,,Ekta vestfirsk leiksýning"

Kómedíuleikhúsið sýndi nýtt íslenskt leikverk Náströnd - Skáldið á Þröm fyrir skömmu. Leikurinn fjallar um ævi og örlög alþýðuskáldsins Magnús Hj. Magnússonar betur þekktur sem Skáldið á Þröm og enn aðrir þekkja hann sem Ólaf Kárason í Heimsljósi Laxness. Náströnd - Skáldið á Þröm var sýnt á slóðum skáldsins á Suðureyri við Súgandafjörð en þar bjó hann síðustu árin í kofanum Þröm. Sýningin fékk mjög góðar viðtökur og var uppselt á allar sýningar leiksins. Sigurður Pétursson, sagnfræðingur, er einn þeirra fjölmargra sem sáu sýninguna og segir hér að neðan frá þeirri upplifun:

Heimsókn til Skáldsins á Þröm. Hugleiðing eftir leiksýningu Kómedíuleikhússins

Ársæll Níelsson sem Magnús Hj. Magnússon
Magnús Hj. Magnússon var fæddur í Álftafirði, alinn upp á sveit í Önundarfirði, heilsuveill á yngri árum og vart fyrirvinna á fullorðinsárum. Fátæklingurinn átti lítið val í fastskorðuðu bændasamfélagi fyrri alda. Að þiggja sveitarstyrk frá fæðingahreppnum vegna veikinda ungur að árum, varð honum fótakefli það sem eftir var ævinnar. Sá sem ekki gat borgað til baka skuld sína, var upp á náð og miskunn hreppsnefndarinnar. Og hjá henni var slíkur munaður af skornum skammti. Þurfamaður átti engan rétt til að ráða sínu lífi, hvar hann settist að, hvort hann gifti sig og því síður að hann fengi lýðréttindi svo sem kosningarétt. Hann skyldi þjóna bændum með vinnu sinni og lífi. Allt sitt líf reyndi Magnús Hj. Magnússon, skáldið á Þröm, að brjótast undan þessu hlutskipti. Hann flutti stað úr stað, stundaði kennslu og skriftir, samdi erfiljóð og afmælisvísur og skrifaði upp handrit fyrir fólk. Og skrifaði dagbækur. En miskunn hreppsnefndarinnar kom aldrei.

Alþýðuskáldið Magnús hefur orðið þjóðinni hugleikinn allt frá því að nóbelskáldið Halldór hnaut um dagbækur hans á Landsbókasafninu og notaði til að draga upp skáldmæringinn og auðnuleysingjann í Heimsljósi. Síðar gaf Gunnar M. Magnúss út útdrætti úr dagbókum Magnúsar undir nafninu Skáldið á Þröm. Enn síðar komu ungir fræðimenn og gáfu út sýnisbók úr handritum Ljósvíkingsins til að sýna okkur inn í hugarheim alþýðumannsins. Og nú hefur Kómedíuleikhúsið á Vestfjörðum samið og sett upp einþáttung um líf skáldyrðingsins, sem reyndi að brjóta af sér hlekki fátæktar og fordóma með skrifum og skáldskap. Það var einkar vel til fundið að sýna verkið í Félagsheimilinu á Suðureyri, í þorpinu þar sem skáldið og fylgikona hans fengu að búa óáreitt síðustu æviár Magnúsar í þurrabúðinni Þröm. Víðsýni útvegsbænda í Súgandafirði fyrr á tíð skal höfð í minnum.

Leikstjórinn og leikhússtjórinn Elfar Logi Hannesson og leikarinn Ársæll Níelsson hafa skrifað og sett upp einleikinn Náströnd - Skáldið á Þröm. Leikurinn fór ekki fram í sal félagsheimilisins, heldur á sviðinu. Í þröngu rými, fangaklefa Magnúsar, skapaðist nálægð milli áhorfenda og leikarans, sem virkaði sterkt. Einföld sviðsmynd með bókum og blýantsstubbum skapaði rétt andrúmsloft. Texti verksins er allur fenginn úr dagbókum og skrifum skáldsins. Við fylgjum lífhlaupi hans í svipmyndum, þar sem hann afplánar dóm fyrir brot sem hann framdi. Við fáum að kynnast vonum hans og þrám, vonbrigðum og vesæld, en líka háum og stundum hjákátlegum hugmyndum hans um sjálfan sig. Hann sýnir okkur öfgarnar sem togast á í honum, frá sjálfsvorkunn til upphafningar, sem berast helst í afstöðu hans til kvenna og í veikburða skáldatilraunum. En sterkast verkar samt kaldur raunveruleikinn, fátæktarbaslið, hlutskipti öreigans. Ársæll túlkar skáldið auðnulausa á hóflegan hátt, en með þeirri glóð sem býr undir yfirborðinu; þránni eftir hinu æðra. Sterk nærvera hans og framvinda verksins gerði það að verkum að þær 55 mínútur sem sýningin tekur, leið sem örstutt stund. Frumsamin tónlist Jóhanns Friðgeirs Jóhannssonar virkaði fullkomlega með verkinu og ekki spillti Mugison í lokin.

Það var því skemmtileg leikhúsupplifun í Félagheimili Súgfirðinga, sem áhorfendur fengu að reyna, fyrir og um páskana hér fyrir vestan. Enda var fullt hús á öllum sýningum. Vonandi fær Kómedíuleikhúsið tækifæri til að flytja verkið oftar og víðar, svo fleiri fái tækifæri til að upplifa alþýðuskáldið á Þröm og ,,skáldyrðinginn" sem hugsaði hátt, en laut að lágu. Til hamingju með ekta vestfirska leiksýningu, Elfar Logi og Ársæll.

Sigurður Pétursson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband