Stækkum vestfirska listheiminn

Oft finnst manni upphafið vera það besta í raun á öllum sviðum tilverunnar. Enda upphöfin mörg og víða. Nú er t.d. nýhafið ár. Fátt er betra en hefja lestur á nýrri bók er leyndist jafnvel í einum jólapakkanna. Að horfa á fyrsta þáttinn í einhvurri sjónvarpsseríu hvar maður fær að kynnast persónum og leikendum. Að horfa á nýja íslenska bíómynd. Að sjá nýtt leikrit. Að byrja á nýjum vinnustað. Upphafið er víða og tilhlökkunin eftir því og þá ekki síst því sem koma skal. Allt svo spennandi allt svo ferskt.
Það var einmitt á fyrstu dögum hins ný byrjaða árs sem ég fór að huxa, kemur stundum fyrir, hvernig getum við eflt listheiminn á Vestfjörðum? Afhverju nefni ég bara Vestfirði jú það er nú bara vegna þess að ég bý þar og starfa. Já, pæliði hve ég er lánsamur að geta starfað að list minni í heimahéraði, það er lúxus en þó eigi sjálfgefið. Gengið er vissulega einsog í hvurju öðru apparati stundum gengur og stundum gengur aðeins hægar. Stundum fær maður útborgað stundum minna og stundum eru bara fiskibollur um mánaðarmótinn. En það er allt í lagi því mér finnst þær svo góðar, sérlega með bláberjasultu.
Þar sem ég er ekkert mjög skarpur í kollinum kannski frekar soldið einfaldur, enda finnst mér best að leika einn. Þar með er komin skýringin á því að ég hef helgað mitt leiklíf einleiknum. Bæði með því að setja upp einleiki í Kómedíuleikhúsinu og standa fyrir einleikjahátíðinni Act alone. Því tel ég það vera eitt besta og einfaldasta ráðið við að efla listheiminn á Vestfjörðum að við einfaldlega mætum á sem allra flesta listviðburði vestfirska á þessu nýja frábæra ári. Tökum ónefndan Skagstrending til fyrirmyndar er mætti eitt sinn á barnaleiksýningu hjá Kómedíuleikhúsinu á Skagaströnd, kom bara einn ekki með neitt barn með sér og var sjálfur kominn á eftirlaun. Kom svo að lokinni sýningu og þakkaði okkur fyrir og sagði svo: Ég mæti á alla listviðburði hér á Skagastönd? Og svaraði meira segja líka með því að segja: Nú ef ég mæti ekki þá hættið þið listafólkið að koma til okkar.
Ég get bara ekki orðað þetta betur en bæti við og fæ enn aðstoð annarra, enda er ég ekki klár í kolli einsog áður gat. Myndlistarkonan Helena Margrét Jónsdóttir mælti nefnilega svo réttilega í blaðaviðtali um daginn um það hvað listin gjörir: Listin á að stækka heiminn svo skilningur fólks á hlutunum færist í nýjar víddir.

Bloggfærslur 13. janúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband