Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014

Menningarskjár Vestfjarða

Margt er rætt á leikferðum.

Var að koma heim eftir velheppnaða leikferð Kómedíuleikhússins með barnaleikritið Halla. Sýndum í hinu stórglæsilega Gaflaraleikhúsi í Hafnarfirði. Svo skemmtilega vill til að við erum tvö í þessu leikverki en yfirleitt er ég bara einn einsog þekkt er orðið. Enda er ég svo lélegur leikari einsog maðurinn sagði. Svo það var skemmtileg nýjung að hafa einhvern annan en útvarpið til að tala við á leið milli staða. Hlusta reyndar mikið á hljóðbækur þegar ég er einn á ferð en nú var bara græjann styllt lágt enda margt að spjalla. Að sjálfsögðu komu listir og menning mikið við sögu enda erum við bæði í lettedeildinni. Einkum voru markaðsmál listarinnar okkur hugleikin. Enda er það staðreynd í okkar nútímasamfélagi að markaðsmál skipta alveg gífurlega þegar listviðburður er settur á svið. Það hefði t.d. verið stórkoslegt ef við hefðum getað auglýst sýningar okkar á Höllu á helginni og notað til þess svona 200 þúsund eða svo. En fyrir svona lítið menningarapparat einsog Kómedíuleikhúsið er erfitt að finna solleiðis upphæðir. Hið Kómíska bókhald er sannarlega kómískt.

Það er bara þannig að vort lista- og menningarlíf er gífurlega öflugt og það er svo mikið um að vera. Sem er alveg stórkostlegt svo til að láta vita af þínum viðburði þá þarftu að auglýsa þig vel og standa vel að öllum kynningarmálum. Sjálfur fæ ég mjög oft þá spurningu eftir sýningu einhversstaðar: Ha, bíddu var þetta eitthvað auglýst?

Málið er bara að við í listinni erum ekkert voða klár í að selja okkur sjálf. Enda svo sem alveg nóg að vera að beita sínum kröftum í listinni og í raun alveg útí hróa að vera að ætla sínum litla kroppi og kolli í að gera allt. Leika, markaðssetja, svara í miðasölusímann og skúra leiksviðið.

Hér í menningarbænum Ísafirði eru allar auglýsingatöflur fullar af auglýsingum. Sem sýnir hve frábært vort mannlíf er. Oftar en ekki kemur maður ekki upp sinni auglýsingu sökum plássleisis. Enn verra er hinsvegar að oft eru auglýsingar teknar niður þó viðburði sé ekki lokið.

En það eru tækifæri í öllum stöðum svo gerum eitthvað nýtt og spennandi. 

Sú hugmynd sem við ræddum mest. Var sú að sniðugt gæti verið að koma upp Menningarskjá Vestfjarða. Þessum skjám væri komið fyrir á helstu samkomu stöðum fjórðungsins t.d. í Hamraborg á Ísafirði, í Bónus, á Vegamótum á Bíldudal, á Galdrasafninu á Hólmavík og víðar. Á skjánum væru auglýsingar þar sem menningarlífið væri kynnt. Mundi rúlla allan sólarhinginn árið um kring. Þannig gæti t.d. Leikfélag Hólmavíkur kynnt sínar leiksýningar, kórar gætu auglýst sína tónleika, myndlistarmaður auglýst sýningu og já bara allt nema fatamarkaðir ættu þarna heima. Vissulega þarf að stýra þessu á einhvern hátt og eðlilegast væri að hafa ritstjóra yfir dæminu sem gæti t.d. verið blaðamaður á Bæjarins besta. Þeir sem vildu kynna sína viðburði gætu þá einfaldlega sent  kynningartexta og mynd á ritstjórann sem setur þetta á Menningarskjá Vestfjarða. 

Auðvitað kostar þetta eitthvað en fyrst er að hugsa og melta. Svo finnst ávallt besta lausnin. Kannski kemst Menningarskjár Vestfjarða í loftið? Það yrði nú gaman mar'. 


Leikhúspáskar á Ísó

Vá það er bara ekkert minna það eru fimm leiksýningar á fjölunum í Ísafjarðarbæ þessa páska. Sannarlega ástæða til að sækja hið eina sanna vestur heim. Það er samt ekki allt því það er geggjað gott skíðafæri á dalnum og svo er hin frábæra rokkhátíð alþýðunnar Aldrei fór ég suður að bresta á. Sannarlega má segja að menningarbærinn Ísafjarðarbær iði að lífi alla páskana. 

Leiksýningarnar fimm á leikhúspáskum á Ísó eru fjölbreyttar og sannarlega geta allir aldurshópar fundið sína sýningu. Atvinnuleikhús Vestfjarða Kómedíuleikhúsið sýnir tvær leiksýningar um páskana. Gamanleikurinn Fjalla-Eyvindur verður sýndur á morgun, Föstudaginn langa, kl.20 í Hömrum sal Tónlistarskóla Ísafjarðar. Á laugardag sýnir Kómedían sitt nýjasta verk barnaleikritið Halla. Sýnt verður á Safnahúsinu Ísafirði kl.16.30 og 17.30. Miðasala á sýningar Kómedíuleikhússins er þegar hafin í síma: 891 7025.

Á Þingeyri sýnir Leikdeild Höfrungs vinsælasta barnaleikrit allra tíma Lína Langsokkur. Þrjár sýningar verða núna um páskana í dag Skírdag kl.16 og á Föstudaginn langa kl.14 og kl.17. Miðasölusími á Línu  Langsokk er 867 9438.

Í næsta firði, firði Önundar sýnir Leikfélagið á Flateyri farsann Allir á svið. Þrjár sýningar verða á þessum fjöruga farsa á Föstudaginn langa kl.20 og á laugardag kl.17. Miðasölusími er 847 7793.

Á Ísafirði sýnir Litli leikklúbburinn gaman og söngstykkið vinsæla Þið munið hann Jörund. Sýnt verður í dag, Skírdag, kl.20. Miðasölusími: 856 5455.

Það er morgun, dag og næturljóst að það þarf engum að leiðast í Ísafjarðarbæ þessa páska. Gleðilega Leikhúspáska á Ísó.  


Lífið er yndislegt og allir spila kandí kröss

Ávallt fyllist maður stolti þegar mætt er á hina árlegu árshátíð Grunnskólans á Ísafirði. Hef sagt það áður en segi það samt aftur og enn að æskan á Ísafirði er frábær. Brosandi og sískapandi en meina samt vel það sem þau segja og gera. Því er mikilvægt að við tökum mark á þeim og hlustum. 

Á hverri árshátíð er ákveðið þema og í ár var það ,,Öll ólík, öll eins." Sannarlega gott efni til að vinna með enda kom það í ljós strax á fyrstu sýningu núna í morgun. Atriðin voru sannarlega ólík og alls ekkert eins. Enda er lítið varið í dæmið, lífið og leikhúsið ef allt er alveg eins. Vissulega var stórt stungið á efninu og einsog einn leikhúsmaðurinn segir svo alltof oft: Sýningin hreyfði sannarlega við manni.

Í einu atriðinu var skemmtilegt skot á Evróvisjonið þar sem símakjósendur lentu í miklum vanda um hvaða lag skyldi velja. Því það var aðeins eitt lag í keppninni en það var sungið þrisvar sinnum og það var að sjálfsögðu slagarinn Lífið er yndislegt.

Ekkert var eins nema það að hinn vinsæli leikur kandí kröss kom víða við sögu.

Það var sannarlega fast skotið á árshátíð Grunnskólans á Ísafirði og ávallt lenti knötturinn í netinu og oftar en ekki í samskeytunum.

Lífið er sannarlega yndislegt á Ísafirði. Við verðum bara að gæta okkar á því að týna okkur ekki í kandí krössinu einsog æskan benti okkur svo réttilega á.

Til hamingju æska og framtíð Ísafjarðar.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband