Leikhúsveisla framundan á Vestfjörðum
7.2.2012 | 13:07
Það er mikil gróska í vestfirska leikhúsinu ekki færri en fimm leiksýningar eru væntanlegar á hið vestfirska leiksvið á næstunni. Áhorfendur vestra sem og um land allt ætti því ekki að leiðast bara vissara að fara að taka tímann frá og hlakka til því framundan er sannkölluð leikhúsveisla á Vestfjörðum. Hið nýstofnaða leikhús Vestfirska skemmtifélagið er með tvö verkefni í vinnslu. Fyrra verkið er rokksöngleikurinn Andaglasið eftir Elfar Loga Hannesson og Guðmund Hjaltason. Hér er á ferðinni rokkað stykki fyrir alla fjölskylduna þar sem tröll, álfar, galdramenn og aðrar verur vestfirska þjóðsagnaheimsins koma við sögu. Andaglasið verður frumsýnt á Öskudag, miðvikudaginn 22. febrúar í Félagsheimilinu í Bolungarvík. Mánuði síðar eða helgina 30. - 31. mars frumsýnir Vestfirska skemmtifélagið geggjað leik- og söngvasjóv sem ber yfirskriftina Vestfirsku dægurlögin. Áður nefndir, Elfar Logi og Guðmundur, hafa síðustu ár sett upp vinsæl leik- og söngvasjóv sem hafa notið gífurlegra vinsælda og því er rétt að hafa djammfötin tilbúin fyrir Vestfirsku dægurlögin. Sýnt verður í Félagsheimili Bolungarvíkur og rétt að taka fram að sjóvið verður einnig sýnt á Skíðavikunni - Aldrei fór ég suður. Talandi um Bolungarvík þar hefur Leikfélagið vaknað aftur til lífsins og standa nú yfir æfingar á leiknum Að eilífu eftir Árna Íbsen. Leikstjóri er Lilja Nótt Þórarinsdóttir og er stefnt á frumsýningu í mars í Félagsheimilinu í Víkinni. Atvinnuleikhús Vestfjarða, Kómedíuleikhúsið, vinnur að leikverki um Skáldið á Þröm sem verður frumsýnt á söguslóðum skáldsins á Suðureyri um miðjan mars. Leikurinn nefndist Náströnd - Skáldið á Þröm. Höfundar eru Elfar Logi Hannesson og Ársæll Níelsson, Efar leikstýrir en Ársæll leikur. Gaman er að geta þess að Kómedíuleikhúsið fangar 15 ára afmæli sínu í ár og gerir það með tveimur afmælissýningum. Nástönd - Skáldið á Þröm er fyrri afmæliskómedían en í sumar verður annar í afmæli og þá verður frumsýnt verk um Listamanninn með barnshjartað, Samúel í Selárdal. Loks má geta þess að Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði æfir nú af kappi söngleikinn Koppafeiti (Grease) sem verður sýnt í Félagsheimilinu í Hnífsdal á árlegri Sólrisu.
Einsog sjá má er gífurlegur kraftur í vestfirska leikhúsinu og fjölbreytileiki sýninganna mikill og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Vestfirðingar verið duglegir að mæta í leikhúsin ykkar og kæru landsmenn verið velkomin í vestfirska leikhúsið.
Góða skemmtun.
Einsog sjá má er gífurlegur kraftur í vestfirska leikhúsinu og fjölbreytileiki sýninganna mikill og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Vestfirðingar verið duglegir að mæta í leikhúsin ykkar og kæru landsmenn verið velkomin í vestfirska leikhúsið.
Góða skemmtun.