ þessa páska. Sannarlega ástæða til að sækja hið eina sanna vestur heim. Það er samt ekki allt því það er geggjað gott skíðafæri á dalnum og svo er hin frábæra rokkhátíð alþýðunnar Aldrei fór ég suður að bresta á. Sannarlega má segja að menningarbærinn Ísafjarðarbær iði að lífi alla páskana. 

Leiksýningarnar fimm á leikhúspáskum á Ísó eru fjölbreyttar og sannarlega geta allir aldurshópar fundið sína sýningu. Atvinnuleikhús Vestfjarða Kómedíuleikhúsið sýnir tvær leiksýningar um páskana. Gamanleikurinn Fjalla-Eyvindur verður sýndur á morgun, Föstudaginn langa, kl.20 í Hömrum sal Tónlistarskóla Ísafjarðar. Á laugardag sýnir Kómedían sitt nýjasta verk barnaleikritið Halla. Sýnt verður á Safnahúsinu Ísafirði kl.16.30 og 17.30. Miðasala á sýningar Kómedíuleikhússins er þegar hafin í síma: 891 7025.

Á Þingeyri sýnir Leikdeild Höfrungs vinsælasta barnaleikrit allra tíma Lína Langsokkur. Þrjár sýningar verða núna um páskana í dag Skírdag kl.16 og á Föstudaginn langa kl.14 og kl.17. Miðasölusími á Línu  Langsokk er 867 9438.

Í næsta firði, firði Önundar sýnir Leikfélagið á Flateyri farsann Allir á svið. Þrjár sýningar verða á þessum fjöruga farsa á Föstudaginn langa kl.20 og á laugardag kl.17. Miðasölusími er 847 7793.

Á Ísafirði sýnir Litli leikklúbburinn gaman og söngstykkið vinsæla Þið munið hann Jörund. Sýnt verður í dag, Skírdag, kl.20. Miðasölusími: 856 5455.

Það er morgun, dag og næturljóst að það þarf engum að leiðast í Ísafjarðarbæ þessa páska. Gleðilega Leikhúspáska á Ísó.  


Lífið er yndislegt og allir spila kandí kröss

Ávallt fyllist maður stolti þegar mætt er á hina árlegu árshátíð Grunnskólans á Ísafirði. Hef sagt það áður en segi það samt aftur og enn að æskan á Ísafirði er frábær. Brosandi og sískapandi en meina samt vel það sem þau segja og gera. Því er mikilvægt að við tökum mark á þeim og hlustum. 

Á hverri árshátíð er ákveðið þema og í ár var það ,,Öll ólík, öll eins." Sannarlega gott efni til að vinna með enda kom það í ljós strax á fyrstu sýningu núna í morgun. Atriðin voru sannarlega ólík og alls ekkert eins. Enda er lítið varið í dæmið, lífið og leikhúsið ef allt er alveg eins. Vissulega var stórt stungið á efninu og einsog einn leikhúsmaðurinn segir svo alltof oft: Sýningin hreyfði sannarlega við manni.

Í einu atriðinu var skemmtilegt skot á Evróvisjonið þar sem símakjósendur lentu í miklum vanda um hvaða lag skyldi velja. Því það var aðeins eitt lag í keppninni en það var sungið þrisvar sinnum og það var að sjálfsögðu slagarinn Lífið er yndislegt.

Ekkert var eins nema það að hinn vinsæli leikur kandí kröss kom víða við sögu.

Það var sannarlega fast skotið á árshátíð Grunnskólans á Ísafirði og ávallt lenti knötturinn í netinu og oftar en ekki í samskeytunum.

Lífið er sannarlega yndislegt á Ísafirði. Við verðum bara að gæta okkar á því að týna okkur ekki í kandí krössinu einsog æskan benti okkur svo réttilega á.

Til hamingju æska og framtíð Ísafjarðar.  


Vinnum saman eða afhverju geta ekki öll dýrin í skóginum verið vinir

,,Það er nú svo skrýtið, er á það ég lít" söng besti söngvari þjóðarinnar Vilhjálmur Vilhjálmsson í eigin texta fyrir alltof löngu. Enn á þetta þó vel við því enn er margt skrýtið. Stundum eru meira að segja einföldustu hlutir voða skrýtnir. Og svo er ég sjálfur líka voða skrýtin eða einsog leikskáldið orðaði svo skemmtilega í einu verka sinna,, skrýtinn fugl ég sjálfur". Svo er líka enn annað skrýtið og það er að líka má rita þetta orð með einföldu eða skrítið. 

Sjálfur er ég svo skrýtinn að það að allir vinni saman finnst mér það besta í heimi. Enda er það líka staðreynd ef við vinnum saman þá getum við gert svo miklu miklu meira. Nonni Sig var ekkert að djóka þegar hann sagði ,,Sameinaðir stöndum vér." En, já alltaf kemur þetta litla orð sem er svo gífurlega sterkt, það er nú bara alls ekkert alltaf sem við vinnum saman. Afhverju? Vildi ég gæti svarað því. Það er t.d. mjög skrýtið að stundum geta einföldustu hlutir orðið til þess að samstarf og samvinna gengur ekki á milli okkar mannfólksins. Sjálfur hef ég t.d. lent í því að það gangi ekki að vinna með mér því ég sé vinur þessa og þessa. Ég sé skyldur þessum og hinum. Eða jafnvel vegna þess að ég kaus Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum. Sem ég og gerði og er heldur ekkert að fela það. Auðvitað á hver að hafa sína skoðun á því að vild en held þó að það sé alveg hægt að vinna með manni þrátt fyrir það. Sjálfur vinn ég oft með fólki sem hefur kosið Vinstri græna eða Samfylkingu og alla hina flokkana líka. Mér vitanlega hefur það ekki haft nein áhrif á samstarfið enda erum við ekkert að ræða pólitík. Vinahópurinn er líka útúm allt í pólitík og það er bara gaman. Ég meina hvað væri varið í þetta alllt saman ef allir væru sammála. Hvað ættum við þá að ræða?

Kannski þurfum við bara að gera meira af því einsog áðurnefndur Vilhjálmur söng í einu sinna laga: Tölum saman.

Og svo skulum við öll vinna saman. Því það er svo miklu auðveldara og skemmtilegra.  

 

 


Þrjár dætur, þrjár systur

Ég er ríkur. Alveg ofboðslega ríkur. Ég á þrjú yndisleg börn. Þrjár dætur. Reyndar kynni ég oft sjálfan mig þannig að við hjónin eigum fjögur börn og ég sé það fjórða. Já, það er mikið lagt á mína góðu konu. Enn bættist í ríkidæmið þegar ég var svo gerður að afa fyrir tveimur árum. Það var minn miðburður sem setti mig í þetta frábæra afahlutverk. Já, það er þessi í miðjunni. Svo er það okkar frumburður og loks síðburður. 

Ég veit ekki hvort það er aldurinn eða hvað en síðustu ár hef ég alltaf verið að uppgötva betur og betur hvað það er í raun sem skiptir mestu máli í lífinu. Það er fjölskyldan. Við foreldrarnir erum bæði sjálfstætt starfandi listamenn og þið getið því vel ímyndað ykkur að mánaðarmótin eru oft erfið. En það eru bara ekkert þessir monnipeningar sem lífið snýst um. Það er fjölskyldan, samveran. Við þurfum ekker að eiga flatskjá, tvær bifreiðar, alla Lord of the Rings diskana helst í hátíðarúgáfu eða alla þessa dauðu hluti. Þegar ég hugsa um það þá leið okkur t.d. mjög vel þegar ég var í leiklistarnámi í Danmörku. Þá tókum við ekkert með okkur nema sokka og fataplögg. Ég tók ekki einu sinni námslán. Samt áttum við þar geggjuð tvö ár og gerðum margt saman sem fjölskylda. Fórum oft í dýragarðinnn, í tívolí, í alla þessa frábæru garða sem eru útum alla Kaupmannahöfn og enduðum oft á því að borða pakkaís, já þið vitið einsog hann var í gamla daga, útí garði. Fullkomið líf. Þarna komst maður fyrst að þessum stóra sannleika að fjölskyldan á ávallt að vera í fyrsta sæti. 

Vissulega hefur oft verið erfitt fyrir okkar góðu dætur. Pabbi á endalausum leikferðum eða þá að vinna í leikhúsinu. Stundum gerist það að eitthvert listaverkið gengur ekki og þá kemur ekkert í kassann. En samt hefur þetta gengið allt saman og líklega bara styrkt alla. Því það er ekkert gaman að fá allt uppí hendurnar. Eða einsog minn góði leiklistarskólastjóri sagði ávallt: Það sagði engin að þetta yrði auðvelt.

Og svona hafa árin liðið og dætur okkar eru alltaf að stækka og mikið sem við erum stolt af þeim. Frumburður löngu flutt að heiman og er að standa sig svona líka vel á Listnámsbraut FB. Miðburður er að stúdera hár og snyrtigreinar við Menntaskólann á Ísafirði og hefur heldur betur náð að festa hendur á verkefnið. Síðburður er svo í Grunnskólanum á Ísafirði og hlakkar mikið til að ganga áfram menntaveginn. Já, þær eru flottar þrjár systur. Framtíðin er þeirra.

Afastelpan mín er byrjuð á leikskólanum Sólborg og fílar sig heldur betur vel þar. Við eigum margar góðar stundir saman því bæði erum við miklir bókaormar. Loksins þegar afi kemur heim er hann settur í gamla stólinn í borðstofunni. Svo fer sú stutta í bókahilluna og nær í fyrstu bókina, oft verða sömu bækurnar fyrir valinu Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á hausinn á sér er mjög vinsæl. Svo tekur við lestur á svona tíu til fimmtán bókum. Afi skemmtir sér ekki síður en litla skottið.

Ég er mjög stoltur pabbi og afi.  


Hrósum meira

Sem lattelepjandi maður þá er ég voða kátur þegar mér er hrósað. Veit að það er fáranlegt að segja þetta en þetta er bara sannleikur. Í raun eru hrós oft okkar helstu laun sem erum í lattedeildinni. Því í raun skiptir hrós eða það að einhver sé ánægður með það sem ég er að gera í listinni mig meira máli en einhverjir monningar. Enda held ég að það sé staðreynd að ef maður sé ríkur þá er maður fátækur. Reyndar hef ég aldrei verið monningalega ríkur enn er maður að berjast við mánaðarmótinn þó maður sé orðinn 43 ára. Hinsvegar er ég mjög hamingjusamur. Já, ég veit þetta lopapeysulið heldur bara að það geti lifað á loftinu. Og svo bætist við frasinn: Af hverju færðu þér ekki bara vinnu?

Fyrir 20 mínútum eða svo (þ.e. þegar þetta er párað, svo verða mínúturnar bara fleiri eftir aldri þessa pistils) fékk ég hrós og þakkir frá áhorfenda sem var á sýningu hjá mér í Bolungarvík í janúar. Og ég segi bara einsog sungið í einhverju lagi: Mér líður vel, mér líður vel í dag. 

Meira þarf ekki til að gleðja mig. Enda hef ég ekkert verið að kikka á stöðuna á netbankanum í dag og ætla ekkert að vera að skemmileggja daginn.

Í raun ætti maður að vera duglegri við að hrósa fyrir það sem vel er gert. Sjálfur mætti ég gera meira af því. Enda kostar ekki neitt að hrósa og þakka það sem vel er gert. Mér fannst t.d. Anna Sigríður Ólafsdóttir standa sig vel síðasta laugardag þegar hún las uppúr verðlaunabókinni Blóð hraustra manna. En bókin sú fékk Tindabikkjuna verðlaun Glæpafélags Vestfjarða fyrir bestu glæpasöguna 2013. Samt hitti ég nú vinkonu mína á eftir þegar við átum hin glæpsamlegu verðlaun í Túninu heima. Betra seint en ekki svo nú segi ég bara: Annska þetta var vel lesið hjá þér. Þú hefur mjög áheyrilega rödd. 

Svo hér eftir mun ég stefna að því að hrósa meira þegar ég er ánægður með eitthvað sem ég sé eð upplifi.  


Dagur í lífi lattelepjandi manns

Oft er ég spurður af því hvað ég sé að gera í vinnunni. Hvað gerir þú eiginlega allan daginn? Já ég er nefnilega listamaður sem gjarnan eru nefndir lattelepjandi menn og konur. Líklega er þetta réttnefni hvað mig varðar því ávallt þegar ég fer á kaffihús þá fæ ég mér latte og það tvöfaldan. Því miður hef ég alltof lítið farið á kaffihús undanfarið því blessunarlega hefur verið mikið að gera í vinnunni. Já, vinnunni. Þetta er vinna þó ekki séu kannski allir því sammála. En það er líka allt í lagi það er nú ekkert varið í þetta ef allir eru á sama máli. Hvað er ég svo að gera? Og kannski frekar er ég eitthvað að gera? 

Það er að vísu svolítið erfitt að lýsa vinnudegi míns lattelepjandi dags. Engin dagur er eins því verkefnin eru mörg og fjölbreytt. Stundum er hinsvegar ekkert verkefni í gangi og þá er enn meira að gera því þá þarftu að finna uppá einhverju að gera, einhverju sem getur skapað þér monninga í þinn þunna og grunna buxnavasa. Til að geta þó áttað sig aðeins á mínu daglega vinnudegi þá get ég bara tekið gærdaginn fyrir, já ég er ekkert ósvipaður og kötturinn hvað minnið varðar. Svona var lattelepjandi vinnudagur minn í gær.

Föstudagur 31. janúar 2014

Vaknaði kl.7. Hefðbundinn morgunverður en ég er einn af þeim sem þarf að borða mikið á morgnana og það helst strax. Svo get ég nánast sleppt því að borða drjúgan hluta dagsins, tek reyndar ávallt með mér tvo ferska tómata í nesti.

Síðburðinum fylgt í Grunnskóla Ísafjarðar korter fyrir átta. Þaðan skundað beint á vinnustofuna sem er bara í næsta húsi eða í kjallaranum í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Er með aðstöðu þar sem áður var matreiðsla í Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði svo nú skiljið þið kannski afhverju ég þarf að vera búinn að eta mig saddann þegar eg mæti til vinnu.

Að sjálfsögðu hef ég með mér sterkt kaffi á vinnustofuna, svona ekta espressó mallað í Túninu heima. Fyrsta verkefni dagsins er að vinna í handriti og skipuleggja æfingar á söngleik sem ég er að æfa. Þetta er söngleikur sem ég setti saman í samstarfi við minn góða lattefélaga Guðmund Hjaltason. Heitir Jón Indíafari og hin vestfirska æska túlkar öll hlutverk leiksins. Erum kominn á þann stað þar sem allt er að fara að gerast í æfingaferlinu. Verið að sleppa handriti og byrja að fóta sig á sviðinu. Svo ég sem leikstjóri þarf að undirbúa æfingar vel, ákveða stöður, hvað hver er að gera, hvernig á leikmyndin að vera, svo allir söngvarnir það þarf að æfa þá svo mikilvægt er að vera vel undirbúinn fyrir hverja æfingu. Er að vinna í þessu í klukkutíma.

Þá er klukkan orðin 9.15, já þarf alltaf smá tíma á vinnustofunni áður en ég hefst handa. Kveiki á útvarpinu, drekk kaffið og gíra sjálfan mig upp.

Nú er kveikt á tölvunni sem er mikið vinnutæki fyrir mig og það er nú bara ótrúlegt hve tölvan er orðinn mikilvæg í okkar nútímasamfélagi. Byrja á að svara tölvupósti bæði frá gærdeginum og það sem hefur borist í dag. Mér finnst mjög mikilvægt að svara tölvupósti og hef ávallt haft þá reglu að svara öllum tölvupóstum. Fyrir utan þessa frá Nígeríu hef alveg látið þá vera. Þetta eru allskonar erindi sem berast í tölvupósti. Pantanir á leiksýningum sem Kómedíuleikhúsið mitt er með og sýnir um land allt berast nánast allar í gegnum tölvupóst í dag. Oftast eru það pantanir frá skólum en einnig frá hátíðum og fyrir ýmiskonar mannamót. Einnig berast reglulega póstar á Act alone leiklistarhátíðina sem ég stofnaði og er listrænn stjórnandi í dag. Þó hátíðin sé ekki haldin fyrr en aðra helgina í ágúst ár hvert þá berast í viku hverri póstar á hátíðina. Oftast eru það fyrirspurnir frá erlendum listamönnum sem langar að koma fram á hatíðinni.

Korteri síðar eða svo þá er farið á veraldarvefinn. Skanna fréttavefi landsins en byrja þó ávallt á nær umhverfinu og þar er bb.is málið. Svo er farið á Andlitsbókina. Það má margt gott segja um þann vef og öruggulega margt slæmt líka. Auk þess að vera með eigin síðu þá er ég einnig með síður fyrir mín apparöt sem eru þó nokkur. Kómedíuleikhúsið, Þjóðlegu hljóðbækurnar, Act alone, Leikhús á Vestfjörðum. Svo er ég tengdur ýmsu öðru apparti m.a. Glæpafélagi Vestfjarða. Maður reynir að halda þessum síðum opnum enda er þetta sterkt upplýsinga og jafnvel auglýsingatæki ef vel er notað. Svo maður setur gjarnan stöðuuppfærslur á sínar síður um næstu sýningu, leikferð, frumsýningu osfrv. Meiri veraldarvinna liggur fyrir því ég er bæði með heimasíðu fyrir Kómedíuleikhúsið og Act alone. Það hefur sýnt sig að ef maður uppfærir ekki síðuna reglulega þá dettur öll umferð á vefinn niður. Eðlilega ef ekkert nýtt kemur inná heimasíðuna nú þá er engin þörf að kikka á hana. Ég er svo lánsamur að úrvals hönnuðir settu upp þessar síður sem er einfalt að uppfæra sjálfur.

Það fer alveg klukkutími í þetta. Næst þarf ég að skunda til góðs vinar míns og samstarfsfélaga Jóhannesar Jónssonar. Við höfum brallað margt í gegnum tíðina. Mest hefur það þó verið í tengslum við hljóðbókaútgáfu Kómedíuleikhússins. Hann var einmitt að fjölfalda fyrir mig hljóðbækur sem voru búnar. Það er nefnilega að skella á hinn árlegi Bókamarkaður Félag íslenskra bókaútgefenda og þar verða hljóðbækur okkar til sölu. Við Jói tökum einn kaffi, ekki latte að þessu sinni heldur staðið og gott kaffi. Soldið sterkt. Skunda aftur á vinnustofuna með 100 eintök af hljóðbókum. Nú tekur við að prenta á diskana og pakka þeim í viðeigandi hulstur. Það fer nokkur drjúgur tími í þetta því ég get bara prentað einn disk í einu.

Nú er klukkan að verða 12.42 og vinna hefst við næsta verkefni dagsins. Að udirbúa æfingu á leikritinu Lína Langsokkur sem ég er að leikstýra á Þingeyri. Það er æfing í kvöld og allur leikhópurinn mætir hátt í tuttugu manns. Svo það er eins gott að vera vel undirbúinn.

Varð að gera stuttan stans í Línu ævintýri til að taka þátt í öðru ævintýri. Bíldalíu. Vinur minn Ingimar Oddsson var að fá styrk fyrir verkefni sem hann nefnir Bíldalía og er einstakt verkefni á nema hvað Bíldudal. Margmiðlun, bókaútgáfa og meira að segja útgáfa eigin myntar. Strákurinn var að fá þennan fína styrk fyrir þetta verkefni. Og þar sem lokað er á milli norður og suðursvæðis Vestfjarða meira en helming ársins þá bað hann mig að taka á móti þessu sem ég gerði með mikilli ánægju.  

Aftur skundað á vinnustofuna klukkan er nú 13.56 og ég held áfram að undirbúa æfingu á Línu Langsokk.

Klukkutíma síðar eða 14.56 er það næsta verkefni. Nú er það tímarit sem ég er að fara gefa út með mínum góða bróður Þórarni Hannessyni. Tímaritið heitir Arnarfjörður sem er okkar fæðingarstaður en við ólumst upp á Bíldudal við Arnarfjörð. Einsog Jón úr Vör sagði þá ,,fer þorpið með manni alla leið". Þetta tímarit er hugsað sem ársrit og efnið verður sótt í hinn sögulega Arnarfjörð. Um menn og málefni, viðburði, hús, félög og já bara allt sem hefur gerst í þessum mikla sagnafirði. Ritaði eina grein um síldveiði í Arnarfirði og lagði drög að grein um ár Þorsteins Erlingssonar á Bíldudal. En hann var ritstjóri blaðsins Arnfirðingur sem Bíldudalskóngurinn Pétur Jens Thorsteinsson gaf út. 

Klukkan er að verða 16 og nú er gerð smá pása í vinnunni. Skunda í Bónus og hingað og þangað í þágu heimilisins.

Klukkan 18.40 falla öll vötn til Dýrafjarðar. Skunda í gegnum göngin, yfir Gemlufallsheiði og stöðva ekki fyrr en við Björgunarsveitarhúsið á Þiingeyri. Þar er einmitt að hefjast æfing á Línu Langsokk eftir 15 mínútur svo að vanda byrjar maður á því að hella uppá kaffi. Korteri síðar eru allir mættir, mjög stundvísir leikarar enda er það mikilvægt í leikhúsinu. Það er góður stemmari á æfingunni, mikið hlegið og við meira að segja prófum að sleppa handriti í einu atriðinu. Vippuðum okkur bara á gólfið og prófuðum stöður. Verð að nota tækifærið og hrósa leikurunum fyrir að vera dugleg að læra textann sinn. Það er ekki nema vika síðan við byrjuðum að æfa og leikarar fengu hlutverk og handrit í hendurnar.

Klukkan 22 er æfingu á Línu lokið.

Skunda til tengdaforeldra minna á Þingeyri en þar er einmitt minn betri helmingur. Skuttlaðist með mér yfir til að eiga góða stund með sínum frábæru foreldrum. Tengdaforeldrar mínir eru miklir listamenn. Tengdapabbi var einmitt að vinna í hesthaus fyrir hestinn hennar Línu. Hann á eftir að stela senunni er ég hræddur um því þessi hestur getur bæði depplað augunum og blakað eyrunum.

Klukkutíma síðar eða kl.23.30 erum við komin heim í Túnið. Þá var nú bara lagst í sófann og nema hvað sett á DR 1 þá úrvals stöð. Horfðum á tvöfaldan þátt með Mr. Marple hina dásamlegu persónu Agötu Christie.

Þannig var nú föstudagurinn 31. janúar 2014 í mínu lattelepjandi lífi.  


Kemur sirkusinn ekki í bæinn í ár?

Þó ég hafi aldrei migið í saltann sjó enda kominn af kaupmönnum og klerkum langt, langt aftur í ættir. Þá má samt segja að ég sé einskonar sjómaður. Ég verð í minni vinnu að róa til að fiska. Segir sig sjálft ef þú gerir ekkert nú þá gerist ekkert og þar með kemur ekkert í sjóðinn. Ég er semsé ekki eignilegur sjómaður heldur kannski frekar ,,sjóvmaður". Já ég er nefnilega leikari einn af þeim sem ætti nú bara að fá sér vinnu. Er meira að segja með eigið leikhús sem heitir Kómedíuleikhúsið. Þetta er leikhús er staðsett á Ísafirði og er fyrsta og eina atvinnuleikhús Vestfjarða. Þrátt fyrir það þá er markaður okkar landið allt. Við ferðumst mikið um landið með sýningar okkar. Oftast sýnum við fyrir hópa og kemur það ávallt best út fyrir hið kómíska bókhald því þá er sýningin seld á ákveðnu verði. En við erum líka oft með svokallaðar opnar sýningar þ.e. þegar áhorfendur borga sig inn. Þá vill nú oft hið kómíska bókhald verða sérlega kómískt. Maður veit aldrei hve margir mæta í leikhúsið. En alltaf kemur nú einhver og stundum koma margir. Fyrir leikarann þá skiptir engu hve margir koma því hann þarf alltaf að gera sitt besta og sýna sýningu. Enda ekki annað sanngjarnt þegar fólk hefur keypt sig inn þá á það fullan rétt á því að fá sína leiksýningu burt séð frá því hvort 4 eða 104 eru í salnum. Oft hef ég sýnt fyrir innan við tíu áhorfendur og vissulega tekur það á, líklega meira fyrir áhorfendur. En ávallt næst gott samband og ávallt gerir maður sitt besta. Einsog vinur minn Hemmi Gunn sagði ávallt: Þetta er bara svona. 

Í minni æsku var vissulega mun færra í boði í afþreyingu en í dag. Ég meina ég var orðinn 10 ára þegar myndbandstæki kom fyrst inná mitt heimili. Það var meira að segja Beta tæki. Það var bara Ríkissjónvarpsstöðin með sjónvarpslausum fimmtudögum og sumarfrí stöðvarðinnar. Rás tvö kom svo á mínum táningsárum. Það var því ávallt mikið fjör í bænum þegar eitthvað var í boði í þorpinu leiksýning, tónleikar eða bíósýningar. Ég var svo heppinn að ég fékk að fara á alla þessa menningarviðburði sem ég vildi fara á. Samt vorum við ekkert rík en ríkidæmið voru þessar stundir sem fóru ávallt fram í samkomuhúsi þorpsins Baldurshaga. Ég gleymdi því aldrei þegar Sumargleðin kom. Þar var mitt uppáhald æskunnar Bessi Bjarnason. Og þarna fékk maður að sjá hann í alvörunni sko. Hann hóf sýninguna með því að sópa salinn og aldrei hef ég séð  nokkurn mann sópa jafn skemmtilega. Þjóðleikhúsið kom líka reglulega og ég fór alltaf þegar það kom. Reyndar hefur það nú ekki mikið farið útá land síðasta áratug eða svo. Það finnst mér nú nokk skrítið þar sem þetta á nú að heita Þjóðleikhús en það er allt önnur umræða og látum hana vera hér. Þrír trúbadorar komu svo árlega í nokkur ár. Og engir aukvissar. Erum að tala um Bubba, Hörð Torfa og Megas. Síðast en ekki síst voru það bíósýningarnar verst var þó að bíða eftir því að verða sextán til að komast á þær myndir sem manni fannst nú mest spennandi. Reyndar áttum við púkarnir það til að stelast í bíó en segju ekki frá því hér.

Eftir því sem árin liðu þá bættist nú alltaf í úrvalið í afþreyingunni. Árið 1990 er mér sérlega minnisstætt. Þá fór ég ásamt mínum besta vini sem er eiginkona mín í dag á tónleika með Herði Torfa. Einum af mínum uppáhalds listamönnum. Tónleikarnir voru að vanda haldnir í Baldurshaga. Til að byrja með leið mér ekki vel á þessum tónleikum. Ástæðan. Jú hún var sú að við vorum sex á tónleikunum. Já, sex manns mættu á Hörð Torfa. En listamaðurinn tók þessu einsog hetja og huggaði okkur með því að segja að: Þetta væri nú ekkert. Í síðustu viku þá var ég með tónleika í Borgarfirði og þar mætti ein kona. En þetta voru mínir bestu tónleikar til þessa.

Árið eftir voru engir tónleikar með listamanninum í þorpinu.

 


Íslendingasögurnar á mannamál fyrir framtíðina

Í dag fíla ég Íslendingasögurnar. Þessar miklu bókmenntaperlur þjóðarinnar eru frábærar og í raun fullkomnar sögur. Innihalda allt. Ást, hatur, spennu og já bara það sem þarf til að halda lesandanum við efnið. Eini gallinn er kannski sá að það er ekkert létt að lesa þessar sögur þó það sé mun auðveldara núna en þegar ég var yngri. Hvað þá þegar ég var á mínum unglingsárum þá botnaði ég ekkert í þessum texta. Ég þurfti meira að segja að vera tvo vetur í Gísla sögu Súrssonar. Einmitt þeirri sögu sem ég hef mest dálæti á í dag. 

Börn mín hafa þurft að ganga þessa lestrarþraut og glímu við Íslendingasögurnar. Núna er minn miðburður að lesa Fóstbræðrasögu. Pabbi, gamli, hefur verið að aðstoða hana og hef ánægju af. Hinsvegar hef ég tekið eftir því að þetta er alls ekkert auðvelt lestrarefni. Þessi texti er bara of flókinn sem um leið leiðir til þess að hinn ungi lesandi á erfitt með að skilja hann. Um leið þá gerist það eðlilega að áhuginn minnkar. Segir sig sjálft ef maður skilur ekki efnið þá verður engin neisti. Einosg þegar ég þurfti að glíma við algebruna ég þurfti að taka þann áfanga þrisvar sinnum. Já, þrisvar. Ég bara skildi þetta ekki. Hef nú heldur aldrei verið sleipur í reikningnum en mikið var ég glaður þegar ég loks fattaði algebruna og rúllaði upp prófinu, loksins, sagði minn góði kennari Pétur Önundur Andresson í Héraðsskólanum Reykholti. 

Það var einmitt á Reykholti sem ég háði aðra atlögu við Gísla Súrsson. Þar var stórkostlegur kennari Snorri Jóhannesson sem fílaði sig svo inní söguna að unun var að. Ég sextán ára patti varð heillaður þegar hann ekki bara lýsti sögunni heldur lék hana hana. Sérlega er mér minnisstætt þegar hann tók fyrir lokabardaga Gísla á Einhamri í Geirþjófsfirði. Þá varð hann svartur í framan enda hafði hann rétt áður þurrkað af tússtöflunni þar sem hann hafði teiknað sverðið Grásíðu og svo þegar hann stóð á hamrinum þurrkaði hann svitan af enni sér og svarti tússinn setti þar sitt mark. Áhrif þessara Gíslakennslustunda í Reykholti urðu slík að snemma ákvað ég að gera leiksýningu um þann Súra. Það tókst árið 2005 og hefur líka lukkast svona vel að ég er ennþá að sýna þessa sýningu. Hef farið með hana nokkrum sinnum útí heim, leikið hana bæði á íslensku og ensku. Í dag eru sýningar á verðlaunaleiknum Gísli Súrsson orðnar 269 og samt bara rétt að byrja. Margar sýningar hafa þegar verið bókaðar á þessu ári. 

En nú er ég farinn út og suður í þessum Íslendingasögupistli en þó ekki. Því ég tel víst að ef þessar sögur eru poppaðar soldið upp einsog ungdómurinn segir þá verður þetta allt miklu skýrara. Þó held ég að mikilvægt sé að vinna texta sagnanna betur og einfalda hann fyrir skólabókaútgáfu. Nú hrista ábyggilega margir spekingar hausinn og vilja halda í hina eldgömlu íslensku. En hafið ekki áhyggjur þau munu lesa hinn upprunalega texta síðar. Því ef textanum er aðeins lyft upp á blaðinu og færður til nútímans, erum þó ekki að tala um að setja eitthvað slangur í þetta, þá nær hin efnilega æska efninu. Fattar það. Um leið vaknar áhugi því engin efast um að þessar sögur eru magnaðar.

Ég er alls ekki að skjóta á kennara þessa lands sem eru að kenna Íslendingasögurnar. Því ég veit að þeir beita öllum ráðum til að matreiða efnið sem mest þeir geta fyrir sína nemendur. En það þarf að stíga lengra og taka námsbækurnar sjálfar til endurskoðunnar. Færa þær til nútímans fyrir framtíðina.

Ef ekki þá gæti farið einsog fór fyrir mér þegar ég var að læra Íslandsklukkuna eftir Halldór Laxness. Mikið var það leiðinleg lesning í minningunni. Svo leiðinleg að síðan hef ég ekki viljað líta og hvað þá lesa bók eftir þennan mikla skáldjöfur. Minnningin er sterk og fer með mann allaleið líkt og þorpið. Samt er fólk alltaf að tala um hve þessar bækur Laxa séu flottar. En bara áhuginn var ekki vakinn eða kannski var þetta bara of snemmt, ég meina var ekki nema 16 ára þegar ég las þessa leiðinlegu sögu. Þá erum við nú komin að allt annarri spurningu, kannski er bara betra að við lesum Íslendingasögurnar síðar á námsárunum?  


Sex í vestfirsku leikhúsi

Leiklist stendur á gömlum merg á Vestfjörðum. Í mínum heimabæ, Bíldudal, var byrjað að leika strax árið 1894 og voru meira að segja sett upp þrjú verk það ár. Síðan þá hefur verið leikið á Bíldudal sem og um alla Vestfirði. Fjölmörg áhugaleikfélög eru starfrækt um alla Vestfirði og það skemmtilega er að mörg þeirra hafa verið að vakna úr dvala síðustu misseri nú síðast var það Leikfélag Flateyrar sem setti upp bráðfjörugan farsa. Í skólum eru líka sett upp leikrit fyrir áramót sýndi Grunnskóli Ísafjarðar söngleikinn Söngvaseið og Menntaskólinn á Ísafirði hefur sett upp leikrit árlega kannski bara frá upphafi þori þó ekki að fara með það. Síðast en ekki síst er rekið atvinnuleikhús á Vestfjörðum sem heitir Kómedíuleikhúsið og er það einmitt tilnefnt til Eyrarrósarinnar nú í ár.

Ef ég tel rétt og hef frétt rétt þá eru sex leikrit nú að fara í æfingu á Vestfjörðum. Þar af eru tvö ný íslensk verk en óhætt er að segja að Vestfirðingar eiga líklega Íslandsmet í frumfluttningi nýrra leikverka. Nægir að nefna að Kómedíuleikhúsið hefur frumflutt 35 íslensk leikverk og það á aðeins 16 árum. Kannski er þetta bara heimsmet?

Í gær var Vestfirska skemmtifélagið með leik- og söngprufur fyrir nýjan vestfirkskan söngleik Jón Indíafari. Um er að ræða sýningu sem verður leikin af ungu listafólki en höfundar eru sá sem hér ritar og Guðmundur Hjaltason. Skemmst er frá því að segja að það var mikið fjölmenni á prufunni og mættu miklu fleiri en fá hlutverk. Æfingar á Jón Indíafara hefjast á sunnudag og stefnt er að frumsýningu um miðjan febrúar. Litli leikklúbburinn er einnig að fara af stað í mikið ævintýri. Nú um helgina verður haldið leiklistarnámskeið í Edinborgarhúsinu. Í framhaldinu hefjast síðan æfingar á klassíkinni Þið munið hann Jörund eftir Jónas Árnason. Vippum okkur nú yfir fjöll og fjörðu eða falla nú öll vötn til Þingeyrar. Íþróttafélagið Höfrungur sem starfrækir sérstaka leikdeild boðaði til kynningarfundar í upphafi vikunnar. Fundarefnið var uppsetning á einu vinsælasta barnaleikriti allra tíma nefnilega Línu Langsokk. Þegar er búið að setja í öll hlutverk slíkur er áhuginn og krafturinn í Dýrafirði. Æfingar hefjast laugardaginn 25. apríl og stefnt er að frumsýningu í byrjun mars. Atvinnuleikhús Vestfjarða mun svo frumsýna nýtt íslenskt leikrit Halla sem er byggt á samnefndri ljóðabók eftir vestfirska skáldið Stein Steinarr. Handritsskrif standa nú yfir í herbúðum Kómedíuleikhússins en stefnt er á frumsýningu í byrjun apríl. Nú fimmta leikritið sem er væntanlegt á hinar vestfirsku fjalir er hin árlega uppfærsla Menntaskólans á Ísafirði á Sólrisuhátíð þeirra. Loks berast fréttir af því að hið ofurduglega Leikfélag Hólmavíkur ætli að setja upp barnastykkið Skilaboðaskjóðan eftir Þorvald Þorsteinsson. Verkefnið er unnið í samstarfi við grunnskóla staðarins.

Það má alveg segja það að sexið sé sexý og málið í hinu vestfirska leikhúsi þessa dagana.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband