Sex í vestfirsku leikhúsi

Leiklist stendur á gömlum merg á Vestfjörðum. Í mínum heimabæ, Bíldudal, var byrjað að leika strax árið 1894 og voru meira að segja sett upp þrjú verk það ár. Síðan þá hefur verið leikið á Bíldudal sem og um alla Vestfirði. Fjölmörg áhugaleikfélög eru starfrækt um alla Vestfirði og það skemmtilega er að mörg þeirra hafa verið að vakna úr dvala síðustu misseri nú síðast var það Leikfélag Flateyrar sem setti upp bráðfjörugan farsa. Í skólum eru líka sett upp leikrit fyrir áramót sýndi Grunnskóli Ísafjarðar söngleikinn Söngvaseið og Menntaskólinn á Ísafirði hefur sett upp leikrit árlega kannski bara frá upphafi þori þó ekki að fara með það. Síðast en ekki síst er rekið atvinnuleikhús á Vestfjörðum sem heitir Kómedíuleikhúsið og er það einmitt tilnefnt til Eyrarrósarinnar nú í ár.

Ef ég tel rétt og hef frétt rétt þá eru sex leikrit nú að fara í æfingu á Vestfjörðum. Þar af eru tvö ný íslensk verk en óhætt er að segja að Vestfirðingar eiga líklega Íslandsmet í frumfluttningi nýrra leikverka. Nægir að nefna að Kómedíuleikhúsið hefur frumflutt 35 íslensk leikverk og það á aðeins 16 árum. Kannski er þetta bara heimsmet?

Í gær var Vestfirska skemmtifélagið með leik- og söngprufur fyrir nýjan vestfirkskan söngleik Jón Indíafari. Um er að ræða sýningu sem verður leikin af ungu listafólki en höfundar eru sá sem hér ritar og Guðmundur Hjaltason. Skemmst er frá því að segja að það var mikið fjölmenni á prufunni og mættu miklu fleiri en fá hlutverk. Æfingar á Jón Indíafara hefjast á sunnudag og stefnt er að frumsýningu um miðjan febrúar. Litli leikklúbburinn er einnig að fara af stað í mikið ævintýri. Nú um helgina verður haldið leiklistarnámskeið í Edinborgarhúsinu. Í framhaldinu hefjast síðan æfingar á klassíkinni Þið munið hann Jörund eftir Jónas Árnason. Vippum okkur nú yfir fjöll og fjörðu eða falla nú öll vötn til Þingeyrar. Íþróttafélagið Höfrungur sem starfrækir sérstaka leikdeild boðaði til kynningarfundar í upphafi vikunnar. Fundarefnið var uppsetning á einu vinsælasta barnaleikriti allra tíma nefnilega Línu Langsokk. Þegar er búið að setja í öll hlutverk slíkur er áhuginn og krafturinn í Dýrafirði. Æfingar hefjast laugardaginn 25. apríl og stefnt er að frumsýningu í byrjun mars. Atvinnuleikhús Vestfjarða mun svo frumsýna nýtt íslenskt leikrit Halla sem er byggt á samnefndri ljóðabók eftir vestfirska skáldið Stein Steinarr. Handritsskrif standa nú yfir í herbúðum Kómedíuleikhússins en stefnt er á frumsýningu í byrjun apríl. Nú fimmta leikritið sem er væntanlegt á hinar vestfirsku fjalir er hin árlega uppfærsla Menntaskólans á Ísafirði á Sólrisuhátíð þeirra. Loks berast fréttir af því að hið ofurduglega Leikfélag Hólmavíkur ætli að setja upp barnastykkið Skilaboðaskjóðan eftir Þorvald Þorsteinsson. Verkefnið er unnið í samstarfi við grunnskóla staðarins.

Það má alveg segja það að sexið sé sexý og málið í hinu vestfirska leikhúsi þessa dagana.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband