137 ára skóli
29.5.2011 | 15:17
Á föstudag var Grunnskóla Ísafjarðar slitið í 137 sinn. Þetta var sérstaklega stórdagur hér hjá okkur í Túninu heima því miðburður okkar hjóna var að útskrifast úr grunnskólanum, já hvað tíminn líður. Stoltur er ég af dömunni minni og veit að hún mun plumma sig vel í framtíðinni. Sannarlega spennandi tímar framundan hjá henni. Skólaslitin voru að vanda hátíðleg og fóru fram í kirkjunni. Ræða skólastýru var mjög góð og einlæg en eitt stakk mig mikið og hefur fengið kollinn til að hugsa. Það er hve það hefur fækkað mikið í skólanum á allra síðustu árum og enn mun víst fækka á komandi skólaári en þá verða nemendur væntanlega 400 sem er fækkun um 16 nemendur ef ég man rétt. Þetta er rosalegt. Við sem hér búum verðum að taka höndum saman og gera eitthvað í þessari þróun. Það er nebblega þannig að við erum með úrvals góðan grunnskóla hér með góðum kennurum og flottu félagslífi. Við erum með góðan Menntaskóla, tipptopp Tónlistarskóla og meira að segja Háskóla. Einsog löngu frægt er orðið þá er afþreying hér mjög mikil og fjölbreytt, eitthvað fyrir alla aldurshópa og já alla fjölskylduna. Við erum með atvinnuleikhús, áhugaleikhús, gallerý, kvikmyndahús ofl ofl. Hér eru haldnar hvorki fleiri né færri en þrjár listahátíðir árlega, hver hefur sitt sérsvið. Einleikjahátíðin Act alone er haldin um miðjan ágúst, í júní er klassíska músíkhátíðin Við Djúpið og um páska tekur rokkhátíðin Aldrei fór ég suður öll völd. En afhverju er okkur að fækka? Hvað vantar? Það þurfum við að finna sem hér búum og það mikilvægasta að öllu við verðum að hefjast handa við að bæta úr þessu og fylla í eyðurnar. Því sjálfum finnst mér gott að búa hér og skil ekkert í þessari stöðu sem við stöndum í. Þegar ég er spurður hvar ég eigi heima segi ég stoltur frá því að ég eigi heima á Ísafirði og svo koma jafnan smá upplýsingar um hið öfluga lista- og menningarlíf hér, svona í kaupæti. Nú hefst leitin að bættum stað og vona ég að við öll sem hér eigum heima hjálpumst að við að bæta okkur og kannski það mikilvægasta líka að segja frá okkkur sjálfum og vera soldið stolt að því - enda megum við það alveg.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)