Act alone 12. - 14. ágúst Ísafirði og Arnarfirði

Leiklistarhátíðin Act alone verður haldin áttunda árið í röð dagana 12. – 14. ágúst. Hátíðin fer að vanda fram á Ísafirði sem gárungarnir nefna Einleikjabæinn þegar hátíðin fer fram ár hvert. Eru það orð að sönnu því mikið fjör er í bænum Act alone helgina en auk þess hefur Kómedíuleikhúsið sem einmitt er staðsett í bænum verið duglegt við að setja upp einleiki síðasta áratug. En í ár verður Act alone ekki bara á Ísafirði heldur einnig í Arnarfirði, nánar tiltekið á höfuðbóli Vestfjarða, Hrafnseyri. Rétt er að geta þess að aðgangur að öllum sýningum á Act alone er ókeypis einsog verið hefur frá upphafi. Dagskrá Act alone 2011 er sérlega vönduð og fjölbreytt og náttúrulega einleikin. Boðið verður uppá fjölmarga innlenda leiki og einn erlendan gestaleik. Í gegnum árin hafa margir erlendir einleikarar komið fram á Act alone og að þessu sinni mun sýning frá Noregi verða í aðalhlutverki. Leikurinn nefnist The Whole Caboodle með leikkonunni Sara Margrethe Oskal og er opnunarsýning Act alone í ár. Listakonan er Sami og hefur verið að vinna með eigin sagnarf í sinni list með því að segja frá sögu, hjátrú og fjölbreyttan sagnaarf Sama. Sýningin er á ensku og hefur verið sýnd víða um heim. Átta innlendir einleikir verða á dagskrá Act alone í ár sem sýnir um leið hve öflugt einleikjaformið er á Íslandi í dag. Nýjasti einleikur þjóðarinnar Skjaldbakan með Smára Gunnarssyni verður sýndur á fyrsta degi Act alone og einnig mun prinsessan á Bessastöðum koma í opinbera heimsókn á Ísafjörð. Nemendur í Leikfélagi Flensborgarskóla hafa verið að vinna með einleikjaformið síðustu misseri og munu sýna úrval stuttra einleikja. Á öðrum degi Act alone verða þrír einleikir sýndir og hefst dagurinn með leiknum Beðið eftir gæsinni eftir Ásgeir Hvítaskáld. Ragnheiður Bjarnason sýnir dansverkið Kyrrja og Lilja Katrín Gunnarsdóttir flytur leik sinn Mamma ég!. Einnig verður opin æfing á einleiknum Hvílíkt snildarverk er maðurinn! sem verður frumsýndur í haust með leikaranum Sigurði Skúlasyni. Á lokadegi hátíðarinnar flyst dagskráin yfir á Hrafnseyri í Arnarfirði. Þar verður sýndur sögulegi einleikurinn Bjarni á Fönix og hátíðinni lýkur síðan með einleiknum Jón Sigurðsson strákur að vestan sem var sérstaklega samin í tilefni af 200 ára afmæli þjóðhetjunnar. Dagskrá Act alone 2011 og allar upplýsingar um hátíðina má finna á heimasíðunni www.actalone.net

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband