Betra það sem kemur utan en að innan
26.1.2025 | 17:52
Skrítinn fugl ég sjálfur sagði breska leikskáldið og hitti sannlega beint í mark. Í það minnsta hvað mig varðar. Ég er óttalegur veslingur þó ekki Verzlingur enda aðeins leikskóla genginn þ.e. leiklistarskóla menntaður. Enda segi ég það alveg satt, einsog Gunnar fósturafi minn á Bíldudal sagði á góðum stundum, að ég hef bara verið að leika mér nánanst frá því ég man eftir sjálfum mér. Eldskýrnina fékk ég einmitt hjá nefndum fósturafa sem var hinn eini sanni jólasveinn þorpsins. Eitt sinnið vildi hann hafa einhvern Stúf með sér. Vitanlega bauðst ég strax til þess leiks þrátt fyrir að vera þá sem nú skíthræddur við jólasveina. Gunnar jóalafi minn dressaði sig sjálfan í rautt og svo mig setti því næst á okkur sitthvort skeggið. Renndi í gegnum Adam átti syni sjö og tróð mér svo ofan í pokann sinn. Þetta var mín eldskírn í leikhúsi lífsins og verður líklega seint toppað. Enda hef ég oft komið að fjöllum síðan. Bæði sem jólagæji og ekki síður komið að fjöllum í hausnum. Enda er ég einsog ég sagði í upphafi óttalega vitlaus. Eða ætti ég kannski að segja svoddan jólasveinn. Sumt finnst mér bara, einsog krakkarnir segja stundum, ekki meika sens.
Í nóvember liðnum dvöldum við hjónin í Daviðshúsi fyrir nordan. Frúin í bókbandi meðan ég vann mín blekbóndastörf. Úr því varð reyndar leikritskríli, draugastykki, sem mun vonandi sveima um senuna í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal Dýrafirði næsta haust. Mikið sem það er annars gott að fara á nýjan stað til að huxa, vinna eða bara til að slæpast. Kynnast nýju fólki, nýjum siðum og síðast en ekki síst njóta lista viðkomandi staðar. Það var einmitt haldin þrælmerkilegur listafundur þar nyrðra nær við hjónin vorum þar að stúdera í húsi Davíðs. Efni fundarins var mikilvægi skapandi greina á landsbyggð. Málaflokkur sem er í raun bara einsog mín trú - því ég trúi því staðfastlega að mörg tækifæri felsist í list á landsbyggð. Eigi þó sagt gegn höfuðborg. Alls ekki og við eigum heldur ekkert að vera metast um það. Heldur jafna tækifærin en þannig er það því miður ekki í listinni í dag. En nóg um þá listapólitík, huxum kannski meira um það síðar.
Nema hvað í lok fundar sagði einn frummælanda að hann væri eiginlega búinn að segja allt sem hann vildi, nema eitt kannski í lokin. Það væri nefnilega eitt atriði sem hann ætti erfitt með að skilja og það væri að miklu fleiri utanbæjar og úr nágrannabyggðum sæktu sýninguna hjá sér en heimamenn. Það varð þögn á fundinum. En svo brosti nær allur þingheimur og hló í kampinn svo sögðu nánast allir í kór. Við könnumst líka við þetta úr okkar heimabyggð.
Þetta er nú soldið skondið að þeir sem eru nærri eru í raun fjarri eða jafnvel fjarverandi. Meðan þeir sem eru fjarri og jafnvel enn lengra frá eru nærri, sumsé mæta í hús.
Ég var nú bara svona að huxa upphátt á snjófögrum sunnudegi fyrir vestan.
Hætt'essu væli
22.1.2025 | 18:02
Oft þarf maður að minna sjálfan sig á að anda, telja uppá 5, smæla og hætta'essu væli. Eða einsog ég haldi áfram að vitna í söngvaskáldið góða KK; Hafðu engar áhyggjur, lífið það er sem það er, fer sem það fer.
Enda höfum við líklega ekkert val um hvernig fer því það fer allt einhvern veginn einsog Laxaskáldið sagði. Víst kroppar lífið ávallt í manns sálartetur og nær maður er lítil sál eða bara einfaldalega mömmudrengur einsog ég þá vill maður stundum fara í þann gír sem ég vil alls ekkert vera í. Að fara að tuða og hvað þá að vera bitur, enn verra að vera bitur listamaður. Þar vill maður nú alls ekki vera né lenda, frekar betra bara að vera í aftursætinu á rauðum bíl einsog sungið var á eitístímanum.
Í kveld er leikur í handboltanum og því er við hæfi að maður kannski komi sér upp leikkerfi og hætt'essu væli. Fyrst er að anda, svo er að huxa, næst að smæla og svo halda áfram sinn veg. Við þetta má svo bæta að sleppa stundum að horfa eða hlusta á fréttir, skrolla minna á samfélagsmiðlum og hlusta frekar á þögnina. Fá sér bara göngutúr. Fátt betra en rölta niðrí fjöru eða eitthvurt út í náttúruna og hlusta á óma náttúrunnar og fuglanna. Segja svo bara við sjálfan sig.
Hafðu engar áhyggjur.
Erfiðar slitnar byggðir
19.1.2025 | 18:08
Ég hef verið að stúdera ljóðheim ljóðabónda Vestfjarða, Guðmundar Inga Kristjánssonar, frá Kirkjubóli í Öndunarfirði. Sá orti nú, einsog frandi Einar Kárason segir gjarnan, litla vitleysu eða kunni að nefna það. Víst var ljóðabóndinn einsog margt skapandi fólk hrifið af ljósinu og þá einkum sólinni enda báru allar bækur hans hið bjarta upphaf Sól. Í raun skilur maður þetta ennbetur búandi á Vestfjörðum þar sem sólin dregur sig árlega í nokkurra mánaða frí. Hér á Þingeyri hvar ég bý bíðum við nú öll eftir upphafi febrúarmánuðar nær sólin birtist í skarðinu og fer svo með hverjum degi að bera geisla sína lengra og lengra fram á eyrina fögru. Þannig skýn sólin fyrst hjá mínum góðu tengdaforeldrum enda búa þau nær sólarskarðinu en við hjónin. Við erum í strætinu, Aðalstrætinu.
Það var eigi bara sólin er ljóðabóndinn Gvendur orti um heldur og hið fagra vestur. Í ljóðaverki sínu Sólfar er kom út 1981 er að finna ljóðið Vestur á fjörðum. Hvar einmitt er að finna orðin er prýða fyrirsögn þessarar hugleiðingar:
Vestur á fjörðum eru enn
erfiðar slitnar byggðir.
Sitja þar nokkrir sveitamenn
er sýna þeim rækt og tryggðir.
Svo heldur hann á að yrkja um hina strjálu sveitabyggð Vestfjarða hvar sumsstaðar er líf og sumsstaðar hafa ljósin verið slökkt endanlega. Tíminn hefur svo enn dregið tjöldin fyrir og slökkt ljós margra bæja er lifðu ljós í ljóði skáldsins annó 1981.
En samt tímarnir breytast mennirnir með og enn erum við hér vestra ræktum vorn fjórðung og eflum vora tryggð. Það hefur nefnilega margt lagast og bæst hér vestra. Þá einkum í samgöngum enda máttum við alveg við þeirri vegabót eða þó fyrr hefði verið segir einhver en ég segi bara betra seint en ekki. Ég held líka að við erum fyrir vestan búum verðum að temja okkur það að tala frekar vort svæði upp en niður. Vissulega má margt bæta og þangað stefnum við alveg óhikað. Eða einsog ljóðabóndinn Gvendur frá Kirkjubóli sagði:
Og sagan á enn sitt mikla mál
og myndir sem rísa úr valnum.
Leyfi mér svo að bæta við hinni gullnu settningu vestfirska bókaútgefandans Hallgríms Sveinssonar:
Upp með Vestfirði!
Stækkum vestfirska listheiminn
13.1.2025 | 20:55
Það var einmitt á fyrstu dögum hins ný byrjaða árs sem ég fór að huxa, kemur stundum fyrir, hvernig getum við eflt listheiminn á Vestfjörðum? Afhverju nefni ég bara Vestfirði jú það er nú bara vegna þess að ég bý þar og starfa. Já, pæliði hve ég er lánsamur að geta starfað að list minni í heimahéraði, það er lúxus en þó eigi sjálfgefið. Gengið er vissulega einsog í hvurju öðru apparati stundum gengur og stundum gengur aðeins hægar. Stundum fær maður útborgað stundum minna og stundum eru bara fiskibollur um mánaðarmótinn. En það er allt í lagi því mér finnst þær svo góðar, sérlega með bláberjasultu.
Þar sem ég er ekkert mjög skarpur í kollinum kannski frekar soldið einfaldur, enda finnst mér best að leika einn. Þar með er komin skýringin á því að ég hef helgað mitt leiklíf einleiknum. Bæði með því að setja upp einleiki í Kómedíuleikhúsinu og standa fyrir einleikjahátíðinni Act alone. Því tel ég það vera eitt besta og einfaldasta ráðið við að efla listheiminn á Vestfjörðum að við einfaldlega mætum á sem allra flesta listviðburði vestfirska á þessu nýja frábæra ári. Tökum ónefndan Skagstrending til fyrirmyndar er mætti eitt sinn á barnaleiksýningu hjá Kómedíuleikhúsinu á Skagaströnd, kom bara einn ekki með neitt barn með sér og var sjálfur kominn á eftirlaun. Kom svo að lokinni sýningu og þakkaði okkur fyrir og sagði svo: Ég mæti á alla listviðburði hér á Skagastönd? Og svaraði meira segja líka með því að segja: Nú ef ég mæti ekki þá hættið þið listafólkið að koma til okkar.
Ég get bara ekki orðað þetta betur en bæti við og fæ enn aðstoð annarra, enda er ég ekki klár í kolli einsog áður gat. Myndlistarkonan Helena Margrét Jónsdóttir mælti nefnilega svo réttilega í blaðaviðtali um daginn um það hvað listin gjörir: Listin á að stækka heiminn svo skilningur fólks á hlutunum færist í nýjar víddir.