BILLA OPNAR SÝNINGU Á ÍSAFIRÐI Á MORGUN
2.11.2007 | 17:54
Það er alltaf sama fjörið í listalífnu á Ísafirði og það er ekkert djók að staðurinn sé Menningarbæ með stóru m-i. Í kvöld heldur t.d. Stórsveit Vestfjarða tónleika, á þriðjudag er það Mugison og á miðvikudag verður ljóðaleikurinn Ég bið að heilsa frumsýndur. Á morgun, laugardag, opnar listakonan Marsibil G. Kristjánsdóttir myndlistarsýningu á Langa Manga á Ísafirði. Marsibil eða Billa einsog hún er kölluð hefur verið aktíf í listalífnu hér vestra síðustu ár og er þetta þriðja einkasýning hennar á þessu ári. Í dag lauk sýningu hennar á Café Karolínu í Listagilinu á Akureyri og í sumar sýndi hún í eyjunni Vigur í Ísafjarðardjúpi. Marsbil hefur vakið mikila athygli fyrir pennateikningar sínar sem eru unnar af mikilli natni og nákvæmni. Þetta eru verk þar sem smáatriðin skipta máli. Það ber hinsvegar nýtt við á sýningu Billu á Langa Manga á morgun því þar verða ekki pennateikningar heldur litmyndir. Nafn sýningarinnar er líka í takt við það eða ,,Í lit". Billa hefur starfað mikið með Kómedíuleikhúsinu sem leikmynda-, leikmuna og brúðuhönnuður. Hún gerði t.d. fígúrurnar í verðlaunaleiknum Gísli Súrsson og teiknaði geggjaðar skrímslamyndir fyrir einleikinn Skrímsli. Nú situr hún sveit við að hanna og gera brúður, leikmynd og fleira fyrir jólaeinleikinn Jólasveinar Grýlusynir. Sýningin Í lit verður opnuð á morgun, laugardag, kl.16 boðið verður uppá léttar veitingar og listakonan verður á svæðinu. Endilega kikkið á Langa Manga á morgun.
Listakonan Billa við pennaverk sín sem verða ekki í aðalhlutverki á nýjustu sýningu hennar heldur myndir Í lit.
LJÓÐ DAGSINS - VÍSUR ÍSLENDINGA
2.11.2007 | 12:17
Það er komin föstudagur og margir fara ábyggilega á rall um helgina enda viðburðarík vinnuvika að baki. Ljóð dagsins er gott veganesti í upphafi helgar. Vísur Íslendinga eftir Jónas Hallgríms:
VÍSUR ÍSLENDINGA
Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur,
er gleðin skín á vonarhýrri brá?
Eins og vori laufi skrýðist lundur,
lifnar og glæðist vonarkætin þá.
Og meðan þrúgna gullnu tárin glóa
og guðaveigar lífga sálaryl,
þá er það víst, að beztu blómin gróa
í brjóstum, sem að geta fundið til.
Látum því, vinir, vínið andann hressa,
og vonarstundu köllum þennan dag,
og gesti vora biðjum guð að blessa
og bezt að snúa öllum þeirra hag.
Látum ei sorg né söknuð vínið blanda,
þó senn í vinahópinn komi skörð,
en óskum heilla og heiðurs hverjum landa,
sem heilsar aftur vorri fósturjörð.
Já, heill og heiður, Halldór okkar góður!
Þú hjartans beztu óskum kvaddur sért,
því þú ert vinur vorrar gömlu móður
og vilt ei sjá, að henni neitt sé gert.
Gakktu með karlmannshug að ströngu starfi,
studdur við dug og lagasverðið bjart,
og miðla þrátt af þinnar móður arfi
þeim, sem að glata sínum bróðurpart.
Og heill og heiður, hinir landar góðu,
sem hólmann gamla farið nú að sjá,
þar sem að vorar vöggur áður stóðu
og vinarorðið fyrst á tungu lá.
Hamingjan veiti voru fósturláði,
sem verði mörgum deyfðarvana breytt,
allan þann styrk af ykkar beggja ráði,
sem alúð, fjör og kraftar geta veitt.
Það er svo tæpt að trúa heimsins glaumi,
því táradöggvar falla stundum skjótt,
og vinir berast burt á tímans straumi,
og blómin fölna a einni hélunótt.-
Því er oss bezt að forðast raup og reiði
og rjúfa hvergi tryggð né vinarkoss,
en ef við sjáum, sólskinsblett í heiði
að setjast allir þar og gleðja oss.
Látum því vinir, vínið, andann hressa
og vonarstundu, köllum þennan dag,
og gesti vora biðjum guð að blessa
og bezt að snúa öllum þeirra hag.
Því meðan þrúgna gullnu tárin glóa
og guðaveigar lífga sálaryl,
þá er það víst, að beztu blómin gróa
í brjóstum, sem að geta fundið til.