X og Z eru hjón á Ísó
28.10.2011 | 17:41
Í morgun skellti ég mér á árshátíð Grunnskóla Ísafjarðar. Þetta er nýr tími á árshátíð skólans yfirleitt er hún haldin að vori. Ég er ekki frá því að þetta sé bara betri tími. Að vanda er ákveðið þema á árshátíð skólans að þessu sinni var það Gagn og gaman einsog lestrabókin munið þið, X og Z eru hjón. Krakkarnir fóru allir á kostum að vanda og gaman að sjá hvernig þau fléttuðu saman nýja og gamla tímanum. Það var t.d. verið að tala um súrmat til forna í upphafi leikþáttar en endað með útlenskum slagara þar sem sungið er um MacDonalds, Pizza Hut ofl. Það var líka gaman að sjá útfærslu þeirra á gömlu góðu sögunni um Bakkabræður og sýnir enn að þessir kostulegu bræður eiga vel við okkur nútímafólkið í dag. Heimskupör bræðranna á Bakka fengu okkur til að veltast um af hlátri. Það er frábært að sjá æskuna stíga á stokk og sannar fyrir okkur enn og aftur að framtíðin á Ísafirði er mjög björt. Einlægni allra leikara var einstök og allir voru mjög sannir í sínum leik. Krakkar í Grunnskóla Ísó þið eruð frábær takk fyrir mig.