Í DAG ER ALÞJÓÐLEGI LEIKLISTARDAGURINN

Alþjóðlegi leiklistardagurinn er í dag og er því fangað í leikhúsum af öllum stærðum og gerðum líka í skólastofum og öllum mögulegum sýningarrýmum leikhúsa í heiminum. Kómedía ætlaði að sjálfsögðu að taka þátt í gleðinni en því miður þá liggur Kómedíuleikarinn í flensu og þar sem hann er eini leikari leikhússins og reyndar einnig eini starfsmaður þess þá segir það sig sjálft að halda verður bara uppá daginn hér á blogginu. Alþjóðlegi leiklistardagurinn hefur verið haldin hátíðlegur síðan 1962. Í tilefni dagsins hefur ITI hin alþjóðaleiklistarstofnun fengið heimsþekktan leikhúslistamann til að semja ávarp. Leiklistarsamband Íslands hefur einnig tekið upp þennan sið og fengið marga kunna leikhúslistamenn til að semja ávarp. Aðþví að dagurinn er Alþjóðlegur þá langar mig að birta fyrst ávarp erlenda listamannsins, sem er að þessu sinni Robert Lepage. Í hádeginu kemur sú innlenda ávarpið. Til hamingju með daginn leikhúsfólk um heim allan. Þess óskar Kómedían:

Ávarp frá Robert Lepage:

Það eru til margar kenningar um uppruna leikhússins, sú sem hefur ætíð heillað mig mest er dæmisaga.

Nótt eina, í upphafi daga, var hópur fólks saman kominn í hellisskúta, þar sem fólk yljaði sér við eld og sagði hvert öðru sögur. Þá var það að einhverjum datt í hug að standa á fætur og nota skugga sinn til þess að myndskreyta sögu sína. Með hjálp birtunnar frá eldinum, lét hann yfirnáttúrlegar persónur birtast á hellisveggjunum. Hinir voru yfir sig hrifnir, þegar birtust þeim hver á eftir öðrum; sá sterka og hinn veiki, kúgarinn og hinn kúgaði, Guð og dauðlegir menn.

Á okkar tímum hafa ljóskastarar komið í staðinn fyrir bálköst og sviðsmyndir í staðinn fyrir hellisveggi. Án þess ég vilji hnýta í hreinstefnumenn, minnir þessi saga okkur á að tæknin hefur frá fyrstu tíð verið ómissandi þáttur  leikhússins. Tæknina má ekki sjá sem ógn, heldur einmitt tækifæri til þess að sameina krafta.

Framtíð leiklistarinnar er undir því komin að hún endurnýi sig stöðugt og tileinki sér ný verkfæri og ný tungumál. Hvernig á leikhúsið að geta haldið áfram að vitna um átakalínur samtímans og vera merkisberi mannlegrar samkenndar, ef það tileinkar sér ekki víðsýni? Hvernig getur leikhúsið státað af því að bjóða upp á lausnir við óumburðarlyndi, útilokun og kynþáttahyggju, nema það rugli sjálft reytum við nýja mótleikara?

Til þess að geta sýnt heiminn í allri sinni flóknu dýrð verður listamaðurinn að bjóða upp á ný form og nýjar hugmyndir og treysta dómgreind áhorfandans, sem kann að lesa skuggamyndir mannkyns í hinum endalausa leik ljóss og skugga.

Sá sem leikur sér að eldi getur brennst. En hann getur líka heillast og uppljómast.

Þýðandi: Guðrún Vilmundardóttir.


Róbert Lepage Er kanadískur galdramaður í leikhúsi og undrabarn. Hann er jafnvígur sem leikstjóri í leikhúsi, leikari, sviðsmyndahönnuður og  kvikmyndaleikstjóri. Frumleiki  hans og sköpun hefur borið hróður hans  víða um heim og er hann einn virtasti leikhúslistamaður heims um þessar mundir.
Hann fæddist í Quebec 1957 og eftir að hann gekk til liðs við leikhúsið hefur hann verið jafnvígur á að finna nýjar leiðir til að túlka samtímann sem og að brjóta klassísk verk leikbókmenntana til mergjar og færa fram kjarna þeirra á nýstárlegan hátt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband