MENNINGARRÁÐ VESTFJARÐA STYRKIR KÓMEDÍULEIKHÚSIÐ
7.12.2007 | 17:29
Það var mikil hátíðarstund í lista- og menningarsögunni á Vestfjörðum í dag þegar nýstofnað Menningarráð Vestfjarða úthlutaði styrkjum í fyrsta sinn. Athöfnin var haldin í Náttúrugripasafninu í Bolungarvík og var mikil eftirvænting í lofti þegar þessi fyrstu menningarúrslit voru kynnt. 20 millur voru til úthlutunnar fyrir verkefni sem unnin hafa verið á þessu ári eða eru á framleiðslustigi. Kómedíuleikhúsið datt heldur betur í lukkupottinn og fékk styrki vegna fimm verkefna: Act alone leiklistarhátíð 2007, Jólasveinar Grýlusynir, Ég bið að heilsa og fyrir hljóðbækurnar tvær Þjóðsögur úr Vesturbyggð og Þjóðsögur úr Ísafjarðarbæ. Kómedíuleikhúsið þakkar Menningarráði kærlega fyrir ómetanlegt framlag til þessara verkefna. Kemur þetta að mjög góðum notum þar sem listastarfsemi kostar alltaf slatta af monnípeningum og bara það að ná á núllið fræga við hvert verkefni er frábær árangur. Stofun Menningarráðs Vestfjarða er mikill fengur fyrir listalífið á Vestfjörðum og mun efla enn frekar það öfluga menningarstarf sem þegar er. Enn og aftur kærar þakkir til Menningarráðs Vestfjarða.
Hljóðbókin Þjóðsögur úr Vesturbyggð fékk styrk frá Menningarráði.
P.s. Hljóðbókin fæst á vef Kómedíu www.komedia.is ásamt hljóðbókinni Þjóðsögur úr Ísafjarðarbæ.
JÓLASVEINAR GRÝLUSYNIR ALLA HELGINA Á ÍSÓ
7.12.2007 | 12:55
Tvær sýningar eru á jólaleikritinu vinsæla Jólasveinar Grýlusynir í Tjöruhúsinu á Ísafirði um helgina. Sýnt verður bæði laugardag og sunnudag og hefjast sýningar klukkan 14.00. Miðasölusími er 8917025 einnig er hægt að panta á heimasíðu Kómedíu www.komedia.is undir liðnum Kaupa miða. Miðaverð er aðeins 1.900.- krónur og er heitt súkkulaði og smákökur innfalið í miðaverði. Jólasveinar Grýlusynir hefur nú þegar verið leikið fimm sinnum og hefur hlotið mikið lof. Enda er hér á ferðinni vönduð sýning um gömlu íslensku jólasveinana. Mikil tónlist er í leiknum en allir jólasveinarnir þrettán taka lagið. Það er Hrólfur Vagnsson sem á heiðurinn af tónlistinni en sveinavísurnar eru eftir Soffíu Vagnsdóttur. Jólasveinarnir eru líka kómískir og skemmtilegir í hönnum listakonunnar Marsibil G. Kristjánsdóttur. Það er Elfar Logi Hanneson sem leikur en hann er jafnframt höfundur ásamt Soffíu Vagnsdóttur. Það er svo Jóhann Daníel sem sér um að lýsa ævintýrið upp einsog honum einum er lagið. Allir í leikhús um helgina.
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson
GRÝLUKVÆÐI
7.12.2007 | 10:52
Vestfirska skáldið Eggert Ólafsson frá Svefneyjum samdi geggjað kvæði um Grýlu sem hann kallar einfaldlega Grýlukvæði og hér kemur tröllkonan umtalaða Grýla:
GRÝLUKVÆÐI
Hér er komin hún Grýla,
sem gull-leysin mól,
:,: hún er að urra' og ýla,
því af henni :,: kól.
Hún er að urra' og ýla,
því ein loppan fraus,
:,: þrjár hefur hún eftir,
en það ég ei :,: kaus.
Þrjár hefur hún heilar
og hlakkar sem örn;
:,: hún ætlar að hremma
þau íslensku :,: börn.
Það er hann Skúti Marðarsson,
hann svarði við það,
:,: að hennar skyldi' hann hyskið
höggva niður í :,: spað.
Að hann skyldi brytja það
og borða við saup;
:,: heyrði það hún Grýla
og hélt það væri :,: raup.
Heyrði það hún Grýla
og gretti sitt trýn:
:,: ekki munu þeir gráklæddu
leggja til :,: mín.
Settust að henni dísir
og sálguðu' henni þar;
:,: hróðugur var hann Skúti
og hálf-kenndur :,: var.
Þá mælti þá Tuga-sonur,
tyrrinn og blár;
:,: koma munu þau Grýlu-börn
til Íslands í :,: ár.
Koma munu þau Grýlu-börn
og kveða við dans:
:,: kyrjum við hann Skúta
og kumpána :,: hans!
Glöð urðu þau Grýlu-börn
og gengu af stað:
:,: aldrei skal þeim Íslendingum
eira við :,: það.
Ekki skal þeim Íslendingum
ævin verða löng:
:,: margan heyrða' eg óvætt,
sem undir það :,: söng.
Margan heyrða' eg annan,
sem undir tók þau hljóð:
:,: nú mun ei þeim íslensku
ævin verða :,: góð!
Afturgengin Grýla
gægist yfir mar;
:,: ekki verður hún börnunum
betri' en hún :,: var