Hætt'essu væli
22.1.2025 | 18:02
Oft þarf maður að minna sjálfan sig á að anda, telja uppá 5, smæla og hætta'essu væli. Eða einsog ég haldi áfram að vitna í söngvaskáldið góða KK; Hafðu engar áhyggjur, lífið það er sem það er, fer sem það fer.
Enda höfum við líklega ekkert val um hvernig fer því það fer allt einhvern veginn einsog Laxaskáldið sagði. Víst kroppar lífið ávallt í manns sálartetur og nær maður er lítil sál eða bara einfaldalega mömmudrengur einsog ég þá vill maður stundum fara í þann gír sem ég vil alls ekkert vera í. Að fara að tuða og hvað þá að vera bitur, enn verra að vera bitur listamaður. Þar vill maður nú alls ekki vera né lenda, frekar betra bara að vera í aftursætinu á rauðum bíl einsog sungið var á eitístímanum.
Í kveld er leikur í handboltanum og því er við hæfi að maður kannski komi sér upp leikkerfi og hætt'essu væli. Fyrst er að anda, svo er að huxa, næst að smæla og svo halda áfram sinn veg. Við þetta má svo bæta að sleppa stundum að horfa eða hlusta á fréttir, skrolla minna á samfélagsmiðlum og hlusta frekar á þögnina. Fá sér bara göngutúr. Fátt betra en rölta niðrí fjöru eða eitthvurt út í náttúruna og hlusta á óma náttúrunnar og fuglanna. Segja svo bara við sjálfan sig.
Hafðu engar áhyggjur.