Hafliði Magnússon - Minning
4.7.2011 | 10:34
Vinur og kollega Hafliði Magnússon listamaður frá Bíldudal hefur yfirgefið sviðið. Hafliði var merkur listamaður sem hefur heldur betur puntaði uppá menningarlífið á Bíldudal í áratugi. Fjölhæfur með afbrigðum úrvals rithöfundur samdi leikrit, smásögur og skáldsögur. Hann gerði leikmyndir fyrir Leikfélagið Baldur á Bíldudal, leikstýrði og var hirðskáld leikfélagsins. Ég var svo heppinn að fá að kynnast honum og starfa með honum. Mín fyrsta minning af Hafliða er þegar ég og æskufélagi minn, Jón Sigurður, bönkuðum uppá hjá ,,Skáldinu" einsog hann er jafnan nefndur á Bíldudal. Listamaðurinn opnaði dyrina og við spurðum einfaldlega ,,megum við koma í heimsókn?". Skáldið bauð okkur inn með það sama. Bauð okkur til stofu tók fram djús og mjólkurkex. Svo hófst sögustundinn hjá skáldinu. Þvílíkur sögumaður og fróðleiksnáma sem hann var. Hann sagði okkur sögur sem flestar tengdust menningu og listum, ræddi við okkur einsog jafnoka sína - heiðarlegur og sannur maður. Loks stóð hann upp, settist við rafmagnspíanóið sitt og byrjaði að spila nokkra slagara fyrir okkur. Minnisstæðast er þegar hann lék fyrir okkur músík úr Tomma og Jenna teiknimyndunum sem voru aðalsjónvarpsefni unga fólksins í þá daga og er kannski enn. Eftir þetta átti ég oft eftir að heimsækja Skáldið og eftir því sem tíminn leið voru veitingarnar aðrar en djús. Leikfélagið Baldur á Bíldudal stóð í blóma á mínum æskuárum og þar sem faðir minn var í leikfélaginu að leika og mamma að sauma búninga fékk maður að fara með á æfingar. Þar ríkti ávallt mikil gleði og kátína og þetta skemmtilega sem fylgir leikhúsinu þar voru allir jafnir. Við púkar leikaranna vorum á öllum æfingum í þær sex vikur sem tók að undirbúa ævintýri. Og ávallt var Hafliði á æfingum að mála og smíða leikmyndir eða að leikstýra og stundum var hann höfundur leiksins líka. Þegar hlé var gert á æfingum var Hafliði jafnan hrókur alls fagnaðar enda mikill húmoristi og gleðigjafi. Seinna fékk ég að stíga á stokk með leikfélaginu og þá náttúrulega í verki eftir Hafliða. Það eru bara forréttindi að fá svona leiklistar- og menningareldskírn sem maður fékk með samstarfi við Hafliða og félaga í Leikfélaginu Baldri á Bíldudal. Svo áhrifaríkt að allar götur síðan hef ég unnið við leikhúsið og listina. Hafliða verður sárt saknað en verk hans munu lifa og minning um góðan mann. Ég sendi aðstandendum Skáldsins mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
BLessuð sé minning hans.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.7.2011 kl. 10:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.