AUMINGJA LJÓÐIÐ Á SIGLÓ
19.10.2007 | 23:48
Ljóðahátíðin Glóð hófst 18. október á Siglufirði og heldur ljóðafjörið áfram um helgina. Kómedíuleikhúsið sýnir á laugardag 20 október ljóðaleikinn Aumingja litla ljóðið eftir Hallgrím Oddsson. Sýningin fer fram í Aðalgötu 18 á Sigló og hefst leikurinn klukan 19.30 og takið eftir FRÍTT INN. Að vanda er um einleik að ræða og vart þarf að nefna það en gerum það samt að Kómedíuleikarinn leikur. Að lokinni sýningu verður haldin sérstök Jónasardagskrá í Herhúsinu í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli listaskáldsins góða. Kómedíuleikarinn er meðal lesara ásamt Sigurði Skúlasyni og Páli Helgasyni en hann mun flytja Gunnarshólma einsog honum einum er lagið. Fyrir þá sem ekki komast á sýninguna á Aumingja ljóðinu þá látum vér hér fylgja lokaljóð leiksins en þau eru fjölmörg og eiga það eitt sameiginlegt að höfundar eru allir vestfirskir. Ljóðið heitir Skáldagrímur og er eftir Guðmund Inga Kristjánsson en þess má geta að aldarafmæli hans er einmitt núna í ár og hafa Önfirðingar verið duglegir við að minnast skáldsins á árinu. Meðal annars hafa þau gefið út ljóðasafn hans Sóldagar í sérlega vandaðri útgáfu og ástæða til að hvetja ljóðaunnendur til að festa kaup á þessu eigulega verki eftir eitt fremsta ljóðskáld Vestfirðinga á síðustu öld. En hér kemur Skáldagrímur:
Skáldagrímsdalur, hvilft við lága heiði,
hvaðan er runnið nafnið sem þú berð?
Gleymst hefur skáld frá löngu liðnu skeiði.
Ljóð þess og minjar eru hvergi á ferð.
Ortir þú stökur eða heila rímur?
Af hverju týndist þetta kvæðasafn?
Varstu ekki ljós í vestri, Skáldagrímur?
Vann ekki hróður tímans þetta nafn?
Horfinn ert þú, og hverfa munu fleiri.
Hrósyrða margra bíður gleymskan ein.
Bjarndæling eftir öld í sýn ég heyri,
örtölvuþjón og gerfihnattasvein.
Lítur hann inn á ljóðadeild í safni,
les þar í hljóði fölnað titilblað,
glöggvar sig ei á gömlu, týndu nafni.
,,Guðmundur Ingi," spyr hann, ,,hver var það?"
Frá frumsýningu leiksins Aumingja litla ljóðið í ,,ljóðalundi" Guðmundar Inga á Kirkjubóli í Önundarfirði.
NEGRASTRÁKARNIR SNÚA AFTUR
19.10.2007 | 12:50
Kómedíuleikarinn brá sér í bókabúðina á Ísafirði svona til að kikka á jólabækurnar sem eru þegar byrjaðar að flæða inn. Var honum nokk brugðið en þó ánægjulega við að sjá þar eina væna skruddu. Ljóðabálkinn Negrastrákana með myndskreytingum eftir bílddælska listamanninn Mugg sem fjallar um 10 litla negrastráka og líkur á þessa leið: ,,Einn lítill negrastrákur sá hvar gekk ein dama, / hann gaf sig á tal við hana og bað hennar með því sama. / Negrastelpan sagði já, og svo fóru þau í bíó, - / og ekki leið á löngu áður en þeir urðu aftur tío." Ósjaldan var þetta kvæði sungið á jólaböllum á æskuárum Kómedíuleikarans í Baldurshaga á Bíldudal. En það hefur nú margt breyst síðan þá, enda sá kómíski farin að grána í vöngum, og nokkuð langt síðan þetta kvæði var tekið útaf lagalista íslensku jólasveinanna og þarf svosem ekkert að rökstyðja né ræða þá ástæðu neitt frekar titill ljóðsins segir allt sem segja þarf. Hinsvegar er þetta mjög þörf útgáfa því myndskreytingar Muggs við kvæðið eru stórkostlegt listaverk einsog öll hans verk voru. Þessi bók hefur verið ófánleg um langt skeið en nú hefur bókaútgáfan Skrudda bætt úr því með vandaðri útgáfu. Kómedíuleikhúsið fagnar þessari útgáfu Skruddu enda er Muggur í miklu uppáhaldi hjá leikhúsinu. Árið 2002 færði Kómedía á fjalirnar einleik, sem jafnframt fyrsti frumsamdi leikur leikhússins, um ævi Muggs og hét einfaldlega Muggur. Leikurinn var frumsýndur í fæðingarþorpi Muggs og Kómedíuleikarans, Bíldudal. Einnig var leikurinn sýndur á Ísafirði og í Borgarleikhúsinu. Árið 2006 frumsýndi Kómedíuleikhúsið einleikinn Dimmalimm sem er einmitt byggður á ævintýri eftir Mugg og er sá leikur enn í ævintýraham en sýningar eru nú komnar yfir 60. Fyrir skömmu var ritað um það hér á blogginu að Dimmalimm er ný útgefin og má því segja að Muggur sé fyrirferðamikill í jólabókaflóði fjölskyldunnar þessa dagana.