Tilvera trúðsins

Ég hef ávallt haft mikið dálæti af trúðum og þá ekki síst trúðum sem bera ekki rautt nef. Því þannig trúðar eru sannlega til. Þeirra þekktastur er án efa Charlie Chaplin en einnig má nefna kollega hans úr þöglumyndadeildinni Buster Keaton sem var nefndur Maðurinn með steinandlitið því hann brosti aldrei í sínum myndum og svo var það Harold Lloyd stundum nefndur leikarinn sem hékk í klukkunni sem hann og gjörði með eftirminnilegum hætti í sinni allra bestu mynd Safty Last frá árinu 1923. Enn fremur má nefna frægasta tvíeiki kvikmyndasögunnar þá Steina og Olla auk frægustu bræður filmusögunnar hina einu sönnu Marxbræðrum sem voru einsog Chaplin og Steini (Stan Laurel og báðir voru þeir breskir) einnig í leikhúsinu og settu upp gamanleiksýningar sem gjörðu stórkostlegar gamanmyndir. Verk allra þessara trúða filmunnar voru í miklu uppáhaldi hjá mér strax í æsku og eru reyndar enn. Nær ég var púki á Bíldudal þá voru engin myndbandstæki kominn til sögunnar (sumir spyrja kannski í dag myndbandstæki hvað er nú það) en hinsvegar voru til á sumum heimilum litlar sýningarvélar sem tóku sérstakar spólur enda var oft ekki síður skemmtilegt að horfa á þær snúast en að horfa á myndina sem birtist á tjaldinu, það var ekki óalgengt að tjaldið væri hvítt lak sem hafði rétt fyrir sýningu verið svipt af hjónarúmi sýningarstjórans. Mínir kæru frændur og tvíburar Óli og Nonni buðu ávallt uppá kvikmyndasýningu í sínum afmælum og þá var það yfirleitt mynd með Steina og Olla. Það var svo gaman að við þurftum ekki einu sinni popp og hvað þá kók enda vorum við miklu hrifnari af Spur. 

Það þarf því kannski ekki að koma á óvar að nær ég hélt loks í leiklistarskóla þá valdi ég skóla sem bauð m.a. uppá kennslu í trúðaleik. Ásamt reyndar mörgum öðrum listgreinum einsog grímuforminu Commedia'dellArte og Mellodrama. Ég hélt nefnilega alltaf að ég væri trúður og ætlaði mér að verða gamanleikari. Hinsvegar hefur það ekki alveg gengið eftir þó af og til bregði maður fyrir sig gríni á leiksviðinu en ætli megi ekki samt segja að ég hafi farið hálfa leið í grínið með tragíkómískum leikstíl. 

Afhverju er maður nú að huxa um þetta jú það er vegna þess að ég hef dulítið verið að kynna mér merkan listamann sem allt of lítið hefur verið talað um. Hann hét Ingimundur og var auknefndur fiðla en er kannski þekktastur fyrir að vera bróðir nestors íslenskra lista sjálfs Jóhannesar Kjarvals. Ingimundur lenti í því að þurfa að fara leið trúðsins og trúði herbergisfélaga sínum Jóhanni J. E. Kúld fyrir þessu trúðamáli. Saman voru þeir á síldarvertíð á Siglufirði. Jóhann eltist við silfrið meðan Ingimundur taldi silfrið því hann var þarna aðeins til að skemmta blessuðu fólkinu. Á kveldin spilaði hann listilega á fiðlu sína angurvær lög í herbergi þeirra félaga. Svo fögur að hinn ungi Jóhann skildi ekkert í að hann væri ekki að spila þessi lög frekar en hafi uppi þessi  eilífu trúðslæti á skemmtunum sínum á Sigló. Þá svaraði fiðlungur dapur í bragði: Það er ekki hægt. Ég hef reynt það, en fólk vill þá ekki hlusta á mig. Það skilur aðeins tilburði trúðsins, en ekki þegar ég spila einsog mig langar mest til. Hinsvegar get ég látið fiðluna túlka ýmis hljóð úr ríki náttúrunnar á þessum skemmtunum, fólkið hlustar á það.

Og það voru sannlega engar ýkjur því lesið hef ég af einni skemmtun hans á Suðureyri löngu seinna hvar nýkomin var ekki bara þessi listamaður í þorpið heldur og merk skilvinda. Á skemmtuninni um kveldið lék svo listamaðurinn á fiðlu sína hin merku hljóð skilvindunnar ásamt svo sínum kunnu náttúruhljóð.

Til svo að loka þessari pælingu og finnna kannski eitthvurt svar þá má segja að lífið sé svo stórkostlegt og óvænt að maður fær víst ekki allt sem maður vill eða langar í. En í hjartanu verð ég þó ávallt trúður þó dramastrengir slái þar oftar. 


Bloggfærslur 10. mars 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband