Harpa Vestfjarða
5.5.2011 | 10:14
Það var stór dagur í menningar- og listalífi þjóðarinnar í gær þegar músíkhúsið Harpa var formlega opnað. Því miður var maður ekki á staðnum upptekinn við listsköpun fyrir vestan. Hef því ekki séð höllina nema af myndum í sjónvarpi og já talandi um Sjónvarpið það hefði nú verið allt í lagi ef þeir hefðu sýnt frá opnuninni í Sjónvarpi (allra landsmanna) fyrir alla þá sem komust ekki en hefðu svo gjarnan viljað vera á pleisinu. Svona stórir dagar í listlífinu og lífinu almennt eru mikilvægir eftir nokkur ár spyr maður sig ,,Hvar varst þú þegar Harpa opnaði?". Þegar ég fer næst suður mun ég pottþétt kíkja í Hörpu og hlakka mikið til að sjá. Reyndar má segja að maður hafi fengið smá forsmekk af dæminu sem sýnir hve mikilvægt er að eiga vönduð og vegleg menningarhús hvar sem er á landinu. Fyrir skömmu var nefnilega Félagsheimilið í Bolungarvík opnað að nýju eftir miklar endurbætur sem hafa staðið í nokkur ár. Vissulega voru miklar umræður um framkvæmdina líkt einsog með Hörpu. En núna þegar húsið er tilbúið þá eru allir sáttir að ég tel líka þeir sem voru á móti tiltektinni á húsinu. Þannig er þetta nú bara sama verður ábyggilega með Hörpuna. Endurbyggingin á Félagsheimili Bolungarvíkur er líka mjög vel heppnuð og voru gárungarnir fljótir að nefna höllina Hörpu Vestfjarða. Mikið líf hefur verið í húsinu allt frá því það var opnað á nýjan leik og ég tel að það eigi bara eftir að aukast. Þarna er allt til alls, bæði hljóðgræjur og ljós og húsið almennt mjög snyrtilegt og með flottan karakter. Manni líður vel um leið og maður kemur inní húsið. Bolvíkingar, Vestfirðingar og landsmenn allir til hamingju með Hörpurnar fyrir sunnan og vestan. Framundan eru spennandi tímar í listalífi þjóðarinnar.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.