Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

SÍÐASTI SÉNS AÐ SKRÁ SIG Á PÓSTLISTA KÓMEDÍU EF ÞÚ VILT FÁ KÓMÍSKANN VINNING

Fyrir skömmu var stofnað til póstlista Kómedíuleikhússins. Þar með gefst gestum heimasíðunnar kostur að fá reglulegar Kómískar fréttir. Í tilefni af hinum Kómíska póstlista var blásið til leiks en allir þeir sem skrá sig á póstlistann fyrir 1. október eiga möguleika á að vinna leikhúsmiða. Tíu heppnir póstlistaþegar fá tvo miða á jólasýningu Kómedíuleikhússins Jólasveinar Grýlusynir sem sýnt verður annað árið í röð á Ísafirði í desember. Þann 3. október verður dregið úr póstlistapottinum. En þetta er ekki allt því einnig munu þeir sem skrá sig á póstlistann fá reglulega sérstök tilboð frá Kómedíuleikhúsinu. Boðið verður uppá fjölbreytt tilboð s.s. á miðum á sýningar leikhússins sem og ýmiskonar afslátt á vörum Kómedíuleikhússins. Fyrsta tilboð póstlistafélaga Kómedíuleikhússins er mjög veglegt hvorki meira né minna en 50% afsláttur af nýjustu hljóðbók Kómedíuleikhússins Þjóðsögur úr Bolungarvík. Hljóðbókin kom út í vor og hefur verið mjög vel tekið einsog fyrri hljóðbókum leikhússins. Þjóðsögur úr Bolungarvík kostar 1.999.- kr en póstlistafélagar fá hljóðbókina á 50% afslætti eða 999.-kr. Það er því ekki eftir neinu að bíða smellið á Póstlista Kómedíu á  heimasíðunni www.komedia.is  og gerist áskrifandi að Kómedíufréttum og fáið um leið einstök tilboð.

SMÁ PÁSA SVO BÚLÚLALA

Það hefur verið rosa gangur á leikferð Kómedíuleikhússins um Norðurland. Í morgun voru þrjár sýningar á Dimmalimm í leikskólum á Akureyri. Nú fær sá Kómíski smá pásu, skellti sér í pottinn á Akureyri svo á að bruna á Sigló seinni part. Á laugardag mun Kómedíuleikhúsið síðan sýna ljóðaleikinn Búlúlala á Ljóðahátíðinni Glóð á Sigló. Annars sól og blíða hér á AK, líf og fjör og gott kaffi í Eymundsson.

GÍSLI SÚRI OG DIMMALIMM ERU FYRIR NORÐAN

Kómedíuleikhúsið er komið Norður í land með tvær af vinsælustu sýningum leikhússins. Leikurinn hófst í dag mánudag í Grunnskólanum á Hofsósi þar sem Gísli Súrsson var sýndur. Á öðrum degi leikferðar verður Gísli Súrsson sýndur tvívegis fyrst í Grunnskólaum á Blönduósi og síðan í Höfðaskóla á Skagaströnd. Síðan tekur hver sýningin við af annarrri. Dimmalimm er líka með í för og verður sýnd í þrígang á fimmtudag fyrir leikskóla á Akureyri. Leikferðinni líkur svo á laugardag á Siglufirði en einsog greint var frá hér á vefnum um daginn þá hefur Kómedíuleikhúsinu verið boðið að taka þátt í sérstakri ljóðahátíð þar í bæ. Hátíðin nefnist Glóð og er haldin annað árið í röð að þessu sinni er vestfirska ljóðskáldsins Steins Steinarrs sérstaklega minnst en í ár eru 100 ár frá fæðingu skáldsins. Kómedíuleikhúsið mun sýna ljóðaleikinn vinsæla með erfiða nafninu Búlúlala á laugardagskvöldinu á Sigló. Kómedían verður mikið á faraldsfæti á næstunni því eftir stuttan stans á Ísó í næstu viku verður brunað í bogina um aðra helgi með Gísla Súra og Dimmalimm og munu þau heimsækja grunn- og leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Þegar er búið að bóka slatta af sýningum en rétt er að benda skólum borgarinnar á að enn eru nokkrir dagar lausir. Einfalt að panta sendið okkur bara tövlupóst á komedia@komedia.is

GÍSLI SÚRI VOÐA SÚR - LEIKHÚSTORGI AFLÝST

Það er soldið mikill vindur hér á Ísó þannig að því miður verður að aflýsa fyrirhuguðu Leikhústorgi Kómedíuleikhússins sem átti að vera á Silfurtorgi kl.16. Fornkappinn Gísli Súrsson er ýmsu vanur en þar sem um úti sýningu er að ræða þá mun leikmyndin fjúka útí veður og vind þó svo fornkappinn gæti nú staðið allar vindhviður af sér. Gísli Súrsson er hinsvegar á leiðinni í enn eina útlegðina ætlar að herja á Norðurland og heimsækja skóla þar í næstu viku. Með í för verður prinsessan Dimmalimm sem mun einnig líta við í nokkrum leikskólum á svæðinu. Gísli Súrsson hefur leikinn strax á mánduag þegar leikurinn verður sýndur í Grunnskólanum Hofsósi. Síðan tekur hver sýningin við af öðrum á Blönduósi, Skagaströnd og á Sauðárkróki. Dimmalimm verður á Akureyri í lok vikunnar og verða þrjár sýningar á ævintýrinu vinsæla. Loks er rétt að geta þess að þessari Norðanferð Kómedíu lýkur á Siglufirði á laugardag þar sem ljóðaleikurinn Búlúlala verður sýndur á Ljóðahátíðin Glóð.

UNDUR OG STÓRMERKI Á ÍSAFIRÐI

Allir að kaupa nýjasta tölublað TMM. Grein um Act alone 2008 í þessu eina menningarriti þjóðarinnar. Greinin hefur titilinn UNDUR OG STÓRMERKI Á ÍSAFIRÐI Leiklistarhátíðin Act alone, ritari er Arndís Þórarinsdóttir.


PÉTUR OG EINAR Í VÍKINNI Í KVÖLD

Einleikurinn Pétur og Einar verður sýndur í Einarshúsi í Bolungarvík í kvöld. Leikurinn hefur notið mikilla vinsælda allt frá því hann var frumsýndur á sjómannadag í sumar. Sýningin í kvöld er sú 14 og er um leið síðasta sýningin á Pétri og Einari í bili. Leikurinn hefst kl.20 miðapantanir hjá Vertinum í Víkinni ragna@einarshusid.is

Pétur og Einar

P5311591

Elfar Logi túlkar líf og störf þeirra manna sem settu hvað mestan svip á Bolungarvík á miklum uppgangstímum og sveipar sögu þeirra ævintýraljóma. Frumkvöðlarnir Pétur Oddsson og Einar Guðfinnsson voru miklir athafnamenn hvor á sínum tíma og stjórnuðu stórveldum sínum af skörungsskap. Þeir bjuggu báðir í húsi harma og hamingju, Péturshúsi sem síðar var nefnt Einarshús.
Í sýningunni leiða Soffía Vagnsdóttir og Elfar Logi saman hesta sína öðru sinni en á síðasta ári settu þau upp sýninguna Jólasveinar Grílusynir sem sýnd var við góðan orðstýr í Tjöruhúsinu. Þar að auki voru íbúar bæjarins kallaðir til aðstoðar og brugðu þeir sér í hljóðver í Bolungarvík og sungu með íðilfögrum röddum, allt frá jólalögum og sálmum til vel þekktra þorrablótsvísna.


LEIKHÚSTORG Á SILFURTORGI Á MORGUN

Leikhústorg Kómedíuleikhússins verður á Silfurtorgi á Ísó á morgun. Sýndur verður einn af vinsælli leikjum Kómedíuleikhússins Dimmalimm en ævintýrið vinsæla er nú að hefja sitt fjórða leikár og hefur verið sýnt bæði hér heima og erlendis við miklar vinsældir. Kómíska leikhústorgið hefst kl 14. á morgun og að sjálfsögðu er ókeypis aðgangur og því um að gera að skella sér á flottasta torg Vestfjarða á morgun. Leikhústorgið er haldið til að fagna nýju leikári Kómedíuleikhússins sem var kynnt fyrir stuttu. Að viku liðinni verður Leikhústorg haldið að nýju og þá verður vinsælasta leikrit Vestfjarða sýnt.

PÓSTLISTI KÓMEDÍU SJÓÐHEITUR

Það er óhætt að segja að tilkoma Póstlista Kómedíuleikhússins á Kómedíuvefnum www.komedia.is hafi slegið í gegn. Nú gefst gestum og vinum Kómedíu kostur á að fá reglulega Kómedíufréttir og geta því um leið skúbbað soldið og verið fyrst með fréttirnar. Í tilefni af stofnun Póstlista Kómedíu hefur verið blásið til skemmtilegs leiks. 10 heppnir Kómedíuvinir sem skrá sig á Póstlistann fyrir 1. október fá miða fyrir tvo á jólaleikinn vinsæla Jólasveinar Grýlusynir. Dregið verður 3. október. Þannig að nú er bara að skella sér á www.komedia.is gerast áskrifandi að Kómedíufréttum.


FORLEIKUR OG ÍSBJÖRN Á ÍSÓ

Leikár Kómedíuleikhússins er bæði ferskt og klassískt. Alls verða sex sýningar á fjölum leikhússins á nýju leikári. Næstu tvo föstudaga ætlar Kómedíuleikhúsið að fagna komu nýja leikársins með því að bjóða uppá sannkallað Leikhústorg á Silfurtorgi á Ísafirði. Þar verða tveir af vinsælustu einleikjum Kómedíuleikhússins sýndir og er aðgangur ókeypis. Á leikárinu frumsýnir Kómedíuleikhúsið nýjan Íslenskan einleik. Leikurinn nefnist Auðun og ísbjörninn og er byggður á samnefndum Íslendingaþætti sem er án efa sá besti og vandaðasti Íslendingaþátta. Í Auðun og ísbjörninn halda Elfar Logi og Soffía Vagnsdóttir áfram farsælu samstarfi sínu en áður hafa þau unnið að tveimur vinsælum Kómedíuleikjum. Tveir kunnir listamenn vinna einnig að sýningunni en það eru þau Hrólfur Vagnsson sem semur tónlist sérstaklega fyrir uppfærsluna og Marsibil G. Kristjánsdóttir sem gerir leikmynd og búninga. Bæði hafa þau áður unnið fyrir Kómedíuleikhúsið með frábærum árangri. Seinni frumsýning leikársins er Forleikur ’09 sem er samstarfsverkefni við Litla leikklúbbinn á Ísafirði. Hér er á ferðinni fersk og fjörug syrpa af einleikjum. Fjögur verk frá fyrri árum verða einnig í boði á leikárinu. Einleikurinn Pétur og Einar var frumsýndur í sumar við frábærar undirtektir og verður leikurinn sýndur áfram í Einarshúsi í Bolungarvík. Jólasveinar Grýlusynir fara aftur á stjá í lok nóvember og verða á fjölunum bæði fyrir vestan og sunnan. Dimmalimm hefur nú sitt fjórða leikár og verða sýningar um land allt. Síðast en ekki síst verður verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson á fjölunum fimmta árið í röð en leikurinn hefur verið sýndur hátt í 200 sinnum. Kómedíuleikhúsið hefur ávallt sinnt einleiknum af mikilli ástríðu og í vetur mun leikhúsið bjóða uppá einleikna leiklestra. Fluttir verða valinkunnir og ókunnir íslenskir einleikir annan hvern mánuð í vetur. Fyrsti leiklesturinn verður í nóvember en þá verður fluttur einleikurinn Knall eftir Jökul Jakobsson en í ár eru 75 ár frá fæðingu leikskáldsins. Áfram með lesturinn því Kómedíuleikhúsið mun halda áfram samstarfi sínu við Safnahúsið á Ísafirði og bjóða mánaðarlega uppá Vestfirska húslestra í vetur. Kómedíuleikhúsið hefur haslað sér völl í hljóðbókaútgáfu og mun á leikárinu gefa út tvær nýjar hljóðbækur en óhætt er að segja að bækurnar hafi slegið í gegn. Act alone leiklistarhátíðin verður haldin í sjötta árið í röð 1. – 5. júlí 2009 og að vanda sér Kómedíuleikhúsið um listræna stjórnun hátíðarinnar. Fjölmargt annað verður í boði hjá Kómedíuleikhúsinu í vetur og því um að gera að fylgjast vel með Kómedíunni á heimasíðu leikhússins www.komedia.is sem er opin allan sólarhringinn! Á heimasíðunni færð þú allar upplýsingar um leikhúsið og sýningar okkar. Þar getur þú keypt miða eða pantað leiksýningu fyrir hópa. Einnig getur þú verslað hljóðbækur og síðast en ekki síst lesið Kómískar fréttir reglulega. Hægt er að gerast áskrifandi að Kómedíufréttum og þá missir þú af engu. Kómedíuleikhúsið verður semsagt á ferð og flugi allt leikárið en að lokum má geta þess að þetta stóra vestfirska leikhús sýnir yfir 120 sýningar á ári bæði hér heima og erlendis.

Hlökkum til að sjá ykkur í leikhúsinu

nullJólaleikurinn vinsæli Jólasveinar Grýlusynir verður bæði sýndur fyrir vestan og sunnan.


EINLEIKIÐ VIÐTAL

Það er mikið líf og fjör á heimasíðu Act alone leiklistarhátíðarinnar www.actalone.net . Reglulega eru birtar nýjar greinar um þekkta og óþekkta einleikara innlenda og erlenda. Einleikjaskrá Íslands er uppfærð af miklum krafti enda alltaf verið að setja upp nýja einleiki á Íslandi og svo eru fjölmargir eldri sem vantar inní skránna. Einn vinsælasti liðurinn á Act alone síðunni eru flokkurinn Einleikin viðtöl. Þar eru einleikarar teknir tali um einleikin strauma og stefnur og bara listina og leikhúsið almennt. Nú er komið nýtt Einleikið viðtal á Act alone síðuna. Að þessu sinni er það Pétur Eggerz sem er Á eintali. Pétur er einn af stofnendum Möguleikhússins og hefur verið hörku duglegur í Íslensku leikhúslífi síðustu áratugi. Pétur fer víða í viðtalinu segir m.a. frá fyrstu leikhúsupplifun sinni sem var óhemju sterk og áhrifarík því hann brast í grát þegar Mikki refur birtist á senunni og varð að yfirgefa bygginguna. Stofun Möguleikhússins ber að sjálfsögðu á góma og skannar Pétur sögu leikhússins sem er nú ekki einleikin. Einleikurinn kemur að sjálfsögðu við sögu en Pétur hefur bæði samið, leikstýrt og leikið í einleikjum. Margt fleira ber á góma svo nú er bara að kikka á www.actalone.net og lesa.

Pétur Eggerz er fjórði leikarinn sem er Á eintali en áður hafa Hörður Torfa, Hallveig Thorlacius og Eggert Kaaber setið fyrir svörum hjá Kómedíuleikaranum. Öll Einleiknu viðtölin eru aðgengileg á Act alone síðunni. Semsagt fullt af fróðlegu og skemmtilegu einleiknu lesefni á www.actalone.net

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband