FORLEIKUR OG ÍSBJÖRN Á ÍSÓ

Leikár Kómedíuleikhússins er bæði ferskt og klassískt. Alls verða sex sýningar á fjölum leikhússins á nýju leikári. Næstu tvo föstudaga ætlar Kómedíuleikhúsið að fagna komu nýja leikársins með því að bjóða uppá sannkallað Leikhústorg á Silfurtorgi á Ísafirði. Þar verða tveir af vinsælustu einleikjum Kómedíuleikhússins sýndir og er aðgangur ókeypis. Á leikárinu frumsýnir Kómedíuleikhúsið nýjan Íslenskan einleik. Leikurinn nefnist Auðun og ísbjörninn og er byggður á samnefndum Íslendingaþætti sem er án efa sá besti og vandaðasti Íslendingaþátta. Í Auðun og ísbjörninn halda Elfar Logi og Soffía Vagnsdóttir áfram farsælu samstarfi sínu en áður hafa þau unnið að tveimur vinsælum Kómedíuleikjum. Tveir kunnir listamenn vinna einnig að sýningunni en það eru þau Hrólfur Vagnsson sem semur tónlist sérstaklega fyrir uppfærsluna og Marsibil G. Kristjánsdóttir sem gerir leikmynd og búninga. Bæði hafa þau áður unnið fyrir Kómedíuleikhúsið með frábærum árangri. Seinni frumsýning leikársins er Forleikur ’09 sem er samstarfsverkefni við Litla leikklúbbinn á Ísafirði. Hér er á ferðinni fersk og fjörug syrpa af einleikjum. Fjögur verk frá fyrri árum verða einnig í boði á leikárinu. Einleikurinn Pétur og Einar var frumsýndur í sumar við frábærar undirtektir og verður leikurinn sýndur áfram í Einarshúsi í Bolungarvík. Jólasveinar Grýlusynir fara aftur á stjá í lok nóvember og verða á fjölunum bæði fyrir vestan og sunnan. Dimmalimm hefur nú sitt fjórða leikár og verða sýningar um land allt. Síðast en ekki síst verður verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson á fjölunum fimmta árið í röð en leikurinn hefur verið sýndur hátt í 200 sinnum. Kómedíuleikhúsið hefur ávallt sinnt einleiknum af mikilli ástríðu og í vetur mun leikhúsið bjóða uppá einleikna leiklestra. Fluttir verða valinkunnir og ókunnir íslenskir einleikir annan hvern mánuð í vetur. Fyrsti leiklesturinn verður í nóvember en þá verður fluttur einleikurinn Knall eftir Jökul Jakobsson en í ár eru 75 ár frá fæðingu leikskáldsins. Áfram með lesturinn því Kómedíuleikhúsið mun halda áfram samstarfi sínu við Safnahúsið á Ísafirði og bjóða mánaðarlega uppá Vestfirska húslestra í vetur. Kómedíuleikhúsið hefur haslað sér völl í hljóðbókaútgáfu og mun á leikárinu gefa út tvær nýjar hljóðbækur en óhætt er að segja að bækurnar hafi slegið í gegn. Act alone leiklistarhátíðin verður haldin í sjötta árið í röð 1. – 5. júlí 2009 og að vanda sér Kómedíuleikhúsið um listræna stjórnun hátíðarinnar. Fjölmargt annað verður í boði hjá Kómedíuleikhúsinu í vetur og því um að gera að fylgjast vel með Kómedíunni á heimasíðu leikhússins www.komedia.is sem er opin allan sólarhringinn! Á heimasíðunni færð þú allar upplýsingar um leikhúsið og sýningar okkar. Þar getur þú keypt miða eða pantað leiksýningu fyrir hópa. Einnig getur þú verslað hljóðbækur og síðast en ekki síst lesið Kómískar fréttir reglulega. Hægt er að gerast áskrifandi að Kómedíufréttum og þá missir þú af engu. Kómedíuleikhúsið verður semsagt á ferð og flugi allt leikárið en að lokum má geta þess að þetta stóra vestfirska leikhús sýnir yfir 120 sýningar á ári bæði hér heima og erlendis.

Hlökkum til að sjá ykkur í leikhúsinu

nullJólaleikurinn vinsæli Jólasveinar Grýlusynir verður bæði sýndur fyrir vestan og sunnan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigga

Greinilega nóg að gera :)

Anna Sigga, 10.9.2008 kl. 11:22

2 Smámynd: Elfar Logi Hannesson

Svona smá nudd en ekkert nag, bara Kómískt stuð

Elfar Logi Hannesson, 10.9.2008 kl. 17:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband