List er byggðamál
26.2.2025 | 14:39
Ég þekki mann sem býr út á landi sem fór á sína fyrstu dansleiksýningu nær hann var kominn yfir sjötugt. Það finnst mér nokk merkilegt en þó ekki. Framboð listar á landsbyggð er nefnilega alls ekki nógu mikið og er það miður. Ef eitthvað þá er listin enn mikilvægari í fámenningu en í borgarlandinu, einsog nú er svo vinsælt að nefna höfuðborgarsvæðið. Ef eitthvað þá hefur fjölbreytileiki lista á landsbyggð minnkað ef eitthvað er því meðgjöfin frá ríkinu hefur verið allt of lítil í þennan svellta málaflokk sem listir á landsbyggð eru og þá ekki síst atvinnulistir. Meina afhverju er ekki fyrir löngu búið að koma upp atvinnuleikhúsum í öllum fjórðungum landsins. Líklega vilja margir bara segja hvað þurfa að vera óperusýningar útum allt land er ekki bara nóg að hafa það í borginni og fólkið komi þangað. Þýðir heldur ekkert að nefna að Þjóðleikhúsið eigi að já um landsbyggðina því þeir gera það bara ekki. Því miður. Þannig er einmitt staðan í dag að til að sækja fjölbreytta list þá þarftu bara að fara suður. Það sem verra er að listin er órjúfanlegur hluti af lífshjólinu það er ekki nóg að vinna í laxi eða verslun þú þarft líka að hafa gaman, upplifa, hlaða batteríið og þar kemur listin sterkust inn og það á öllum sviðum. Hvort heldur það er dansiball, leikhús, myndlistarsýning, dansnámskeið....
Ný stjórn komin og hún hefur nú alveg einstakt tækifæri til að gera stórátak í byggðamálum með sérstaka áherslu á listir. Fyrir allmörgum árum var komið á hinum frábæru Sóknaráætlunum landshlutanna með framlagi frá ríki og sveitarfélögum. Þessir sjóðir eru eitthvað það besta sem komið hefur fyrir listastarfsemi á landsbyggð. Það væri því upplagt að hefjast strax handa og minnst fimm falda framlögin í sóknaráætlanirnar því það væri alvöru sóknarleikur og líklega bara beint í mark, einsog var hjá Arsenal í gamla daga, sko, minna núna.
Eða einsog einhver sagði, nú er lag eða kannski frekar betra seint en ekki.
Nýr hringur ný tækifæri eða kannski bara annað tækifæri
5.2.2025 | 11:28
Góður vinur minn, sem er sko engin vitleysingur, hefur þann góða sið að óska manni til lukku með afmælið í þessa veru: Til lukku með liðinn hring og vegni þér vel með nýja árshringinn. Nýttu tækifærin sem koma en vertu líka til í að taka á móti þessu óvænta og hvað þá öllum ævintýrunum á komandi hring. Þetta verður stuð.
Eftir því sem mínum árshringjum fjölgar þá finnst mér þetta svo gott veganesti fyrir komandi ár. Að fara hringinn á einu ári er nefnilega alveg dásamleg upplifun og þetta óvænta getur vissulega verið kvíðandi, örgrandi og vakið upp ýmsar pælingar í kolli manns. En það er þetta að takast bara á við það eða einsog afadrengurinn sagði eitt sinn. Það er bara að feisa það.
Árshringur manns er vissulega breytilegur og það er einmitt það geggjaða við tilveruna. Stundum gæti maður nú bara verið staddur í slagara Johnny Cash í eldhringnum sjálfum í Ring of fire. En á öðrum tíma í texta eftir sveitunga minn og stórskáldið Hafliða Magnússon er orti: Við förum hring eftir hring.
Ég hlakka til að snúast með nýja árshringnum mínum er hófst einmitt í gær og enn stefni ég að því að vakna kátur að morgni og til í að feisa daginn.
Myndin hér fylgjandi er Charles Fazzino, sem ég þekki eitt neitt, en er höfundur þessa mæta listaverks er hann nefnir One world...The Circle of life.
Töfrandi sýning í Tjarnarbíó
3.2.2025 | 12:18
Við hjónin brugðum okkur ásamt einum afa- og ömmudreng okkar í leikhús á helginni. Ávallt er það nú jafn gaman og töfranadi að mæta með æskuna í leikhús eða bara á listviðburð yfirhöfuð. Það er ekki bara stundin sem er svo töfrandi heldur er þetta einhver besta fjárfesting sem mar' getur gert bæði fyrir sig sjálfan og ekki síður listalífið sjálft. Því eigi viljum við hafa listina einsog í Spilverkssöngnum: Styttur bæjarins sem engin nennir að horfa á.
Við fórum í Tjarnarbíó, musteri hinnar sjálfstæðu senu, og sáum skemmtilega og fróðlega sýningu Lalla töframanns, Nýjustu töfra og vísindi. Sannarlega voru þarna töfrar til staðar og svo vísindin sem eru sannlega töfrar útaf fyrir sig líka. Lalli er náttlega alveg afskaplega skemmtilegur listamaður. Ávallt orkumikill og svo er það þetta með leikgleðina, hún er í hæstu hæðum. Það er fátt betra en að sjá listamann njóta sín í list sinni. Þannig var það svo sannlega í Tjarnarbíó í gær á sýningu Lalla Nýjustu töfrar og vísindi. Afadrengurinn skemmti sér alveg konunglega kallaði reglulega aðstoðarorð til listamannasins og það gerðu fleiri fulltrúar æskunnar á sýningunni. Lalli náði greinilega vel til þeirra allt frá upphafi sýningarinnar til loka.
Við fullorðna fólkið skemmtum okkur ekki síður. Vísindin hafa nú ekki alltaf náð til mín enda er ég nú ekki mjög gáfaður piltur, þó 53 sé, náði t.d. aldrei algebru í skóla. Hins vegar horfði ég á vísindaþáttinn Nýjasta tækni og vísindi er Sigurður Richter stýrði með stæl. Skyldi samt ekki margt þar þó vel hafi Sigurður lagt það fyrir gónendur. Það er bara með tölur og tækni eftir svona 1- 2 mínútur þá er hugur minn bara horfinn, ég dett bara út. En ég datt alls ekkert út á helginni á sýningu Lalla á Nýjustu töfrum og vísindum. Ég sé að það verða sýningar á leiknum í febrúar í Tjarnarbíó svo nú er bara um að gjöra að panta sér miða og leyfa töfrunum að taka þig í ævintýralegt ferðalag í Tjarnarbío. Töfri töfri.
Mættum við fá meira lystrán
1.2.2025 | 14:53
Datt heldur betur í lystapottinn um daginn nær ég fór í hina þörfu verslun Góða hirðinn. Fer ávallt beint í bókadeildina og týni mér þar löngum stundum. Svo er þetta einsog svo oft áður annaðhvort finnur maður eitthvað eða bara ekki neitt. Nú gjörðist hið fyrrnefnda haldiði bara ekki að hafi náð í allmörg blöð hins merka listtímarits Lystræninginn er kom út um 7 ára skeið 1975 - 1982. Átti nokkur listablaðana í safni nínu í Leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins en nú bættust enn fleiri í það góða listabóka-leikskrá og blaðasafn. Ég elska það alveg að flétta þessum lystaræningja. Það má alveg segja að þar hafi þeim tekist er þeir rituðu í blaðið: Lystræninginn vill skoða veröldina, segja frá henni í mynd, söng eða sögu eða greinum. Það dásamlega var að hér var það listaveröldin sem var undir og sannlega á breiðum grunni allt frá djazz til leiklistar.
Á liðinni öld var nefnilega allmikið um sérstök listablöð og má þar nefna mitt uppáhald Leikhúsmál er leikjöfurinn Haraldur Björnsson gaf út í rúman áratug um miðja liðna öld. Allt þetta gjörist fyrir alnetið en samt velti ég fyrir mér hvort umræða, umfjöllun og almennar pælingar um listir hafi verið meiri hér á landi fyrir nettíma?
Um daginn féll frá alltof snemma menningarblaðamaðurinn Ásgeir H. Ingólfsson, góða ferð minn kæri. Það væri nú vel við hæfi að fara að kikka dulítið á hvort væri nú ekki hægt að punta soldið meira uppá menningar, eða höfum það heldur listumfjöllun í fjölmiðum í dag. Geta þarf þó þess sem enn er. Sérstakar menningarsíður eru í Morgunblaðinu og er það vel. Einnig hefur Samstöðin verið að standa sig vel í umfjöllun um listir.
Ólíklegt má þó tejast að tilkomi nýtt prentað listablað einsog Lystræninginn en það eru fjölda mörg tækifæri til að lystrænast. Í útvarpi, sjónvarpi, hlaðvarpi og já allsstaðar þar sem varpa má ljósi á hina margbreytilegu list á Íslandi og munum þá líka eftir landsbyggðinni. Það er nefnilega geggjuð list í gangi á landsbyggð í dag.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)