Sundlaugamenning

Um helgina skellti ég mér í sund með tvær af prinsessum mínum. Sem er svosem ekki í frásögur færandi alltaf jafn hressandi að fara á þessa heilsubætandi staði og ávallt segir maður við sjálfan sig að lokinni heitapottssetu ,,af hverju fer maður ekki oftar". Að þessu sinni fórum við í sundlaugina í Bolungarvík sem er í miklu uppáhaldi hjá prinsessunum því þar er nefnilega rennibraut. Hún hefur reyndar verið lokuð uppá síðkastið en nú er hægt að renna sér að nýju og var heldur betur tekið á því ætli ferðirnar hafi ekki náð hátt í þriðja tuginn. Sundlaugin á Suðureyri er líka vinsæl hér á heimilinu en þar er úrvalsfín útisundlaug ásamt sér barnalaug að ógleymdum heitum potti. Laugin á Þingeyri er líka mjög góð en þar er innilaug, góður heitur pottur og ávallt heitt á könnunni líkt og á hinum stöðunum. Að vísu var ekki boðið uppá kaffi í Bolungarvík um helgina við heitapottinn en það hefur líklega bara gleymst. Hér á norðurfjörðum Vestfjarða er því gott úrval sundstaða og engin ástæða til að bæta við fleirum, finnst mér. En öðrum sjálfsagt ekki. Auðvitað væri gaman að hafa stóra og góða sundlaug á hverjum einasta stað. Hinsvegar hafa samgöngur batnað talsvert á okkar norður svæði og nú síðast með Bolungarvíkurgöngum og því lítið mál að þurfa að aka í 20 mín til að baða sig. Byggjum heldur enn frekar upp þá góðu sundstaði sem við höfum í dag í stað þess að ætla að reka marga við erum ekki það mörg heldur að það beri sig. Fyrir skömmu var tekið upp alveg stórniðugt kerfi hvað varðar sundstaði í Ísafjarðarbæ. Nú getur þú keypt þér sérstakt kort sem gildir í allar sundlaugar bæjarins. Þetta er auðvitað málið og nú er bara að stækka dæmið enn frekar og hvetja sundlaugar Vestfjarða til að taka upp víðtækt samstarf í formi Sundlaugarkorts Vestfjarða. Þú keyptir þér bara eitt kort, gæti verið árskort eða 10 sundferðakort eða hvernig sem menn vilja, sem gildir í allar sundlaugar á Vestfjörðum. Alveg er ég sannfærður um að þetta mundi vera vinsælt og án efa fjölga gestum í sundlaugum Vestfjarða sem og auka sundlaugarmenninguna sem er bara skemmtilegt. Auk þess færi maður án efa oftar í sund á á fjölbreyttari stöðum ég hef t.d. aldrei farið í sundlaugina á Patreksfirði sem mér skilst að sé mjög flott.
Það rifjaðist lika upp fyrir mér um daginn þegar ég fann ekki kaffið í Bolungarvík þegar ég fór í ferðalag til Belgíu fyrir mörgum árum. Fór með frábærum hópi starfsfólks í Frystihúsi Bíldudals sem þá var og hét. Þar sem við vorum í Belgíu var stór og mikil sundlaugarhöll. Geysistór sundlaug sem var með öldum, já þegar heyrðist lúðrablástur í höllinni var það merki um að nú væri settur af stað öldugangur í lauginni sem varði í nokkrar mínútur. Það var voða sport að vera þá á sundi. Mest þótti mér þó varið í það að þarna var einnig hægt að tilla sér við borð og panta sér veitingar. Franskar og öl til að mynda og meira að segja höfðu þeir fyrir því að gera fyrir okkur Íslendingana kokteilsósu, eftir að við höfðum gefið þeim upp hina leyndardómsfullu uppskrift. Nú stoppa örugglega margir og hrópa haleljúa. Á nú að fara að selja vín og bús í sundlauginni líka. Já afhverju ekki? Íslensk drykkjumenning hefur breyst umtalsvert síðustu árin nú er allt í lagi að fá sér bara tvo í stað þess að fara alltaf á fyllerí einsog var hér áður og fyrrum. Þannig var þetta einmitt í Belgíunni þegar ég dvaldi í sumarparadísinni þar aldrei var neinn þarna öfurölvi ekki einu sinni við Íslendingarnir. En þetta var nú bara aukapæling margt annað mætti hugsa sér í sundlaugarmenninguna t.d. tónleika, ljóðaupplestur þar sem flytjendur eru í sundlauginni gestir á bakkanum - já það er mikilvægt að hafa gaman og njóta lífsins og það eigum við líka að gera í sundlaugunum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Víst er hugmyndin góð Logi, Sundlaugakort fyrir Vestfirði. Það mætti jafnvel hafa sundlaugakort fyrir allt landið, til hægðarauka fyrir ferðamenn. Bestu kveðjur í bæinn

Bergljót Gunnarsdóttir, 17.5.2011 kl. 17:43

2 Smámynd: Elfar Logi Hannesson

alveg rétt Beggó - samstarf er af hinu góða á öllum sviðum, ekki síst í menningunni og ferðamannabisnesnum, sem og bara almennri þjónustu. Kveðjum komið á framfæri og bestu kveðjur í ykkar góða hús líka, sjáumst sennilega bara á Bíldó í sumar kannski bara í heitapottinum

Elfar Logi Hannesson, 17.5.2011 kl. 18:01

3 Smámynd: Hörður Halldórsson

Veitingasala í sundlaugum ? Einhverjir Austur Evrópumenn tóku með sér bjórkippur í nesti , að mig minnir Hafnarfjarðarlaug.Var þeim  vísað út með veigarnar .Þeir hafa miskilið þetta eitthvað .En íslenskar laugar eru í svo háum staðal og smartar .Þeir héldu að þetta  væri vatna og skemmtigarður.Fór einhvern tímann sjálfur í Badeland í Danmörku og þar  var veitingasala.

Hörður Halldórsson, 17.5.2011 kl. 18:53

4 Smámynd: Elfar Logi Hannesson

já hafa þetta bara kúltíverað fá sér einn á bakkanum en samt ekki þannig að maður geti tekið með sér nesti held við séum ekki reddý fyrir það, en annars má maður nú gera það í Nauthólfsvíkinni ef ég man rétt.

Elfar Logi Hannesson, 17.5.2011 kl. 19:04

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gleymdir Flateyri og fínu þjónustunni hennar Láru, sem er alltaf með heitt á könnunni.  Og svo Reykjanesinu, þar má fara með öl út í laugina í dósum en ekki gleri.  Annars fín hugmynd að láta útbúa svona Vestfjarðakort ekki síst fyrir ferðamenn.  Það hefur talsvert verið fjallað um sundlaugar á Vestfjörðum sem eina heild, og bara gott mál.

Ég hef verið í Austurríki í einmitt svona laug með öldugangi og veitingum allskonar, svo kemur fólk líka með nesti og situr á laugarbrúninni og nýtur dagsins meðan börnin busla. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.5.2011 kl. 20:10

6 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Bláa lónið er með bar úti í miðju lóni!

Bergljót Gunnarsdóttir, 17.5.2011 kl. 20:20

7 Smámynd: Elfar Logi Hannesson

rétt Ásthildur ekki er nú hægt að gleyma Láru sem er bara stór partur af sundlaugarferð á Flateyri sannkölluð perla. Einu sinni flutti Morrinn minn Tímann og vatnið eftir Stein Steinarr ofan í sundlauginni þarna og við vorum með geggjaðan gestalesara okkar kæra Einar Odd - ógleymanleg stund. Gerðum þetta reyndar víðar í sundlaugum Ísóbæjar og lukkaðist vel. Reykjanes er líka töff og allar laugar almennt hver hefur sinn sjarma og karakter alveg einsog leikhúsin. Já held að svona kort mundi líka nýtast íbúum Vestfjarða mjög vel og vera partur af því að sameina loksins kjálkann þó lítið skref sé. Annars líst mér dúndur vel á hugmyndina hennar Beggó að geta keypt sunlaugarlandskort - og minnir mig á það að enn á ég eftir að fara í hið Bláa lón

Elfar Logi Hannesson, 17.5.2011 kl. 20:31

8 identicon

Sæll minn kæri, þakka þér jákvæðar hugleiðingar um sundlaugarmenninguna. Sundlaugar gegna nefnilega mikilvægu félags og uppeldislegu hlutverki í okkar samfélagi. Á árum áður byggðum við fyrst og fremst utanum laugarkerin fyrir sundnámið, samkv námskrá skólanna, sem nýtist auðvitað einnig misöflugu starfi sunddeilda. Hin síðari ár hefur uppbyggingin meira tekið mið af þörfum fjölskyldunnar til afþreyingar og skemmtunar, með aukinni áherslu á heita potta, vaðlaugar, bunustútum og vatnsrennibrautum. Með þetta að  markmiði voru t.d endurbæturnar á  sundlaugargarðurinn í Bolungarvík gerðar, og áform eru um að gera myndarlegan fjolskyldupoll jafnvel með bunudóti fyrir börn á öllum aldri. Í þetta verður vonandi ráðist um leið og "alvald peninganna" setur málið í forgang. Mér þykir það sannarlega leitt, kæri vinur, að þú skulir ekki hafa fundið kaffið úti í garðinum er þú komst til okkar í sundlaugina. En í forsal þessa musteris okkar er standandi kaffi alla daga " on the house" fyrir okkar gesti. Sannfærður er ég um það að ef þú hefðir borið þig upp við  starfsmann okkar á staðnum þá hefði sá hinn sami borið þér kaffidreytil út í garðinn. Venjan hjá okkur er hinsvegar  sú að vera, öllu jafna, með kaffi fyrir gesti okkar úti í garðinum yfir sumartímann, eða frá 1. júní til 31. ágúst en þá er sundlaug Bolungarvíkur opi alla virkadaga frá kl 08.00 til kl 21.00 og um helgar frá kl. 10.00 til kl 18.00( svo ég plöggi nú pínulítið í leiðinni). Reyndar fór ég í sundlaugina í Bolungarvík s.l sunnudag þá var ,sem oftar, sól og blíða og heitt á könnunni í garðinum.  Sjáumst í sundi!

Gunnar Hallsson (IP-tala skráð) 19.5.2011 kl. 11:37

9 Smámynd: Elfar Logi Hannesson

þakka þennan fróðlega pistil um sundlaugarsýstemið og líst vel á ,,fjölskyldupollinn". Það væri mjög skynsamlegt hjá þeim sem ráða yfir monningunum að ráðast í þetta verkefni því einsog ég hef reynt að benda á þá hleður bara svona dæmi uppá sig einsog sýndi sig með rennibrautina á sínum tíma - kostaði jú peninga en fjölgaði örugglega gestum um heilan helling. Kaffidæmið var nú bara nefnt veit að það hefði ekki verið neitt mál að fá kaffi útí garðinn en ég fékk mér kaffið einmitt við afgreiðsluna eftir sundið, mjög gott. Sundið eflir og hressir sjáumst.

Elfar Logi Hannesson, 19.5.2011 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband