Act alone 2011

Það styttist í hátíðina einleiknu í einleikjabænum Ísafirði. Act alone verður haldin dagana 12. - 14. ágúst og verður boðið uppá úrval innlendra leikja og erlendan gestaleik. Þetta er áttunda árið í röð sem Act alone er haldin en hátíðin er án efa ein flottasta listahátíð landsbyggðarinnar auk þess að vera eina einleikjahátíð landsins. Lengi vel var Act alone eina árlega leiklistarhátíðin á Íslandi en fyrir skömmu varð til önnur hátíð sem haldin er í borginni og nefnist Lókal. Að vanda verður aðgangur að öllum sýningum á Act alone ókeypis enda er þetta hátíð og mikilvægt að sem flestir geti tekið þátt í ævintýrinu. Fjölmörg fyrirtæki haft styrkt hátíðina nú sem endranær auk þess sem Menningarráð Vestfjarða setur slatta af monnípeningum til handa hátíðinni og við eigum einnig von á aurum frá Ísafjarðarbæ. Dagskrá Act alone 2011 verður birt allra næstu daga á heimasíðunni www.actalone.net En til að kitla smá má nefna að meðal sýninga á Act alone í ár er Mamma ég!, Jón Sigurðsson strákur að vestan, Bjarni á Fönix, Skjalbakan og síðast en ekki síst mun Prinsessan á Bessastöðum koma í opinbera heimsókn á Ísafjörð sem verður á sjálfu Silfurtorginu. Sýningar verða annars í Edinborgarhúsinu en á lokadegi hátíðarinnar verða sýningar á höfuðbóli Vestfjarða á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Eitt er víst Act alone verður alveg einleikin og nú er bara að taka dagana frá (12. - 14. ágúst) og taka þátt í ævintýrinu.

Bloggfærslur 16. júlí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband