Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Vinnum saman eða afhverju geta ekki öll dýrin í skóginum verið vinir

,,Það er nú svo skrýtið, er á það ég lít" söng besti söngvari þjóðarinnar Vilhjálmur Vilhjálmsson í eigin texta fyrir alltof löngu. Enn á þetta þó vel við því enn er margt skrýtið. Stundum eru meira að segja einföldustu hlutir voða skrýtnir. Og svo er ég sjálfur líka voða skrýtin eða einsog leikskáldið orðaði svo skemmtilega í einu verka sinna,, skrýtinn fugl ég sjálfur". Svo er líka enn annað skrýtið og það er að líka má rita þetta orð með einföldu eða skrítið. 

Sjálfur er ég svo skrýtinn að það að allir vinni saman finnst mér það besta í heimi. Enda er það líka staðreynd ef við vinnum saman þá getum við gert svo miklu miklu meira. Nonni Sig var ekkert að djóka þegar hann sagði ,,Sameinaðir stöndum vér." En, já alltaf kemur þetta litla orð sem er svo gífurlega sterkt, það er nú bara alls ekkert alltaf sem við vinnum saman. Afhverju? Vildi ég gæti svarað því. Það er t.d. mjög skrýtið að stundum geta einföldustu hlutir orðið til þess að samstarf og samvinna gengur ekki á milli okkar mannfólksins. Sjálfur hef ég t.d. lent í því að það gangi ekki að vinna með mér því ég sé vinur þessa og þessa. Ég sé skyldur þessum og hinum. Eða jafnvel vegna þess að ég kaus Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum. Sem ég og gerði og er heldur ekkert að fela það. Auðvitað á hver að hafa sína skoðun á því að vild en held þó að það sé alveg hægt að vinna með manni þrátt fyrir það. Sjálfur vinn ég oft með fólki sem hefur kosið Vinstri græna eða Samfylkingu og alla hina flokkana líka. Mér vitanlega hefur það ekki haft nein áhrif á samstarfið enda erum við ekkert að ræða pólitík. Vinahópurinn er líka útúm allt í pólitík og það er bara gaman. Ég meina hvað væri varið í þetta alllt saman ef allir væru sammála. Hvað ættum við þá að ræða?

Kannski þurfum við bara að gera meira af því einsog áðurnefndur Vilhjálmur söng í einu sinna laga: Tölum saman.

Og svo skulum við öll vinna saman. Því það er svo miklu auðveldara og skemmtilegra.  

 

 


Þrjár dætur, þrjár systur

Ég er ríkur. Alveg ofboðslega ríkur. Ég á þrjú yndisleg börn. Þrjár dætur. Reyndar kynni ég oft sjálfan mig þannig að við hjónin eigum fjögur börn og ég sé það fjórða. Já, það er mikið lagt á mína góðu konu. Enn bættist í ríkidæmið þegar ég var svo gerður að afa fyrir tveimur árum. Það var minn miðburður sem setti mig í þetta frábæra afahlutverk. Já, það er þessi í miðjunni. Svo er það okkar frumburður og loks síðburður. 

Ég veit ekki hvort það er aldurinn eða hvað en síðustu ár hef ég alltaf verið að uppgötva betur og betur hvað það er í raun sem skiptir mestu máli í lífinu. Það er fjölskyldan. Við foreldrarnir erum bæði sjálfstætt starfandi listamenn og þið getið því vel ímyndað ykkur að mánaðarmótin eru oft erfið. En það eru bara ekkert þessir monnipeningar sem lífið snýst um. Það er fjölskyldan, samveran. Við þurfum ekker að eiga flatskjá, tvær bifreiðar, alla Lord of the Rings diskana helst í hátíðarúgáfu eða alla þessa dauðu hluti. Þegar ég hugsa um það þá leið okkur t.d. mjög vel þegar ég var í leiklistarnámi í Danmörku. Þá tókum við ekkert með okkur nema sokka og fataplögg. Ég tók ekki einu sinni námslán. Samt áttum við þar geggjuð tvö ár og gerðum margt saman sem fjölskylda. Fórum oft í dýragarðinnn, í tívolí, í alla þessa frábæru garða sem eru útum alla Kaupmannahöfn og enduðum oft á því að borða pakkaís, já þið vitið einsog hann var í gamla daga, útí garði. Fullkomið líf. Þarna komst maður fyrst að þessum stóra sannleika að fjölskyldan á ávallt að vera í fyrsta sæti. 

Vissulega hefur oft verið erfitt fyrir okkar góðu dætur. Pabbi á endalausum leikferðum eða þá að vinna í leikhúsinu. Stundum gerist það að eitthvert listaverkið gengur ekki og þá kemur ekkert í kassann. En samt hefur þetta gengið allt saman og líklega bara styrkt alla. Því það er ekkert gaman að fá allt uppí hendurnar. Eða einsog minn góði leiklistarskólastjóri sagði ávallt: Það sagði engin að þetta yrði auðvelt.

Og svona hafa árin liðið og dætur okkar eru alltaf að stækka og mikið sem við erum stolt af þeim. Frumburður löngu flutt að heiman og er að standa sig svona líka vel á Listnámsbraut FB. Miðburður er að stúdera hár og snyrtigreinar við Menntaskólann á Ísafirði og hefur heldur betur náð að festa hendur á verkefnið. Síðburður er svo í Grunnskólanum á Ísafirði og hlakkar mikið til að ganga áfram menntaveginn. Já, þær eru flottar þrjár systur. Framtíðin er þeirra.

Afastelpan mín er byrjuð á leikskólanum Sólborg og fílar sig heldur betur vel þar. Við eigum margar góðar stundir saman því bæði erum við miklir bókaormar. Loksins þegar afi kemur heim er hann settur í gamla stólinn í borðstofunni. Svo fer sú stutta í bókahilluna og nær í fyrstu bókina, oft verða sömu bækurnar fyrir valinu Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á hausinn á sér er mjög vinsæl. Svo tekur við lestur á svona tíu til fimmtán bókum. Afi skemmtir sér ekki síður en litla skottið.

Ég er mjög stoltur pabbi og afi.  


Hrósum meira

Sem lattelepjandi maður þá er ég voða kátur þegar mér er hrósað. Veit að það er fáranlegt að segja þetta en þetta er bara sannleikur. Í raun eru hrós oft okkar helstu laun sem erum í lattedeildinni. Því í raun skiptir hrós eða það að einhver sé ánægður með það sem ég er að gera í listinni mig meira máli en einhverjir monningar. Enda held ég að það sé staðreynd að ef maður sé ríkur þá er maður fátækur. Reyndar hef ég aldrei verið monningalega ríkur enn er maður að berjast við mánaðarmótinn þó maður sé orðinn 43 ára. Hinsvegar er ég mjög hamingjusamur. Já, ég veit þetta lopapeysulið heldur bara að það geti lifað á loftinu. Og svo bætist við frasinn: Af hverju færðu þér ekki bara vinnu?

Fyrir 20 mínútum eða svo (þ.e. þegar þetta er párað, svo verða mínúturnar bara fleiri eftir aldri þessa pistils) fékk ég hrós og þakkir frá áhorfenda sem var á sýningu hjá mér í Bolungarvík í janúar. Og ég segi bara einsog sungið í einhverju lagi: Mér líður vel, mér líður vel í dag. 

Meira þarf ekki til að gleðja mig. Enda hef ég ekkert verið að kikka á stöðuna á netbankanum í dag og ætla ekkert að vera að skemmileggja daginn.

Í raun ætti maður að vera duglegri við að hrósa fyrir það sem vel er gert. Sjálfur mætti ég gera meira af því. Enda kostar ekki neitt að hrósa og þakka það sem vel er gert. Mér fannst t.d. Anna Sigríður Ólafsdóttir standa sig vel síðasta laugardag þegar hún las uppúr verðlaunabókinni Blóð hraustra manna. En bókin sú fékk Tindabikkjuna verðlaun Glæpafélags Vestfjarða fyrir bestu glæpasöguna 2013. Samt hitti ég nú vinkonu mína á eftir þegar við átum hin glæpsamlegu verðlaun í Túninu heima. Betra seint en ekki svo nú segi ég bara: Annska þetta var vel lesið hjá þér. Þú hefur mjög áheyrilega rödd. 

Svo hér eftir mun ég stefna að því að hrósa meira þegar ég er ánægður með eitthvað sem ég sé eð upplifi.  


Dagur í lífi lattelepjandi manns

Oft er ég spurður af því hvað ég sé að gera í vinnunni. Hvað gerir þú eiginlega allan daginn? Já ég er nefnilega listamaður sem gjarnan eru nefndir lattelepjandi menn og konur. Líklega er þetta réttnefni hvað mig varðar því ávallt þegar ég fer á kaffihús þá fæ ég mér latte og það tvöfaldan. Því miður hef ég alltof lítið farið á kaffihús undanfarið því blessunarlega hefur verið mikið að gera í vinnunni. Já, vinnunni. Þetta er vinna þó ekki séu kannski allir því sammála. En það er líka allt í lagi það er nú ekkert varið í þetta ef allir eru á sama máli. Hvað er ég svo að gera? Og kannski frekar er ég eitthvað að gera? 

Það er að vísu svolítið erfitt að lýsa vinnudegi míns lattelepjandi dags. Engin dagur er eins því verkefnin eru mörg og fjölbreytt. Stundum er hinsvegar ekkert verkefni í gangi og þá er enn meira að gera því þá þarftu að finna uppá einhverju að gera, einhverju sem getur skapað þér monninga í þinn þunna og grunna buxnavasa. Til að geta þó áttað sig aðeins á mínu daglega vinnudegi þá get ég bara tekið gærdaginn fyrir, já ég er ekkert ósvipaður og kötturinn hvað minnið varðar. Svona var lattelepjandi vinnudagur minn í gær.

Föstudagur 31. janúar 2014

Vaknaði kl.7. Hefðbundinn morgunverður en ég er einn af þeim sem þarf að borða mikið á morgnana og það helst strax. Svo get ég nánast sleppt því að borða drjúgan hluta dagsins, tek reyndar ávallt með mér tvo ferska tómata í nesti.

Síðburðinum fylgt í Grunnskóla Ísafjarðar korter fyrir átta. Þaðan skundað beint á vinnustofuna sem er bara í næsta húsi eða í kjallaranum í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Er með aðstöðu þar sem áður var matreiðsla í Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði svo nú skiljið þið kannski afhverju ég þarf að vera búinn að eta mig saddann þegar eg mæti til vinnu.

Að sjálfsögðu hef ég með mér sterkt kaffi á vinnustofuna, svona ekta espressó mallað í Túninu heima. Fyrsta verkefni dagsins er að vinna í handriti og skipuleggja æfingar á söngleik sem ég er að æfa. Þetta er söngleikur sem ég setti saman í samstarfi við minn góða lattefélaga Guðmund Hjaltason. Heitir Jón Indíafari og hin vestfirska æska túlkar öll hlutverk leiksins. Erum kominn á þann stað þar sem allt er að fara að gerast í æfingaferlinu. Verið að sleppa handriti og byrja að fóta sig á sviðinu. Svo ég sem leikstjóri þarf að undirbúa æfingar vel, ákveða stöður, hvað hver er að gera, hvernig á leikmyndin að vera, svo allir söngvarnir það þarf að æfa þá svo mikilvægt er að vera vel undirbúinn fyrir hverja æfingu. Er að vinna í þessu í klukkutíma.

Þá er klukkan orðin 9.15, já þarf alltaf smá tíma á vinnustofunni áður en ég hefst handa. Kveiki á útvarpinu, drekk kaffið og gíra sjálfan mig upp.

Nú er kveikt á tölvunni sem er mikið vinnutæki fyrir mig og það er nú bara ótrúlegt hve tölvan er orðinn mikilvæg í okkar nútímasamfélagi. Byrja á að svara tölvupósti bæði frá gærdeginum og það sem hefur borist í dag. Mér finnst mjög mikilvægt að svara tölvupósti og hef ávallt haft þá reglu að svara öllum tölvupóstum. Fyrir utan þessa frá Nígeríu hef alveg látið þá vera. Þetta eru allskonar erindi sem berast í tölvupósti. Pantanir á leiksýningum sem Kómedíuleikhúsið mitt er með og sýnir um land allt berast nánast allar í gegnum tölvupóst í dag. Oftast eru það pantanir frá skólum en einnig frá hátíðum og fyrir ýmiskonar mannamót. Einnig berast reglulega póstar á Act alone leiklistarhátíðina sem ég stofnaði og er listrænn stjórnandi í dag. Þó hátíðin sé ekki haldin fyrr en aðra helgina í ágúst ár hvert þá berast í viku hverri póstar á hátíðina. Oftast eru það fyrirspurnir frá erlendum listamönnum sem langar að koma fram á hatíðinni.

Korteri síðar eða svo þá er farið á veraldarvefinn. Skanna fréttavefi landsins en byrja þó ávallt á nær umhverfinu og þar er bb.is málið. Svo er farið á Andlitsbókina. Það má margt gott segja um þann vef og öruggulega margt slæmt líka. Auk þess að vera með eigin síðu þá er ég einnig með síður fyrir mín apparöt sem eru þó nokkur. Kómedíuleikhúsið, Þjóðlegu hljóðbækurnar, Act alone, Leikhús á Vestfjörðum. Svo er ég tengdur ýmsu öðru apparti m.a. Glæpafélagi Vestfjarða. Maður reynir að halda þessum síðum opnum enda er þetta sterkt upplýsinga og jafnvel auglýsingatæki ef vel er notað. Svo maður setur gjarnan stöðuuppfærslur á sínar síður um næstu sýningu, leikferð, frumsýningu osfrv. Meiri veraldarvinna liggur fyrir því ég er bæði með heimasíðu fyrir Kómedíuleikhúsið og Act alone. Það hefur sýnt sig að ef maður uppfærir ekki síðuna reglulega þá dettur öll umferð á vefinn niður. Eðlilega ef ekkert nýtt kemur inná heimasíðuna nú þá er engin þörf að kikka á hana. Ég er svo lánsamur að úrvals hönnuðir settu upp þessar síður sem er einfalt að uppfæra sjálfur.

Það fer alveg klukkutími í þetta. Næst þarf ég að skunda til góðs vinar míns og samstarfsfélaga Jóhannesar Jónssonar. Við höfum brallað margt í gegnum tíðina. Mest hefur það þó verið í tengslum við hljóðbókaútgáfu Kómedíuleikhússins. Hann var einmitt að fjölfalda fyrir mig hljóðbækur sem voru búnar. Það er nefnilega að skella á hinn árlegi Bókamarkaður Félag íslenskra bókaútgefenda og þar verða hljóðbækur okkar til sölu. Við Jói tökum einn kaffi, ekki latte að þessu sinni heldur staðið og gott kaffi. Soldið sterkt. Skunda aftur á vinnustofuna með 100 eintök af hljóðbókum. Nú tekur við að prenta á diskana og pakka þeim í viðeigandi hulstur. Það fer nokkur drjúgur tími í þetta því ég get bara prentað einn disk í einu.

Nú er klukkan að verða 12.42 og vinna hefst við næsta verkefni dagsins. Að udirbúa æfingu á leikritinu Lína Langsokkur sem ég er að leikstýra á Þingeyri. Það er æfing í kvöld og allur leikhópurinn mætir hátt í tuttugu manns. Svo það er eins gott að vera vel undirbúinn.

Varð að gera stuttan stans í Línu ævintýri til að taka þátt í öðru ævintýri. Bíldalíu. Vinur minn Ingimar Oddsson var að fá styrk fyrir verkefni sem hann nefnir Bíldalía og er einstakt verkefni á nema hvað Bíldudal. Margmiðlun, bókaútgáfa og meira að segja útgáfa eigin myntar. Strákurinn var að fá þennan fína styrk fyrir þetta verkefni. Og þar sem lokað er á milli norður og suðursvæðis Vestfjarða meira en helming ársins þá bað hann mig að taka á móti þessu sem ég gerði með mikilli ánægju.  

Aftur skundað á vinnustofuna klukkan er nú 13.56 og ég held áfram að undirbúa æfingu á Línu Langsokk.

Klukkutíma síðar eða 14.56 er það næsta verkefni. Nú er það tímarit sem ég er að fara gefa út með mínum góða bróður Þórarni Hannessyni. Tímaritið heitir Arnarfjörður sem er okkar fæðingarstaður en við ólumst upp á Bíldudal við Arnarfjörð. Einsog Jón úr Vör sagði þá ,,fer þorpið með manni alla leið". Þetta tímarit er hugsað sem ársrit og efnið verður sótt í hinn sögulega Arnarfjörð. Um menn og málefni, viðburði, hús, félög og já bara allt sem hefur gerst í þessum mikla sagnafirði. Ritaði eina grein um síldveiði í Arnarfirði og lagði drög að grein um ár Þorsteins Erlingssonar á Bíldudal. En hann var ritstjóri blaðsins Arnfirðingur sem Bíldudalskóngurinn Pétur Jens Thorsteinsson gaf út. 

Klukkan er að verða 16 og nú er gerð smá pása í vinnunni. Skunda í Bónus og hingað og þangað í þágu heimilisins.

Klukkan 18.40 falla öll vötn til Dýrafjarðar. Skunda í gegnum göngin, yfir Gemlufallsheiði og stöðva ekki fyrr en við Björgunarsveitarhúsið á Þiingeyri. Þar er einmitt að hefjast æfing á Línu Langsokk eftir 15 mínútur svo að vanda byrjar maður á því að hella uppá kaffi. Korteri síðar eru allir mættir, mjög stundvísir leikarar enda er það mikilvægt í leikhúsinu. Það er góður stemmari á æfingunni, mikið hlegið og við meira að segja prófum að sleppa handriti í einu atriðinu. Vippuðum okkur bara á gólfið og prófuðum stöður. Verð að nota tækifærið og hrósa leikurunum fyrir að vera dugleg að læra textann sinn. Það er ekki nema vika síðan við byrjuðum að æfa og leikarar fengu hlutverk og handrit í hendurnar.

Klukkan 22 er æfingu á Línu lokið.

Skunda til tengdaforeldra minna á Þingeyri en þar er einmitt minn betri helmingur. Skuttlaðist með mér yfir til að eiga góða stund með sínum frábæru foreldrum. Tengdaforeldrar mínir eru miklir listamenn. Tengdapabbi var einmitt að vinna í hesthaus fyrir hestinn hennar Línu. Hann á eftir að stela senunni er ég hræddur um því þessi hestur getur bæði depplað augunum og blakað eyrunum.

Klukkutíma síðar eða kl.23.30 erum við komin heim í Túnið. Þá var nú bara lagst í sófann og nema hvað sett á DR 1 þá úrvals stöð. Horfðum á tvöfaldan þátt með Mr. Marple hina dásamlegu persónu Agötu Christie.

Þannig var nú föstudagurinn 31. janúar 2014 í mínu lattelepjandi lífi.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband