Tökum upp skóla að hætti Barbapabba

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Er engin lygi. Bækur voru á mínu heimili sem hafa sannarlega átt þátt í að móta mig og jafnvel gera að aðeins skárri manni. Sumar bækur æskunnar eru ekki ósvipaðar og Jón úr Vör sagði um þorpið, að það fari með manni alla leið. Í minni æsku voru bækurnar um Barbapabba í miklu uppábhaldi. Þar hafði líklega sjónvarpið sitt að segja því þar voru einmitt sýndir þættir um þessa síbreytilegu fjölskyldu. Víst gat þar allt gerst líkt og í ævintýrum. Því þessi fjölskylda er þeim kostum búin að hún getur breytt sér í hvað sem er. Alveg sama hvað. Tannhjól, skip, flugvél, flugfisk já bara nefnið það. Sú bók sem var í mestu uppáhaldi hjá mér af Barbapabba bókunum var Skólinn hans Barbapabba sem kom út árið 1977 en þá var ég sex ára. JPV gaf síðan bókina út á nýjan leik þrjátíu árum síðar og sú útgáfa er nú til á mínu heimili, hinn er öll í henglum enda lesin mun oftar en Lukku Láka bækurnar sem ég átti en þó var hann líka skemmtilegur.

Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri í dag er að lesa fyrir afstelpuna mína hana Sögu Nótt. Hún verður tveggja ára í upphafi komandi árs. Við eigum okkar lestrarstundir. Þá sest ég, afi gamli, í gamla stólinn í borðstofunni og sú stutta fer síðan í bókahilluna og sækir þangað lesefni. Síðan hefst lesturinn og úrvalið er fjölbreytt. Hún hefur t.d. mikinn áhuga á fræðibók um víkinga, hin stórkostlega bók Allt í einu sem ég man ekki hver samdi en hún tók einmitt þessa bók með sér þegar hún skrapp til ömmu sinnar í Súðavík í gær. Síðast en ekki síst eru bækurnar um Barabapabba sérlega vinsælar. Þar fer fremst í flokki einmitt bókin Skólinn hans Barbapabba. Og ekki leiðist afa að lesa þá bók.

Skólin hans Barbapabba fjallar um það þegar mannlegu tvíbura vinir Barbana er að fara í skólann í fyrsta skipti og barbarnir fara með þeim. En ekki gengur nú kennaranum vel að hafa stjórn á æskunni í skólastofunni og loks gefst hann upp og grætur við öxl skólastjórans, eða er það bæjarstjórinn. Ekki alveg viss. Allir fara að rífast ekki bara þeir fullorðnu heldur og krakkarnir. Barbaþór og Barbaljóð byrja að spila og auðvitað er Barbaþór hljóðfærið og við það róast nú nokkrir óþekktarormar og taka upp dansa. Hinir fullorðnu sjá bara eitt í stöðunni. Tuska þessa púka til flengja eða fangelsa bara.

Barbapabba líst ekki á þessa aðferð og bendir á að engin börn séu alveg eins. Sum hafa gaman af tónlist, önnur af dansi, hinir þriðju af bílum og svo mætti lengi telja. Hinum fullorðnu líst nú ekki svo á þetta en vilja þó að Barbarnir fái að setja á stofn sinn eigin skóla, svona áður en flengingar hefjist.

Og hvað skyldi nú vera kennt í skóla Barbapabba. Jú, þar fer sköpun og fjölbreytileiki fremst í flokki. Barbafín og Barbaljóð bjóða uppá dans og tónlist, Barbasnjall er vitanlega allur í tækninni kennir þeim að skrúfa hluti í sundur og aftur saman. Þá er nú gott að hafa Barbana til aðstoðar sem breyta sér í allra handa vélar, tannhjól, bora og ég veit ekki hvað. Settur er upp matjurtargarður og náttúran skoðuð, í alvörunni sko, farið útí náttúruna og hún könnuð. Ekki má gleyma deild Barbakærs sem kennir teikningu og þar má sko mála á veggina. 

Allt leikur í lindi og gamni. En þó fara púkarnir eitthvað að fljúgast á og Barbamamma fer alveg í kerfi. Barbaþór veit lausnina á því og allir fara út í leiki og sparka bolta.

Fullorðna fólkið kemur í heimsókn og er bara alveg steinhissa. Og meira að segja gamli kennarinn getur núna kennt krökkunum.

Svo er haldin hátíð, mikil hátíð. Allir hjálpast að við að gera hátíðina sem flottasta. Börnin eru þar í aðalhlutverki þau dansa, spila og hafa svo til sölu það sem þau hafa búið til í skólanum. 

Ég er nokk viss á því að ef við færum að dæmi Barbapabba og hans fjölskyldu þá væri þessi Pisa sem alltaf er verið að tala um fljótur að rétta við sér.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband