Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

ÞJÓÐSÖGUR ÚR ÍSAFJARÐARBÆ UPPSELD

Jólahljóðbókasala Kómedíuleikhússins gekk framar öllum vonum. Korter fyrir jól kom fjórða hljóðbókin út Þjóðsögur af Ströndum og var henni dreyft í verslanir um land allt líkt og hinar fyrri. Gaman er að geta þess að Kómísku hljóðbækurnar voru vinsælar í jólapakkann þessi jólin og nú er svo komið að helmingur verkanna er uppseldur. Þar er um að ræða tvær fyrstu hljóðbækurnar Þjóðsögur úr Vesturbyggð og Þjóðsögur úr Ísafjarðarbæ. Hinar tvær eru enn til hjá útgefanda Þjóðsögur úr Bolungarvík og Stranda hljóðbókin. Það gæti þó verið að hægt væri að næla sér í hinar uppseldu hljóðbækur í einhverjum Eymundsson verslunum, þori þó engu að lofa. Kómedía heldur áfram að gefa út þjóðlegar hljóðbækur á komandi ári og núna strax í janúar verður skundað í hljóðver á nýjan leik. Að þessu sinni verða það Þjóðsögur úr Súðavík og má eiga von á þeirri hljóðbók fyrir páska annó 2009. Hljóðbækur Kómedíu fást á heimasíðunni www.komedia.is og munið það er frí heimsending. Einnig fást Kómísku hljóðbækurnar í Eymundsson um land allt og í verslunum víða á Vestfjörðum.
Kómedíuleikhúsið óskar landsmönnum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir frábært Kómískt ár.

JÓLASVEINAR GRÝLUSYNIR Í TJÖRUHÚSINU UM HELGINA

Jólaleikritið sívinsæla Jólasveinar Grýlusynir verður sýnt núna um helgina í Tjöruhúsinu á Ísafirði. Sýnt verður á laugardag og sunnudag og hefjast báðar sýningarnar kl.14. Miðasala er í fullum gangi hér á vefnum undir liðnum Kaupa miða. Rétt er að geta þess að þetta eru síðustu sýningar á Jólasveinum Grýlusonum þessi jólin. En þráðurinn verður svo tekinn upp að nýju um næstu jól og verður áfram ferðast um landið og miðinn með leikinn enda hafa viðtökur verið framar öllum vonum. Jólasveinar Grýlusynir voru frumsýndir fyrir síðustu jól og hafa nú verið sýndar 30 sýningar sem telst nokkuð gott þar sem sýningartímabilið er aðeins einn mánuður árlega. Höfundar leikverksins eru þau Elfar Logi Hannesson og Soffía Vagnsdóttir sá fyrrnefndi er einnig leikari og sú síðarnefnda er leikstýra. Höfundur tónlistar er Hrólfur Vagnsson og Marsbil G. Kristjánsdóttir hannaði leikmynd og gerði jólasveinana sem þykja sérlega glæsilegir. Gaman er að geta þessi að þessi sami hópur vinnu nú að nýju leikverki sem verður frumsýnt í byrjun næsta árs. Nánar verður fjallað um verkefnið þegar nær dregur frumsýningu. Nú er bara að skella sér í jólaleikhúsið í Tjörunni og kikka á Jólasveina Grýlusyni um helgina. Kómedíuleikhúsið óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og þakkar fyrir frábært ár í leikhúsinu á árinu sem er að líða. Hlökkum mikið til að hitta ykkur öll á nýju og spennandi leikhúsári.

BJÚGNAKRÆKIR LEIKUR OG KELAR VIÐ BJÚGUN

Í nótt var Bjúgnakrækir á ferð um landið eftir ársfrí, sagt er að hann hafi komið sérlega vel undan vetri og hafi lætt góðgæti í skó ,,þægra og stilltra barna" einsog segir í kvæðinu. Bjúgnakrækir kemur að sjálfsögðu við sögu í leikritinu Jólasveinar Grýlusynir og þar syngur hann þennan flotta slagara:

BJÚGNAKRÆKIR

Halló bjúga, loksins náði´ég þér!
Ég skipa þér að koma heim með mér.
Dagana langa
bjúgu ég fanga.
Var búinn´að fela
nú við þau kelaaaa…
Læt þau leika
um háls og á höndum,
rétt eins og kjötkveðjukall út í löndum.
Maginn á mér æpir hátt og snjallt:
„með glöðu geði ég ét þetta allt!“

Jólasveinar Grýlusynir verða í Tjöruhúsinu í dag kl.14 örfá sæti laus fyrstir panta fyrstir fá www.komedia.is


SKYRGÁMUR VILL SÚRT SKYR EN EKKI ÞETTA NÝTÍSKU BLÁBERJA-SÚKKULAÐI-BANANASPLITT

Skyrgámur kom til byggða í nótt og læddi góðgæti í skó allra barna á landinu og víðar. Skyrgámi finnst skyr afskaplega gott og áður fyrr stalst hann gjarnan í skyrtunnuna og hámaði í sig þangað til hann stóð á blístri. Skyrgámur er stór og sterkur enda er skyr afar hollt eins og allir vita. Reyndar er hann ekki alveg sáttur við skyrflóruna í dag, eins og fram kemur í jólaleikritinu Jólasveinar Grýlusynir. Hann fílar ekki karamellu-, jarðaberja- eða súkkulaðimintuskyr heldur vill hafa skyrið einsog í gamla daga, þykkt, súrt og bragðsterkt og mikið af því. Útlitið er líka í stíl við matarvenjurnar því hann lítur út einsog tunna eða einsog hann segir sjálfur frá í vísunni sem er að finna í leikritinu:

SKYRGÁMUR

Líttu' á mig, - ég lít út einsog tunna!
Já - eitt er það sem fáir aðrir kunna:
að tæma aleinn ámu risastóra
sem venjulega dugar fyrir fjóra.
Hún troðfull er af skyri beint frá bænum
ég tæmi'ana til botns í einum grænum.
Svo sit ég bara afvelta og get mig ekki hreyft,
ég veit það bara að þetta hefði Grýla aldrei leyft,
hvort sem skyrið hefði verið gefins eða keypt!
Skyrrrrrrr
Skyrrrrrrr
Skyrrrrrr

Jólasveinar Grýlusynir verða sýndir í Tjöruhúsinu núna um helgina á laugardag og sunnudag og hefjast sýningarnar kl.14. Miðasala á www.komedia.is


JÓLAGETRAUN KÓMEDÍU - NÚ GETUR ÞÚ UNNIÐ MIÐA Á JÓLASVEINA GRÝLUSYNI

Kómedíuleikhúsið hefur hrint af stað getraun í tilefni jólanna. Svara þarf laufléttri spurningu úr jólaleikritinu Jólasveinar Grýlusynir sem nú er verið að sýna annað árið í röð í Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað á Ísafirði. Spurningin hljóðar svo:

Hvaða jólasveinn festir höfuðið ofan í potti í leikritinu Jólasveinar Grýlusynir?

Dregið verður úr réttum svörum og fá fimm heppnir vinna tvo miða á Jólasveina Grýlusyni laugardaginn 27. desember kl. 14 í Tjöruhúsinu. Svörin skal senda á netfangið

komedia@komedia.is

 


ASKASLEIKIR HREINSAR ASKINN ÁÐUR EN HANN FER Í VASKINN

Askasleikir er kominn til mannabyggða eftir gott sumarfrí. Í leikritinu Jólasveinar Grýlusynir fer Askasleikir á kostum ásamt tvíburabróður sínum Bjúgnakræki. Að sjálfsögðu syngur hann um uppáhaldið sitt askana einsog lesa má um hér:

Til eru furðulegustu leikir

það þekki ég sjálfur, Askaleikir.

Ég sit svo sæll á minni kistu

og reyni í fyrstu

að hreinsa innan askinn

áður en hann fer í vaskinn.

Ef ekki dugir fingur

þá er ég nokkuð slingur

og teygi mína tungu endilanga

oní askinn, - restarnar að fanga.

Leikritið Jólasveinar Grýlusynir verður sýnt um helgina í Tjöruhúsinu á Ísafirði. Miðasala á

www.komedia.is


ÆÆÆ POTTASLEIKIR FESTI HAUSINN Í POTTINUM EINN GANGINN ENN

Þá er Pottasleikir komin af fjöllum. Kappinn sá lendir heldur betur í klandri í leikritinu Jólasveinar Grýlusynir. Einsog margir vita elskar hann potta en það vill nú ekki betur til en svo að þeir bræður hann og Gáttaþefur rífast um pottinn sem endar með því að Pottasleikir fær pottinn yfir höfuðið og situr þar fastur. Og þá syngur Pottasleikir:

Æ, Æ, Æ,

ég hausnum á mér ekki uppúr næ!

En viltu vita hvernig fram fer vinnan?

Ég vinn við það að sleikja pott að innan.

Mín langa breiða tunga gerir gagnið,

því betur sem að meira reynist magnið

af innansleikjunni sem eftir verður

þegar góður pottréttur er gerður!

 

Þeir sem vilja heyra allt ævintýrið vippa sér bara í Tjöruhúsið um helgina en leikurinn verður sýndur laugardag og sunnudag og hefjast sýningarnar kl.14. Miðasala á www.komedia.is

 


MYNDASYRPA ÚR JÓLASVEINAR GRÝLUSYNIR

Meistari ljósmyndaranna, Ágúst G. Atlason, var á sýningu Kómedíu á Jólasveinar Grýlusynir í gær. Að vanda var hann vel voppnaður og tók flottar myndir af ævintýri jólasveinanna. Kikkið bara á þessa slóð hér http://gusti.is/ljosmyndir/syrpur/145/6614

Takk fyrir Gústi


ÞVÖRUSLEIKIR VEIT AÐ HANS BÍÐUR ÞVARA SEM HANN FÆR AÐ SLEIKJA BARA

Þvörusleikir kom til byggða í nótt og hafði víst í nógu að snúast. Hann fékk þó góðgæti á nokkrum bæjum allavega fannst ein þvara ofan í Rice Krispís pakka í ónefnum húsi á Ísafirði. Þrátt fyrir annasama nótt mætti Þvörusleikir galvaskur í Tjöruhúsið í bítið og tók þátt í ævintýri bræðra sinna í jólaleikritinu Jólasveinar Grýlusynir sem krakkarnir á Eyrarskjóli sáu í morgun. Ævintýrið heldur áfram um næstu helgi en þá verður sýnt bæði á laugardag og sunnudag og hefjast sýningarnar klukkan 14. Miðasala er í fullum gangi á heimasíðu Kómedíu www.komedia.is Þvörusleikir syngur í leikritinu skemmtilega vísu sem er á þessa leið:

Þvörusleikir er nafnið mitt.

Ég dunda mér reyndar við þetta og hitt.

En mest þykir mér þó gaman,

þegar margir koma saman

og elda sér mat í potti,

þá fylgist ég með og glotti.

Ég veit þá að mín bíður þvara

sem ég fæ að sleikja bara

því ég heiti Þvörusleikir.


HANN ER JÓLASVEINN OG HEITIR STÚFUR OG ER ALVEG EINSTAKLEGA LJÚFUR

Það var mikið um að vera hjá Stúf í nótt en samkvæmt nýjustu fréttum þá náði hann að lauma einhverju í þá skó sem hafa tekið sér bólfestu í gluggakistum landsmanna. Stúfur kemur við sögu í jólaleikritinu Jólasveinar Grýlusynir sem verður sýnt í Tjöruhúsinu í dag kl.14. Stúfur tekur lagið líkt og bræður sínir í leikritinu og svona kveður stubburinn sá:

VÍSA STÚFS

Ég er jólasveinn og heiti Stúfur

og ég er alveg einstaklega ljúfur.

Ég læt nú ekki mikið á mér bera

en samt er ég þó ýmislegt að gera.

Þótt ég sé smár er margt mér lagt til lista

ég kann til dæmis feiknavel að tvista.

Þá beygi ég mig örlítið í hnjánum

og teygi síðan vel úr öllum tánum.

Um leið og jólatjútt- og tvist ég heyri,

þá tvista ég og allt um kollinn keyri.

Já ér er nú meri KALLINN!

Í Grýluhelli heppilegt það er

hversu lítið þar fer fyrir mér.

Ef einhver missir tölu undir borðið

þá beinist næstum alltaf til mín orðið.

,,Stúfur litli viltu hjálpa mér?"

Það er segi saga -

þá undir borð ég fer.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband