Lærum íslensku með leikritalestri
31.3.2025 | 16:47
Sem starfandi leikari þá hef ég mikið yndi af því að lesa leikrit. Ekki bara leikrit sem ég er að fást við hverju sinni heldur bara að lesa mér leikrit til skemmtunar, íhugunnar og fróðleiks. Þessa lestraáráttu hef ég haft frá tvítugs aldri eða svo eða nær ég ákvað endanlega að mitt starf hér í heimi væri að leika - mér. Þá fór ég einnig markvisst að safna leikritum og ég held að ég eigi líklega öll leikrit sem hafa komið út á bók hér á landi. Eru það bæði verk eftir innlenda sem erlenda höfunda allt frá Oddi Björnssyni til Williams Shakespeare. Reyndar skal það strax áréttað að leikritaútgáfa er líklega sú bókaútgáfa sem minnst gengur hér á landi og nær líklega sjaldan núlli eða að komast réttu megin við línuna. En samt eru þetta einar 6 hillur sem mitt leikritabókasafn rúmar.
Svo mikla trú hef ég á gangsemi leikritalesturs að leikhús okkar hjóna Kómedíuleikhúsið, atvinnuleikhús Vestfjarða, er komið í samstarf við íslensku verkefnið Gefum íslensku séns, á Ísafirði, um að efna til leiklesturs á íslensku. Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess að íslensku verkefnið vestfirska hefur það að meginmarkmiði að stuðla að auknum möguleikum fólks í notkun íslensku á sem víðtækastan hátt, að fólk sem er að nema málið fái stuðning og skilning þeirra sem vald hafa á tungumálinu. Þetta hefur verið gert með því að efna til fjölbreyttra viðburða þar sem allt fer fram á íslensku allt frá leiksýningum til gönguferða og nú verður lesið leikrit á íslensku.
Fyrir valinu var eitt af betri leikverkum síðustu aldar Skjaldhamrar eftir Jónas Árnason. Lesturinn hefst á morgun 1. apríl kl.19.30 og já það er ekki spaug, leiklesturinn hefst þriðjudaginn 1. apríl í Fræðslumiðstöð Vestfjarða og er öllum opin. Hvort heldur fólk vill lesa eða bara hlusta á lesturinn. Skjaldhamrar er leikrit í fullri lengd og verður því lestrinum skipt niður á tvö kveld. Seinni leiklesturinn verður fimmtudaginn 4. apríl.
Afhverju Skjaldhamrar spyrja líklega margir. Sérlega þar sem sumir hafa kannski ekki heyrt af þessu mæta leikverki. Skjaldhamrar hefur nefnilega vestfirska tengingu og því þótti gráupplagt að hefja þetta íslensku verkefni með efni heiman af, einsog séra Baldur vinur minn sagði gjarnan. Leikritið var frumflutt hjá Leikfélagi Reykjavíkur haustið 1975 í Iðnó. Svo vel lukkaðist að verkið var á fjölunum í þrjú leikár í röð og fór einnig á írska leiklistarhátíð. Eftir það var verkið sýnt hjá áhugaleikfélögum víða um land m.a. hjá Leikfélaginu Baldri á Bíldudal 1978. Efni leiksins á vel við íslenskuverkefnið því hér er fjallað um rétt smáþjóðar til að halda sjálfstæði sínu, tungumáli og sérkennum. Verkið gerist í seinni heimstyrjöldinni hvar breska setuliðið leitar að þýskum njósnara og berst leitin alla leið á Vestfirði nánar tiltekið á Skjaldhamra hvar vitavörðurinn Kormákur stendur sína vakt ásamt systur sinni æðarkollunni Matthildi og maddömmu Rósalind sem er kýr. Verkið byggði Jónas lauslega á sögnum af þýskum njósnara er faldi sig í fjallinu á Patreksfirði.
Öll eru velkomin til leiklesturs á Skjaldhömrum í Fræðslumiðstöð Vestfjarða Ísafirði dagana 1. apríl og 4. apríl, lestur hefst kl.19.30 bæði kveldin.
Lístahátíðarlandið Vestfirðir
28.3.2025 | 13:24
Af listum hafa þeir nóg fyrir vestan en samt er aldrei nógu mikið af list. Það er eitt atvinnuleikhús, nokkur áhugaleikfélög, fullt af kórum, hljómsveitum og músíköntum, hér starfa skáld og blekbændur, myndlistarflóran er fjölskrúðug og svo hefur kvikmyndadeildin vestfirska verið að vaxa síðustu ár. Svo eru það listahátíðirnar sem eru hvorki færri en kannski fleiri, ef ég hef máske gleymt að telja einhverja já svo mikill er fjöldin, 8 listahátíðir eru haldnar á Vestfjörðum. Sú nýjasta hófst bara í gær og er um leið eina ritlistahátíðin og ber hið viðeigandi heiti Bókmenntahátíð Flateyrar. Fjölbreytt dagskrá þar sem fram koma m.a. skáldin Gerður Kristný, Maó Alheimsdóttir og síðasts en ekki síst stofnandi og stjórnandi hátíðarinnar Helen Hafgnýr Cova.
Öldungar listahátíðanna eru tveir en það eru Act alone hin einstaka leiklistar- og listahátíð á Suðureyri og alþýðurokkhátíðin Aldrei fór ég suður á Ísafirði. Báðar stofnaðar árið 2004 og hafa verið haldrnar árlega síðan. Hinar fimm hátíðirnar eru hinar ísfirsku Pifff kvikmyndahátíð og tónlistarhátíðin Við djúpið. Svo eru það Patreksfjarðarhátíðirnar Alþjóðlega píanóhátíð Vestfjarða og Blús milli fjalls og fjöru.
Sérstaka athygli vekur að margar af þessum vestfirsku listahátíðum hafa jafnað aðgengi Vestfirðinga og í raun landsmanna allra að listum óháð efnahag því ókeypis er á viðburði margra þeirra. Það er náttlega einstakt og skiptir gífurlega miklu máli. List á ekki að vera lúxus og aðeins fyrir þá er hafa bólgnar pyngjur heldur á listina að vera fyrir alla.
Nú vita margir og allavega þeir listelsku hvar best er að búa.
Öll velkomin í listahátíðarlandið Vestfirði.
Alþjóðlegi leiklistardagurinn - leikhúsið verði þjóðskóli
27.3.2025 | 20:26
Í dag er einstaklega hátíðlegur dagur fyrir heimsbyggð alla því í dag er Alþjóðlegi leiklistardagurinn. Því skulum við öll gera einsog gjört er á hátíðardegi í frægasta leikhúsbæ allra tíma Kardemmomubæ - hrópa margfallt húrra fyrr leiklistinni. Megi hún svo lengi lifa og eða bara lifa. Sem starfandi leikhúsmaður, sem áhugamaður síðan ég var 6 ára en sem atvinnuleikari síðan 1997, hef ég kannski ekki miklar áhyggjur af líftíma leikhússins. Því leikhúsið er svo einstakt og fáu líkt. Þú þarft að vera á staðnum til að upplifa leikhúsið enda er það list augnabliksins alveg hér og nú. Leikhúsið er svo einstakt að þú mátt endilega og bara alveg slökkva á símanum meðan á sýningu stendur, hvernig svo sem leikstykkið verður þá verður hitt pottþétt betra að geta verið án þarfasta þjónsins er nútímamaðurinn nefnir og upplifa að það er bara alltílæ að vera ekki sítengdur við símheima. Þú missir líklega af fáu markverðu og svo er maður nú alltaf að komast að því að maður er kannski ekki alveg ómissandi.
Á hinum alþjóðlega degi er gott að opna aðeins hausin og pæla hvað við gætum gert betur í leiklstarmálum. Vissulega sprettur margt upp en þó vil ég aðeins nefna eitt og það er aðgengi að leiklist. Þar megum við Íslendingar bæta okkur allverulega sérlega á landsbyggðinni. Aðgengi hinna strjálbyggðu byggða að leiklist eru ósköp klén. Hin fáu atvinnuleikhús sem á landsbyggð starfa, eru ef ég tel rétt 4, gera sitt besta sem og áhugaleikfélögin sem víða starfa. Í fámenninu er erfitt að fást vð fjölbreytileikann sérlega í leiklistinni því miður getum við ekki verði einsog magazínið fyrir sönnan með vöruval á öllum hæðum, við erum kannski mera einsog kjallarabúðin. Ástæðan er fámennið og svo hið sígilda skortur á fjármagni til handa atvinnuleiklist og áhugaleiklist á landsbygð.
Minn leikhúsdraumur er stór og þetta með aðgengið er mér mjög hugstætt og þá ekki síður líka aðgengi að leikhúsi óháð búsetu, stöðu og efnahag. Þar eru tækifæri til bætingar. Ég hef verið að glugga í ævisögu hins fyrsta Þjóðleikhússtjóra Guðlaugs Rósinkranz sem rétt er að nefna að er Vestfirðingur frá Tröð í Önundarfirð. Í opnunarræðu Þjóðleikhússins sagði hann nokkuð sem mér finnst harmonera vel við á hinum Alþjóðlega leiklistardegi: Fluttningur leikritanna sé listrænn, að leikritin hafi bókmenntalegt eða listrænt gildi, eigi erindi til áheyrendanna og séu í því formi, að þau nái til almennings. Á þessu veltur hvort leikhúsið getur orðið sá þjóðskóli, sem því er ætlað að verða.
Vel orðað hjá Vestfirðingnum. Þjóðskóli það fangar vel aðgengi okkar landsmanna að leiklist og mikilvægi þess að við stórbætum og jöfnum aðgengi allra að leikhúsinu.
Sjáumst í leikhúsinu og helst sem oftast.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar ég var púki á Bíldudal voru skapandi greinar ekki mjög fyrirferðamiklar í námskrá grunnskólans. Við lærðum þó smíðar, handavinnu og myndlist. Þar sem ég er nú ekki mikill handansmaður þá var ég nú eigi mjög lúnkinn í þessum listhandgreinum. Hesturinn sem ég sagaði út úr krossviði var meira í ætt við sjalfan mig sumsé asna. Pottaleppaparið sem ég hekklaði brúkaðist eigi við að halda á heitu heldur þurrka fætur er maður steig úr sturtubaðinu heima. Í myndlistinni þá teiknaði ég bara fjall og kallaði það heiðina, krotaði þar inn vegaómynd og svo einhverjar bifreiðar sem kennarinn hélt reyndar að væru mýs eða jafnnvel menn, en þá á fjórum fótum sko. Nú svo fengum við danskennslu eina viku á ári. Þá kom danskennari að sönnan sem söng dansvísuna hástöfum: Tja tja tja og sturta niður. Síðan þá hef ég kunnað hvort tveggja uppá tíu.
Sem betur fer hafa skapandi greinar fengið aðeins meira vægi í menntakerfi landsins en enn má þó bæta í að mínu mati. Þá ekki síst á landsbyggð. Margur segir kannski strax, en það er ekki hægt þið eruð svo fá það er ekki hægt að halda úti balletkennslu fyrir svo fáar sálir eða ekki hægt að bjóða uppá tveggja vikna grímunámskeið í skólanum því það er ekki til monningur í kerfinu. Allt er þetta rétt en í stað þess að segja að eitthvað sé ekki hægt þá er miklu frekar að huxa opið og reyna að finna lausnir. Því það hefur löngu sannað sig að listir og sköpun eru eitt það besta sem maðurinn hefur og vill ekki bara virkja heldur langar, verður bara að fá útrás fyrir sköpunina. Svo eru listir hin albesta forvörn.
Ég er einsog vinir mínir fyrir sunnan sem sagt er um að huxi ekki nema uppí Ártúnsbrekku þá huxa ég bara uppí miðja Bröttubrekku það er mér alveg nóg. Það er með listmenntun á landsbyggð einsog atvinnulistir á landsbyggð og nú meira að segja verslun á landsbyggð að hún gengur ekki nema með meðgjöf ríkisapparatsins. Vissulega er þetta ábyggilega orðið þreytt að alltaf þurfi landsbyggðin meðgjöf en það er bara staðreynd sérlega þar sem skóinn hefur kreppt hvað mest hér fyrir vestan.
Hér vestra er því miður allt of lítið úrval í listmenntun fyrir æskuna og í raun alla flóruna því fullorðnir hafa ekki síður þörf og áhuga á að listmennta sig. Ástæðan er einföld, listmenntun kostar monní glás og þegar fáir eru nemarnir gengur dæmið ekki upp. Meira segja í fjölmenninu eru listappartötin að ströggla eða einfaldalega gefa upp öndina bara síðast í gær bárust fréttir af Kvikmyndaskólanum sem væri á leið í þrot og í morgun var frétt um að Söngskóli Sigurðar Demetz væri líklega að syngja sitt síðasta.
Nú er óskandi að ríkisapparið geri gangskör í því að efla listmenntun á landsbyggð, líka á höfuðborgarsvæðinu vitanlega, ég huxa bara uppí mína brekku einsog áður gat. Því áhuginn er til staðar og svo má ekki gleyma því að það er ekki öll æskan sem fílar að sparka í bolta eða hafa uppi spotiðkun. Kannski væri hægt að skilgreina Barnamenningarsjóð betur og hafa ákveðið margar millur sem færu sérstaklega í listmenntun. Því listmenntun er góð menntun.
Í lokin segi ég bara einsog söngvarinn; Megi sá draumur rætast okkur...og bæta við að á Þingeyri, hvar ég bý, muni í framtíðinni æskunni og þeim eldri líka standa til boða að nema ballet sem leiklist í sinni heimabyggð óháð stétt og efnahag.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Faðir minn Clark Gable
22.3.2025 | 23:46
Árið er 1978 nánar tiltekið 11. mars og það er hátíðardagur í leikhúsinu á Bíldudal því um kveldið verður frumsýning hja Leikfélaginu Baldri á leikritinu Skjaldhamrar eftir Jónas Árnason. Þetta man ég svo vel enn þann dag í dag þó ég hafi aðeins verið sex ára þarna og fékk samt að fara á frumsýninguna. Hef síðan tekið upp þann góða sið að börn mín fái að fara í leikhús ef þau vilja jafnvel þó eigi sé um skilgreint barnaleikrit að ræða. Reyndar er það nú svo að ég var líka á langflestum æfingum Skjaldhamra allan febrúar og svo fram í mars eða alls í sex vikur sem er hinn algengi æfingatími leikrits í fullri lengd. Á frumsýningu var pakkaður salur 130 manns, pabbi mundi líklega segja það hafa verið 165 jafnvel 170. Allt í lagi að bæta aðeins í sérlega þegar vel tekst til.
En á æfingum var þar mun fámennarra. Það var vitanlega leikstjórinn sem var hin listræna og mér vel minnuga, því hún gisti á æskuheimilinu mínu á æfingatímanum, stórleikkonan Kristín Anna Þórarinnsdóttir. Mamma var þarna oft sérlega þegar á leið æfingatímann því hún sá ávallt um að gera búningana fyrir sýningar Baldurs. Nú svo vorum við frændsystkinin og bestu vinir í okkar sætum á hverri æfingu, ég og Sirrý góðfrænka mín dóttir Ödda frænda sem var líka ávallt á sviðinum ásamt föður mínum. Við vorum bara sex ára þarna við Sirrý en sátum samt dolfallinn einsog yfir einhverjum Dallas þætti á hverri einustu æfingu á Skjaldhömrum. Þarna var náttlega ekki komið myndbandstæki í dalinn og hvað þá internet. Svo leikhúsið var okkar skemmtan.
Faðir minn fór þarna á kostum í höfuðrullunni lék heimsmanninn, sem hafði þó lítið farið úr sínum firði líkt og sveitungi minn Gísli á Uppsölum, Kormák vitavörð. Nema hvað haldiði að hann hafi ekki verið með þetta örmjóa og fína yfirvaraskegg alveg einsog og filmuleikarinn Clark Gable var með. Enda er pabbi enn þekktur á Bíldudal sem Hannes Gable. Öddi frændi lék breskan major með miklum bravúr og svo var uppáhaldsleikkonana mín Margrét Friðriksdóttir í hlutverki hinnar bresku Katrínar Stanton. Ekki má gleyma Eyjó bankamanni, já þá var banki á Bíldudal (fer hlutunum aftur eða fram spyr maður sig oft) hann lék breskan korporol. Hann var með ótal kækji, saug upp í nefið og hafði uppi ýmiskonar munnkæki sem eru mér enn minnisstæðir. Þetta var víst í fyrsta sinn sem hann steig á leiksvið en þeir er sáu töldu hann hafa bara rétt skroppið af sviðinu í Iðnó, leikhúsi Leikfélags Reykjavíkur hér í denn, til að taka þátt í sýningu Baldurs. Þessir bresku búningar voru svo flottir að flestir töldu þá hafa bara komið beint frá breska setuliðinu. Svo var nú eigi því það var hún móðir mín, Þórunn Helga, sem gerði þá. Hvernig? Jú, hún byrjaði á því að símaa til Strætisvagna Reykjavíkur og spurði hvort það væru ekki til strætisvagnabílstjóra jakkar sem þau mættu missa og gætu sent með næstu vél vestur á Bíldudal. Bingó, einsog faðir minn mundi segja. Strætójakkarnir komu vestur og móðir mín bætti á þeim borðum og orðum svo úr urðu þessir fínu bresku herjakkar. Ef Churchill hefði ekki verið horfinn af sviðinu fyrir rúmum tíu árum þá, hefði hann án efa pantað nokkur dúsín af þessum breskíslenskustrætójökkum móður minnar.
Afhverju er ég nú að huxa þetta allt upp núna, jú ég var nefnilega að lesa í fyrsta sinni handritið af Skjaldhömrum. Sá aðeins stykkið 1978 reyndar allar æfingar og sýningar en samt rifjaðist textinn upp fyrir mér nær ég las sérlega setningarnar hjá Kormáki vitaverði, er faðir minn Gable lék svo listilega. Pælið bara í hvað minnið er merkilegt fyrirbæri. En afhverju var ég nú loksins að lesa Skjaldhamra jú vegna þess að ég er að fara að taka þátt í stórskemmtilegu verkefni á vegum Gefum íslensku séns og Kómedíuleikhússins þar sem á að hittast og leiklesa Skjaldhamra. Þeir sem lesa eru okkar nýju íslendingar þ.e. íbúar sem hafa íslensku eigi að móðurmáli en eru að nema hana enda orðin hér búsett. Ég hef nebblega svo mikla trú á leikhúsinu að ég tel að leiklestur sé hin besta íslenskukennsla. Hlakka til lestursins og endurkikks á Skjaldhamra Kormáks og Jónasar Árnasonar.
Að vera einn af einum á köldu svæði
16.3.2025 | 15:56
Ég bý sumsé á köldu svæði. Enda kostar nú heldur betur monninginn að kynda sinn kofa, því segir maður oft einsog unglingurinn nær maður sér húshitunarreikniginn: Ertu að kidda mig. Hinsvegar komst ég að því að, kemur fyrir að ég komist að einhverju þó ég sé frekar grannur þ.e. vitrgrannur, að þar sem ég bý á köldu svæði þá á ég rétt á niðurgreiðslu til kaupa á hinu stórmerka apparati varmadælu. Með því að fjárfesta í slíkri græju og koma í gagnið ku maður víst lækka sinn húshitunarreikning um jafnvel helming á mánuði, munar um það hjá listamanni á landsbyggð.
Úr köldu í eitt og soldið einstakt. Talan einn er mér einstaklega hugleikin. Ég bý á svæði þar sem lögmálið er voða mikið einn af einum. Það er einn pípari, einn rakari, einn leikari, eitt skáld..... Það þarf því engan að undra að ég hafi valið mér einleikjaformið, eða reyndar var það frekar leikformið sem valdi mig einmitt sökum þess að nær ég ætlaði að fara að starfrækja atvinnuleikhús okkar hjóna á búsvæði eins af einum þá komst ég að því að ég var og er eini atvinnuleikarinn á svæðinu. Svo þá kom náttlega ekkert annað til greina en að setja bara upp einleik og svo hef ég bara leikið einn. Hemmi vinur minn Gunn hafði nú svar við afhverju það væri. Ég væri bara svona lélegur leikari og ég held að það sé bara alveg rétt hjá mínum kæra góða vin sem ég huxa nú samt ávallt hlýtt til, enda var þetta bara djókur.
Tilveran er nefnilega einkennileg á stundum. Svo þegar ég var orðin leiður á að útskýra hvað einleikur er nær fólk spurði mig, og kannski vegna grunnhygni minnar og trúðaminnis, þá ákváðum við hjónin að stofna bara til sérstakrar einleikjahátíðar. Er nefnist Leikur einn en uppá enskuna Act alone. Þannig að ef einhver spyr mig í dag þá er svarið bara komdu á Act alone eða á næstu einleikssýningu mína í Kómedíuleikhúsinu Haukadal. Allt í einu fatta ég að kannski hafi nú kaupmannsgenið komið þarna upp í mér án þess þó að ég vissi af því - væri góð leið til að fá fleiri gónendur í okkar einstaka leikhús. Já í stað einstakra orða er bara best að viðkomandi skelli sér í leikhúsið okkar að sjá einleik.
Að því sögðu er rétt að binda enda á þetta einstaka pár mitt með því að minna á að einleikur sumarsins í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal er, Þannig var það, eftir Norska Nóbelskáldið Jon Fosse og verður sýnt alla fimmtudaga í júlí í dalnum þar sem engin býr í Haukadal Dýrafirði (ekki einu sinni einn). Act alone hin einstaka listahátið verður svo haldin einstaklega hátíðleg dagana 7. - 9. ágúst á Suðureyri því einstaka sjávarþorpi.
Listapparöt landsbyggðar
13.3.2025 | 14:29
Í þessu líka brakandi sólskini á leikhúseyrinni Þingeyri er eigi annað hægt en huxa með hlakkandi huga til sumars. Lóan víst mætt á klakann en þegar Fryggerlan (í dag nefnd Maríuerla - en á Bíldudal heyrði ég og lærði reyndar að heiti þessa smáafugls væri Máríuerla) fer að skoppa um göturnar þá fyrst sumrar. Þá fjölgar líka gestunum hér á landsbyggð og þá þarf nú að hafa eitthvað meir en ósnerta náttúru og þar kemur afþreyingin sterk inn. Hvort heldur það eru opnar sundhallir, möguleiki á fjórhjólaferðum, skoða söfn eða mæta bara í leikhús, sumarleikhús.
Alla þessa mikiklvægu þætti til að laða að gesti í bæinn má nefna hinu aðdragandi nafni, segla. Því fleiri seglar þeim mun fleiri gestir koma. Hér á eigi við að segja minna er meira en þó vissara að hafa það soldið geggjað en þó ávallt vandað, gjört alla leið. Hinar geggjuðu hugmyndir eru oft soldið góðar í gestadeildinni því eigi hefði maður áhuga á að sjá bara endalaus byggðasöfn er öll sýndu bara rokka og aska. Miklu heldur vildi maður sjá eitthvað einstakt sem er nærri hvurgi annarsstaðar. Ég hefði t.d. alveg áhuga á því að fara á hákarlasafn eða grásleppusafn og mundi alveg taka extra krók á ferðalagi mínu til að kikka á slíkt.
Hér fyrir vestan höfum við einstaka listahátíð sem helgar sig eins fólks listinni og heitir uppá enskuna Act alone sem útleggst á vort ilhýra Leikur einn. Þessi hátíð var fyrst haldin 2004 og hefur síðan verið einn af seglum Vestfjarða og laðað að sér fjölda gesta bæði innlendra sem erlendra. Ég tel nokk víst ef þetta hafði bara verið almenn listahátíð eða einfaldlega leiklistarhátíð, því einleikurinn er í aðalhlutverki á Act alone, þá hefði þessari hátíð ekki vegnað svona vel og hefði jafnvel ekki náð táningsaldri. Því víða eru leiklistarhátíðir um heim allan en fáar eru þær einleikjahátíðarinnar. Act alone er eina einleikjahátíð landsins, Norðurlandanna einnig en hinsvegar eru nokkrar haldnar í suður Evrópu og svo víðar um heiminn. En ekkert Act á Íslandi nema á Suðureyri aðra helgina í ágúst ár hvert ( smá auglýsing).
Þannig að það felast tækifæri í geggjuninni (lesist crazy, finn samt ekki nógu gott orð sem tekur utan um það að vera crazy en vil samt rita mína íslensku, annars verður vinur minn Óli íslenski alveg brjál) og mikilvægt og rétt að koma að því mikilvæga í þessu öllu að listaapparötin á landsbyggðinni fái brautargengi frá ríkinu. Já, enn er ég að bögga nafna minn í Menningarráðuneytinu en þetta er bara staðreynd sem þarf að laga - að veita listum á landsbyggð tækifæri því list á Íslandi og hvað þá á landsbyggð, í góðmenninu, þrýfst eigi án meðgjafar.
Nú er bara að láta hugann reika hvað mikið geggjað er hægt að gera í listapparat málum á landsbyggð. Stofna grímuleikhús sem sýnir aðeins grímuleiki. Koma upp safni um Sölva Helgason fyrir norðan. Stofna balletskóla á Raufarhöfn. Vera með sumargötuleikhús á Bíldudal þar sem sumrin eru líkt og á Spáni og því hvergi betra að stunda útilist en í firði Arnar.
List til lækninga og umhyggju
11.3.2025 | 15:16
Þar sem ég er starfandi listamaður á landsbyggð árið um kring þá þreytist ég seint á því að benda á mikilvægi lista. Þá ekki síður aðgengi að listum því listin er í raun lífheilsumál. Er einsog Maltið, bætir, hressir og kætir. En meira til fær mann oft til að huxa og jafnvel uppgötva, opna soldið hausinn því það er svo gott.
Listin mætti þó vera mun aðgengilegri og nú er lag fyrir nýja ríkisstjórn að gera stórátak í því að jafna aðgengi lista óháð efnahag og búsetu. Það síðastnefnda á sérlega vel við það svæði þar sem ég bý fyrir westan. Hingað kemur engin Sinfonía né Þjóðleikhús og hvað þá ballet sýning.
Í morgun var ég að kynna mér hið stórmerka breska grímu leikhús Vamos. Þau hafa einmitt unnið vel undir þeim formerkjum að koma listinni til fólksins og jafna aðgengi breskra að grímulist. Þau ferðast reglulega og sýna í skólum og einnig og takið nú eftir á dvalarheimilum og öðrum mikilvægum heimilum hvar fólk býr sökum bresta í heilsu eða vegna fötlunar. Í öllum þessum þáttum megum við sem hér búum og stöfum í listinni gera meira af. Vissulega eru leiksýningar og aðrir listviðburðir í skólum en því miður allt of lítið á dvalarheimilum og öðrum heilsuheimilum. Við í Kómedíuleikhúsinu höfum nokkrum sinnum sýnt á dvalarheimilum sem og þar sem þeir dvelja sem þjást af hinum miskunarlausa Hvergi sjúkdómi (alsæmer). Einu sinni fannst okkur við hafa rosa góða hugmynd fram að færa og vildum ferðast á dvalarheimili um land allt með leiksýningu okkar um þekktasta bónda landsins, Gísla á Uppsölum. Við höfðum samband við Hrafnistu og þar var svarið frábær hugmynd en það eru engir peningar til í svona lagað. Hins vegar náðum við að fara á nokkur dvalarheimili út á landi en mikið held ég að þetta hefði verið nauðsynlegt verkefni og liður í því að færa listina til fólksins sem hefur rutt brautina fyrir okkur sem nú störfum.
Að síðustu mundi ég svo vilja að okkar góðu læknar hefðu fjármagn til þess að geta ávísað listupplifun til sinna sjúklinga. Það skilar sér örugglega alveg jafn vel og einhver pilla og huxið ykkur bara lita perlurnar sem listin mun færa sjúklingnum allt listalitrófið einsog það leggur sig.
Tilvera trúðsins
10.3.2025 | 14:43
Ég hef ávallt haft mikið dálæti af trúðum og þá ekki síst trúðum sem bera ekki rautt nef. Því þannig trúðar eru sannlega til. Þeirra þekktastur er án efa Charlie Chaplin en einnig má nefna kollega hans úr þöglumyndadeildinni Buster Keaton sem var nefndur Maðurinn með steinandlitið því hann brosti aldrei í sínum myndum og svo var það Harold Lloyd stundum nefndur leikarinn sem hékk í klukkunni sem hann og gjörði með eftirminnilegum hætti í sinni allra bestu mynd Safty Last frá árinu 1923. Enn fremur má nefna frægasta tvíeiki kvikmyndasögunnar þá Steina og Olla auk frægustu bræður filmusögunnar hina einu sönnu Marxbræðrum sem voru einsog Chaplin og Steini (Stan Laurel og báðir voru þeir breskir) einnig í leikhúsinu og settu upp gamanleiksýningar sem gjörðu stórkostlegar gamanmyndir. Verk allra þessara trúða filmunnar voru í miklu uppáhaldi hjá mér strax í æsku og eru reyndar enn. Nær ég var púki á Bíldudal þá voru engin myndbandstæki kominn til sögunnar (sumir spyrja kannski í dag myndbandstæki hvað er nú það) en hinsvegar voru til á sumum heimilum litlar sýningarvélar sem tóku sérstakar spólur enda var oft ekki síður skemmtilegt að horfa á þær snúast en að horfa á myndina sem birtist á tjaldinu, það var ekki óalgengt að tjaldið væri hvítt lak sem hafði rétt fyrir sýningu verið svipt af hjónarúmi sýningarstjórans. Mínir kæru frændur og tvíburar Óli og Nonni buðu ávallt uppá kvikmyndasýningu í sínum afmælum og þá var það yfirleitt mynd með Steina og Olla. Það var svo gaman að við þurftum ekki einu sinni popp og hvað þá kók enda vorum við miklu hrifnari af Spur.
Það þarf því kannski ekki að koma á óvar að nær ég hélt loks í leiklistarskóla þá valdi ég skóla sem bauð m.a. uppá kennslu í trúðaleik. Ásamt reyndar mörgum öðrum listgreinum einsog grímuforminu Commedia'dellArte og Mellodrama. Ég hélt nefnilega alltaf að ég væri trúður og ætlaði mér að verða gamanleikari. Hinsvegar hefur það ekki alveg gengið eftir þó af og til bregði maður fyrir sig gríni á leiksviðinu en ætli megi ekki samt segja að ég hafi farið hálfa leið í grínið með tragíkómískum leikstíl.
Afhverju er maður nú að huxa um þetta jú það er vegna þess að ég hef dulítið verið að kynna mér merkan listamann sem allt of lítið hefur verið talað um. Hann hét Ingimundur og var auknefndur fiðla en er kannski þekktastur fyrir að vera bróðir nestors íslenskra lista sjálfs Jóhannesar Kjarvals. Ingimundur lenti í því að þurfa að fara leið trúðsins og trúði herbergisfélaga sínum Jóhanni J. E. Kúld fyrir þessu trúðamáli. Saman voru þeir á síldarvertíð á Siglufirði. Jóhann eltist við silfrið meðan Ingimundur taldi silfrið því hann var þarna aðeins til að skemmta blessuðu fólkinu. Á kveldin spilaði hann listilega á fiðlu sína angurvær lög í herbergi þeirra félaga. Svo fögur að hinn ungi Jóhann skildi ekkert í að hann væri ekki að spila þessi lög frekar en hafi uppi þessi eilífu trúðslæti á skemmtunum sínum á Sigló. Þá svaraði fiðlungur dapur í bragði: Það er ekki hægt. Ég hef reynt það, en fólk vill þá ekki hlusta á mig. Það skilur aðeins tilburði trúðsins, en ekki þegar ég spila einsog mig langar mest til. Hinsvegar get ég látið fiðluna túlka ýmis hljóð úr ríki náttúrunnar á þessum skemmtunum, fólkið hlustar á það.
Og það voru sannlega engar ýkjur því lesið hef ég af einni skemmtun hans á Suðureyri löngu seinna hvar nýkomin var ekki bara þessi listamaður í þorpið heldur og merk skilvinda. Á skemmtuninni um kveldið lék svo listamaðurinn á fiðlu sína hin merku hljóð skilvindunnar ásamt svo sínum kunnu náttúruhljóð.
Til svo að loka þessari pælingu og finnna kannski eitthvurt svar þá má segja að lífið sé svo stórkostlegt og óvænt að maður fær víst ekki allt sem maður vill eða langar í. En í hjartanu verð ég þó ávallt trúður þó dramastrengir slái þar oftar.
Handvirkir Þingeyringar
8.3.2025 | 15:17
Ég er líkur karli föður mínum að mörgu, báðir þokkalega velvirkir framkvæmum fyrst og huxum svo. Við eru líka báðir aðeins með þumalputta þýðir varla að setja okkur í að negla einn nagla eða saga spýtu hvað þá að mála herbergi. Hinsvegar erum við báðir mjög góðir að vaska upp og skúra.
Það er því doldið kómískt að minn betri helmingur er snillingur í höndunum enda leikur allt í hennar örmum og allt verður að list. Enda er hún frá Þingeyri og þar búa skal ég bara segja ykkur einstaklega mikið handverksfólk. Hér hafa lengi verið bókbindarar og það nokkrir og vitanlega er konan mín líka í bókbandi. Svo ef ykkur vantar að láta binda inn fyrir ykkur þá bara bjallið í mig, já það er hitt sem við pabbi kunnum og það er að selja enda kaupmenn langt aftur í aldir en engin sjómaður. Við getum þó alveg verið sjóvmenn enda höfum við feðgarnir afskaplega gaman af lífinu. Allir í fjölskyldu konu minnar eru snillingar í höndunum, tengdamamma prjónar frá morgni til kvelds ábyggilega tvö sokkaapör fyrir haddegi og eina peysu hinn hluta daxsins. Tengdapabbi er töframaður og getur lagað allt hvort heldur það eru bifreiðar eða þvottavélar. Enda af þeirri kynslóð sem lagar hlutina. Hendir þeim ekki ef eitthvað smá bilar einsog nú er soldið móðins. Svo er hann líka eldsmiður og það er líka sonur hans og svo vitanlega konan mín. Núna er einmitt í gangi eldsmíðanámskeið í gömlu smiðjunni á Þingeyri. Svo það er funheitt á Þingeyri í dag einsog það er nú allajafna sólin skín og allir í stuði.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)