Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Þekktustu útlagar þjóðarinnar loksins saman á leiksviðinu

Þeir eru margir útlagarnir á Íslandi en líklega er óhætt að segja að þeir þekktustu séu Gísli Súrsson og Fjalla-Eyvindur. Svo skemmtilega vill til að sá sem hér pikkar inn texta hefur gert leikrit um báða þessa kappa. Enn skemmtilegra er frá að segja að báðar sýningarnar hafa slegið í gegn. Enn er svo hægt að toppa það með því að segja að loksins verða Gísli Súrsson og Fjalla-Eyvindur á fjölunum í Reykjavík. Til að kóróna það þá verða sýningarnar í 101 nánar tiltekið í Gamla bíó.  

Sýningarnar verða sýndar saman og þannig gefst einstakt tækifæri til að sjá sannkallaða útlagatvennu. Fyrsta sýning á Gísla Súra og Fjalla-Eyvindi verður eftir viku eða fimmtudaginn 29. maí kl.20. Miðasala er þegar hafin á midi.is.

Tvær sýningar til viðbótar verða á útlagatvennunni í Gamla bíó. Á Hvítasunnudag 8. júní kl.20 og loks mánudaginn 16. júní kl.20. 

Verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson sem hefur verið sýndur um 300 sinnum verður einnig sýndur á ensku í Gamla bíó. Fyrsta sýning á ensku verður miðvikudaginn 28. maí kl.20.

Miðasala á allar sýningar er í blússandi kómískum gangi á midi.is  


Fyllum eyðina með listamannaíbúðum

Það er eitthvað sérlega heillandi við eyðibýli. Einhverjir töfrar og sannarlega saga og oftar en ekki gleymd saga. Hvernig væri nú að breyta einsog 20 eyðibýlum af þessum 160 í listamannaíbúðir. Vissulega þarf að velja þau sem eru best með farin haldi allavega vatni og vindum. Líklega þarf að stinga rafmagni aftur í samband við bæinn og svo náttúrulega mubla bæinn upp. Semsé einhver kostnaður en á móti kæmu tekjur inná íbúðina vegna leigu til listamanna. Tæki líklega nokkur ár að ná núllinu en þannig er það einmitt í listinni. Fyrstu árin er mínus á dæminu en svo stefna allir að stóra núllinu og það ætti alveg að takast í þessu tilfelli.

Sjálfur væri ég meira en til í að dvelja á eyðibýli til að skapa og vinna við mína list. Nokk viss um að fleiri væru til í það líka. Svo fyllum eyðbýlin af lífi og sköpun.  


mbl.is Ríkið á 160 eyðijarðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rommí á Bíldudal

Það má vel segja að leiklistarlífið hafi verið í góðum gangi á Vestfjörðum síðustu ár. Áhugaleikfélögin hafa sett upp hvert stykkið á fætur öðru og það sem enn betra er að mörg félög hafa verið að vakna af sínum Þyrnirósadvala. Nú hefur hið fornfræga Leikfélagið Baldur á Bíldudal vaknað á nýjan leik og er að frumsýna núna á helginni. Um er að ræða hinn vinsæla gamanleik Rommí. Það eru stórleikarar staðarins þau Hannes Friðriksson og Þuríður Sigurmundsdóttir sem fara með hlutverkin. Leikurinn gerist á dvalarheimili eldri borgara og má segja að fast sé skotið, enda er gamanleikurinn einmitt beittastur og bestur í að stinga á kílum samfélagsins.

Rommí verður frumsýnt í Baldurshaga á Bíldudal núna á laugardag 17. maí kl.20. Önnur sýning verður á fimmtudag 22. maí kl.20. Leikstjóri sýningarinnar er yðar einlægur en gaman að geta þess að það var einmitt þarna sem leikferillinn hófst. Einmitt með Leikfélaginu Baldri í Baldurshaga í janúar 1977. Þetta er í fyrsta sinn sem ég leikstýri á senuæskuslóðum og þið getið rétt ímyndað ykkur stemmarann í mínu hjarta.

Leikfélagið Baldur á Bíldudal á sér langa og merka sögu. Félagið var stofnað í lok janúar árið 1965 og fagnar því hálfrar aldar afæmli á næsta ári. Félagið hefur sett á svið yfir 20 leikverk það fyrsta var á Vængstýfðum englum árið 1966. Meðal annarra verka sem Baldur hefur sett á svið má nefna Maður og kona, 1968, Mýs og menn, 1971, Skjaldhamrar, 1978, Höfuðbólið og hjálegan, 1992, Jóðlíf, 1995, og Sviðsskrekkur, 2000. Auk þess stóð Leikfélagið Baldur lengi fyrir árshátíð þar sem ávallt var boðið uppá heimasamin stykki oftast úr smiðju meistara Hafliða Magnússonar.

Það er til marks um endurnýjun lífdaga Baldurs að það er einmitt allt í gangi hér á Bíldudal. Þorpið yðar að lífi og allt er þetta jú einsog spilaborg. Atvinna og skemmtun fara afar vel saman.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband