Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Einstök sýning á Gíslastöðum í Haukadal

Á Gíslastöðum í Haukadal Dýrafirði verður listsýningin Einstök sýning – Listamaðurinn með barnshjartað. Sýningin opnar föstudaginn 1. júlí kl.14 og eftir það verður sýningin opin frá kl.14 – 16 allt til sunnudagsins 24. júlí. Á sýningunni er einstakri myndlist og leiklist gerð skil. Í myndlistinni verða sýndar myndir eftir þrjá vestfirska einfara í íslenskri myndlist. Fyrst ber að nefna Samúel Jónsson í Selárdal sem þekktur er undir viðurrefninu Listamaðurinn með barnshjartað. Einnig verður viðamikil sýning á verkum listahjónanna frá Hofi Dýrafirði þeirra Gunnars Guðmundssonar og Guðmundu Jónu Jónsdóttur. Síðast en síst er sérstök sýning um sögu einleikjalistarinnar á Íslandi. Þetta sérstaka form leiklistarinnar á sér langa og merka sögu hér á landi. Síðustu ár hefur einleikjaformið verið áberandi í vestfirsku leikhúslífi en þar starfar Kómedíuleikhúsið sem hefur sett upp fjölmarga einleiki síðasta áratuginn og einnig er árlega haldin sérstök einleikjahátíð Act alone í Haukadal og Ísafirði. Saga einleikjalistarinnar er sögð á stórum söguspjöldum en einnig eru til sýnis kynningarefni um einleiki á Íslandi s.s. leikskrár sem og handrit einleikja og marskonar einleikin fróðleikur um einleiksformið. Ýmis varningur er til sölu á sýningunni s.s. bókin Einfarar í íslenskri myndlist á ensku, Þjóðlegar hljóðbækur og fjölbreytt handverk frá ömmu og afa barni Listahjónanna á Hofi, Marsbil G. Kristjánsdóttur. Aðgangur að sýningunni er ókeypis.

Gísli Súrsson alls ekkert kominn í súr

Verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson er enn í fullu fjöri og eru fjölmargar sýningar framundan. Leikurinn verður sýndur í 221 sinn og er vel við hæfi að sú sýning fari fram á söguslóðum Gísla nánar tiltekið í Arnarfirði. Þar fer nú fram hin skemmtilega hátíð Bíldudals Grænar og verður Gísli sýndur í Baldurshaga í kvöld kl.21.

En Gísli er ekkert að leggjast í súr því á mánudag verður sýning á Gíslastöðum í Haukadal Dýrafirði og er þegar orðið uppselt á þá sýningu. Ekki þarf þó að örvænta því Gísli Súrsson verður einnig sýndur á bæjarhátíðinni Dýrafjarðardagar sem fer fram um næstu helgi. Sú sýning verður á hinu magnaða útivíkingasviði á Þingeyri. Þó Gísli sé þétt bókaður þá er alveg hægt að bæta við fleiri sýningum. Áhugasamir sendi okkur póst á netfangið 

Af hverju er Trostan ávallt útundan?

Trostansfjörður í Arnarfirði er fallegur en hefur samt ávallt verið útundan í heimi Vegagerðar ríkissins. Sérstaklega Trostansfjarðarheðin hún er skelfilega slöpp enda má ábyggilega telja á fingrum annarar handar hve oft hefill eða annað vegavinnutæki hefur verið þar að ströfum. Þetta er svosem ekkert nýtt að Vestfirðir hafa ávallt verið útundan í allri vegagerð og maður veltir fyrir sér nei hver helv...er pólitík líka í vegagerðinni? Samt eru nokkrir þingmenn farnir að viðurkenna að ástand vega á Vestfjörðum sé slappt og að nú sé sko röðin komin að Vestfjörðum. En samt gerist ekkert. Reyndar hafa smá vegaumbætur verið á Hrafnseyrar og Dynjandaheiði? En afhverju var það? Jú, pólitík. 17. júní á Hrafnseyri og fyrirmenn mættu á pleisið. Sem var bara gaman en samt ég meina er ekki tímasetningin skrítin. Og nokk efast ég um að áframhald verði á vegaframkvæmdum á þessum ágætu heiðum enda hátíðarhöldum lokið á Hrafnseyri og allir farnir suður sem taka ákvarðanir. Og hvað þá að eitthvað verði gert á Trostansfjarðarheiði allavega voru engin vegavinnutæki sjáanleg þegar ég ók þarna um fyrr í dag. Hvað veldur - hef ekki hugmynd?
Til að ljúka þessu Trostansmáli þá er ég ekki alveg sammála hinni ágætu Vikipediu sem er þó oft góð. En hún segir að fjörðurinn sé nefndur af seinni tíma Arnfirðingum: Trosnasfjörður.
Ég sem hef talið mig með seinni tíma Arnfirðingum. En hér er annars vikipediupistill um Trostansfjörð:

Trostansfjörður er fremur stuttur fjörður, sem gengur til suðausturs inn úr Arnarfirði og er einn af Suðurfjörðum. Fjörðurin er sunnan við Geirþjófsfjörð og austan við Reykjafjörð. Samnefndur bóndabær í firðinum er nú í eyði. Það eru um fjórir kílómetrar frá Ófærunesi þar sem Trostansfjörður mætir Geirþjófsfirði inn í fjarðarbotn, og er fjörðurinn tveir og hálfur kílómeter á breidd. Austanmegin í firðinum er Norðdalur birki vaxinn en þar er einnig áberandi mikið af reyni. Trostansfjörður hefur ævinlega var nefndur Trosnasfjörður af seinni tíma Arnfirðingum og er nafnið sennilega af keltneskum uppruna.


Nýtt leikrit um Jón Sigurðsson frumsýnt á Hrafnseyri 17. júní kl.17

Kómedíuleikhúsið frumsýnir á Þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní kl.17 nýtt leikverk um Jón Sigurðsson. Einsog öllum er kunnugt er 200 ára afmæli þjóðhetjunnar nú í ár og er leikurinn sérstaklega saminn í tilefni þess. Sýnt verður á söguslóðum á Hrafnseyri nánar tiltekið í kapellunni. Önnur sýning verður sunnudaginn 19. júní kl.17 og gaman er að geta þess að aðgangur að sýningunni er ókeypis í boði Afmælisnefndar Jóns Sigurðssonar.
Afmælisleikurinn nefnist Jón Sigurðsson strákur að vestan. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson, búninga og leikmuni gerir Marsibil G. Kristjánsdóttir og leikstjórn er í höndum Ársæls Níelssonar.
Sómi Íslands sverð og skjöldur. Frelsishetjuna Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri þekkja allir og þá einkum afrek hans í Danaveldi. En hver var Jón Sigurðsson og hvaðan kom hann? Hvað var það sem mótaði hann og gerði hann að öflugum talsmanni þjóðarinnar? Í þessu verki fáum við að kynnast piltinum Jóni Sigurðssyni, æskuárunum á Hrafnseyri og tímanum áður en hann hélt úr Arnarfirði á vit nýrra og sögulegra ævintýra.

Morrinn á Ísafirði

Morrinn, atvinnuleikhús ungs fólks í Ísafjarðarbæ, var að hefja sitt 13. leikár. Þetta stórmerkilega leikhús sem var stofnað af ungu fólki á Ísafirði hefur enn á ný hafið leik. Upphafið má rekja til þess að ungir Ísfirðingar starfræktu sitt eigið leikhús er þau nefndu Fargogfjör yfir sumartímann. Þau fóru víða og skemmtu um allan bæ m.a. sýndu þau þjóðlega dagskrá fyrir gesti skemmtiferðaskipa er lögðu leið sína inn í Skutulsfjörðinn fagra. Ári síðar ákvað Ísafjarðarbær að taka leikhúsið upp á sína arma og þá varð Morrinn til. Sá sem þetta párar var svo heppinn að fá að leikstýra Morranum fyrstu þrjú starfsárin. Sá tími var stórkostlegur. Leikhúsið stækkaði og dafnaði mjög hratt og sýndi ekki bara í heimabyggð heldur um land allt. Fyrir fjórum árum var svo Kómedíuleikhúsinu boðið að taka við listrænni stjórn Morrans og tókum við það að okkur með þökkum. Leikhúsið hefði reyndar lent í smá öldudal árunum áður en er nú aftur komið á góðan skrið. Leikstjóri Morrans á þrettánda leikári er Elín Sveinsdóttir en gaman er að geta þess að hún er að hefja leiklistarnám í Bretlandi í haust. Verkefni Morrans á 13. leikári eru mörg en þó fer mest fyrir þjóðlegri skemmtidagskrá fyrir gesti skemmtiferðaskipa. Ísafjarðarbær getur verið stolltur af Morranum sínum sem mun enn á ný gleðja gesti okkar í allt sumar.

Harpan flott að utan en að innan uuuuuuuuu............flugstöð

Familían skellti sér í Hörpuna í síðustu borgarferð einsog ég nefndi reyndar í síðasta bloggpári. Þá lentum við reyndar í því óhappi að fá stöðumælasekt þar sem það má ekki leggja fyrir framan höllina þó það sé hvergi merkt. Reyndar er það víst svo samkvæmt yfirdeild stöðumælamambósins þá hefur verið fjallað um þetta bílastæðabann svo mikið í fjölmiðlum að við íbúar þessa lands ættum nú að vita þetta - kannski ekki rétti aðilinn þar á bæ í svonefndum pr málum, en nóg um þetta. Ferðin í Hörpuna var samt ágæt og byrjaði mjög vel. Höllin er flott að utan mikið listaverk og á án efa eftir að verða vinsælt myndefni og Hörpupóstkort verða ábyggilega alveg jafnvinsæl og Geysir eða Gullfoss. Þegar inn er komið er samt ekkert voða næs. Gífurlega stórt gímald minnir mann soldið á flugstöð með verslunum á göngum og hellings pláss til að ganga um en fátt að sjá nema reyndar flott að horfa útum hina ótalmörgu glugga. En að innan fátt spennó að sjá. Þegar við vorum á leið út vorum við svo heppinn að hitta á vin okkar sem vinnur í húsinu og hann bauð okkur að kikka betur á pleisið. Fórum í stóra salinn, Eldborg, heitir hann það ekki? Og það er sko næs skal ég segja ykkur. Vel heppnaður salur með karakter og sál. Skrítið að salurinn hafi heppnast svona vel miðað við kuldalega og karakterslausa gangana - flugstöðvamambóið. Maður verður að setja það á stefnuskrána að fara á konsert þar en þegar ég geri það ætla ég bara að mæta rétt fyrir tónleika, arka í gegnum flugstöðina einsog maður er reyndar vanur að gera og njóta þess að sitja í sal með sál.

Ekki leggja við Hörpu

Familían kikkaði í Hörpu í gær meira um það síðar, nú skiptir meira máli að láta vita af því að það MÁ EKKI LEGGJA VIÐ HÖRPUNA. Við vorum svo óheppinn að leggja þar fyrir utan og þegar við komum út voru tveir stöðumælaverðir að sekta alla bílana sem voru fyrir utan bygginguna. Ég skildi ekki alveg enda hvergi merkt að það megi ekki leggja þarna. En þegar ég spurði bílastæðagæjanna svaraði hann heldur þurr á manninn og stuttur í spuna: Þú átt að leggja hinu megin t.d. í Kolaportinu. " Svo var hann rokinn að skrifa næstu sekt. Þetta finnst mér alveg útí hróa. Byrjið á því að setja upp merkingar um að það megi ekki leggja þarna ekki fara svona illa með náungann nóg er nú samt. Minnir mann á eitthvað land í austri svona framkoma.

Ertu að leita að sýningarstað á Vestfjörðum?

Í gegnum tíðina hafa margir haft samband við mann til að fá ábendingar um hvar sé hægt að vera með listviðburði á Vestfjörðum. Skiptir engu hvort verið er að tala um leik- mynd- eða kvikmyndasýningu og allt þar á milli. Það ánægjulega er að maður getur nefnt fjölmarga staði og það um alla Vestfirði, allsstaðar eru hús bara spurning um hvað hentar þínum viðburði best. Hinsvegar væri nú mjög sneddý ef upplýsingar um öll þessi hús væri einhversstaðar aðgengilegur væri t.d. mjög sniðugt að hafa upplýsingar um þetta í væntanlegu tímariti Félags Vestfirskra listamanan sem kemur út í haust. Því er hér með komið á framfæri. Einnig væri sniðugt ef sveitarfélögin sjálf mundu hafa upplýsingar um sín hús á heimasíðum sínum. Treysti mér nú ekki til að pára svona upphátt og nefna alla þá sýningarstaði sem eru í boði hér á Vestfjörðum. En það mikilvægasta er að hefjast handa og hér koma fyrstu drög af sýningarstaðakorti Vestfjarða:

Bíldudalur:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar
Veitingastofan Vegamót - tónleikar, litlar leiksýningar
Skrímslasetrið, salur - tónleikar, leiksýningar

Tálknafjörður:
Dunhagi, félagsheimili - tónleikar, litlar leiksýningar

Patreksfjörður:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar
Skjalborg - kvikmyndasýningar, tónleikar, leiksýningar
Sjóræningjasetrið - tónleikar, leiksýningar

Barðaströnd:
Félagsheimilið Birkimel - tónleikar, leiksýningar

Reykhólar:
Samkomuhúsið - tónleikar, leiksýningar

Hólmavík:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar
Café Riis - tónleikar, litlar leiksýningar
Bragginn - tónleikar, leiksýningar
Galdrasafnið - tónleikar, litlar leiksýningar

Súðavík:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar
Melrakkasetrið - tónleikar, litlar leiksýningar

Ísafjörður:
Edinborgarhúsið - tónleikar, leiksýningar, myndlistarsýningar
Alþýðuhúsið, Ísafjarðarbíó - kvikmyndasýningar
Hamrar, Tónlistarskóla Ísafjarðar - tónleikar, leiksýningar
Gallerý Fjör Tíu Þrep, Listakaupstað - myndlistarsýningar
Langi Mangi - tónleikar, myndlistarsýningar
Hamraborg, verslun - Myndlistarsýningar

Hnífsdalur:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar

Bolungarvík:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar
Einarshúsið - tónleikar, myndlistarsýningar, litlar leiksýningar

Suðureyri:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar
Talisman - tónleikar, litlar leiksýningar

Flateyri:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar
Vagninn - tónleikar, litlar leiksýningar

Þingeyri:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar
Simahöllin, kaffihús - tónleikar

Haukadalur Dýrafirði:
Gíslastaðir, félagsheimili - tónleikar, litlar leiksýningar

Auðvitað vantar helling inná þennan lista, megið gjarnan hjálpa mér við að bæta úr því. Einnig vantar þarna inn símanúmer á viðkomandi stöðum og nöfn á húsvörðum og svona, en bætum úr því síðar.
Einnig væri gaman að gera annan svona lista um vinnuaðstöðu fyrir listamenn og hópa sem er hægt að fá lánað hér fyrir vestan. Set það á verkefnalistann.


Bæjar- og listahátíðir á Vestfjörðum í sumar

Það ætti engum að þurfa að vanta eitthvað að gera sem heimsækir Vestfirði þetta sumarið. Fjölmargar fjölbreyttar bæjar- og listahatíðir eru um allan kjálkann nánast hverja helgi í allt sumar. Til að nefna það helsta, en gleymi þá öruggulega einhverju og glöggir lesendur mega þá bæta því við, þá kemur hér yfirlit yfir bæjar- og listahátíðir á Vestfjörðum sumarið 2011.

2. - 5. júní Patreksfjörður
Sjómannadagshelgin - flottasta hátíðin er án efa á Patreksfirði, þar hefur markvist verið unnið að því að efla þennan merkilega dag sjómanna og hefur hátíðin bara stækkað.

10. - 12. júní. Patreksfjörður.
Skjaldborg hin einstaka heimildarmyndahátíð sem vakið hefur mikla athygli enda bara flott hátíð, heiðurgestur í ár er meistari Ómar Ragnarsson.

17. júní. Hrafnseyri við Arnarfjörð
Hvað er meira viðeigandi en vera á heimabæ Forsetans á fæðingardegi hans en í ár er kappinn 200 ára. Fjölbreytt hátíð m.a. mun yðar einlægur frumsýna leikverk um Nonna sem er sérstaklega saminn fyrir festivalið.

21. - 26. júní. Ísafjörður
Klassíska tónlistarhátíðin Við Djúpið vönduð dagskrá með intresant masterclössum - hátíð sem hefur fyrir löngu sannað gildi sitt og ágæti.

23. - 26. júní. Bíldudalur
Í ár er heil baun og þá er haldin hátíðin Bíldudals grænar baunir, dagskrá í höndum heimamanna og veðrið - það verður magnað enda veðursældin þar allra best á landinu öllu.

1 - 3. júlí. Hólmavík
Sjöunda árið í röð fara fram Hamingjudagar á Hólmavík, geggjað stuð.

1. -3. júlí. Dýrafjarðardagar
Dúndurskemmtileg fjölskylduhátið og næsta víst að þú hittir víkinga.

2. júlí Bolungarvík
Markaðsdagar eru skemmtilegir og í ár mun Listahátíðin Æringur setja svip sinn á markaðinn.

9. - 10. júlí. Selárdalur í Arnarfirði
Ef þú hefur ekki komið í Selárdal þá áttu mikið eftir. Eitt flottasta félag þjoðarinnar Félag um endurreisn listasafns Samúels í Selárdal blæs til menningarhátíðar í dalnum.

22. - 24. júlí. Tálknafjörður
Tálknafjör og þar verður pottþétt fjör.

6. ágúst. Holtsfjara í Öndundarfirði
Eitt af trompu hátíðanna. Sandkastalakeppni í Holti. Þarf að segja meira.

12. - 14. ágúst. Ísafjörður - Hrafnseyri Arnarfirði
Eina einleikjahátíð landsins og ein flottasta listahátíð landsbyggðarinnar ACT ALONE haldin áttundar árið í röð. Fjöldi innlendra og erlendra einleikja. OG það einleikna er að það er ÓKEYPIS INNÁ ALLAR SÝNINGAR HÁTÍÐARINNAR.

26. - 28. ágúst. Súðavík
Má ég kynna Bláberjadagar - þarna verður maður sko að vera.

Velkomin vestur og góða skemmtun í allt sumar.


Gaggað í Melrakkasetrinu Súðavík

Í kvöld, fimmtudag, hefjast sýningar að nýju á sagnastykkinu Gaggað í grjótinu í Melrakkasetrinu. Leikurinn var frumsýndur 16. júní í fyrra og var sýndur allt sumarið í Melrakkasetrinu við góðar undirtektir. Sérstakakt tilboð er á fyrstu sýningu sumarsins og kostar miðinn aðeins 1.000.- krónur alveg gaggandi góður prís. Alls eru áætlaðar sex sýningar á Gaggað í grjótinu í Melrakkasetrinu í Súðavík í sumar. Rétt er að geta þess að hópar geta einnig pantað sýninguna sérstaklega. Gaggað í grjótinu er fróðleg og skemmtileg sýning fyrir alla fjölskylduna.
Leikurinn er sérstaklega saminn fyrir Melrakkasetrið í Súðavík en þar er sögð saga refsins sem hefur lifað lengur en elstu menn muna.

Í Gaggað í grjótinu fáum við einstakt tækifæri til að bregða okkur á greni með ónefndri refaskyttu sem kallar ekki allt ömmu sína. Saga skyttunnar er nefnilega ekki síður merkileg en skolla sjálfs. Meðan skyttan liggur og vaktar grenið styttir hann sér stundir og segir sögur af sjálfum sér og öðrum refaskyttum. Ævintýrin sem skyttunar hafa lent í í viðureigninni við melrakkann eru kannski lygilegar eða hvað...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband