Síðbúnar þakkir til Lions

Betra er seint en ekki sagði einhver merkur maður. Það er mikilvægt að þakka þegar vel er gert og vissulega vill það oft gleymast að þakka fyrir sig. En nú skal bætt úr því frá mínum garði.

Síðasta laugardag var mér boðið að flytja erindi hjá Lionsklúbbi Bolungarvíkur. Að sjálfsögðu þáði ég það með þökkum og sagði já jafnvel áður en ég fór að hugsa um hvað ég ætlaði að tala um. Eftir hið algenga ,,já" svar mitt settist ég niður í túni mínu heima og byrjaði að hugsa hvað ég ætti nú að tala um. Datt strax í hug að lesa uppúr nýjum bókum enda yfirstandandi hið árlega jólabókaflóð. Ákvað að lesa uppúr nýju jólaljóðakveri eftir bróður minn Þórarinn Hannesson sem nefndist Um jólin. Ritið er glæsilega myndskreytt af mínum betri helmingi Marsibil G. Kristjánsdóttur. Einnig ákvað ég að lesa uppúr hinni frábæru bók Frá Bjargtöngum að Djúpi sem Vestfirska forlagið gefur út. Meðan ég var að undirbúa lesturinn þá hvarflaði hugurinn allt í einu til æskuáranna og þá sérstaklega minningar tengdar Lionsklúbbnum í mínum heimbabæ Bíldudal. Nú veit ég ekki hvort lesendur viti hvað þetta Lions er eiginlega? Fyrir mörgum árum voru þessi félög mjög áberandi og voru nánast í hverjum bæ og þorpi. En síðan er liðin mörg ár og þessum félögum hefur fækkað allverulega á síðustu árum. Lions er félagsskapur sem lætur gott að sér leiða á öllum sviðum samfélagins. Þetta er karlaklúbbur þó sumsstaðar sé  líka til Lionessur. Of langt mál væri að nefna allt það góða og mikla starf sem Lions hefur gert hér á landi. Ég vil þó nefna þrjár minningar sem ég á um Lions í mínum heimabæ, Bíldudal.

Lionsfélagið á Bíldudal var mjög duglegt á mínum æskuárum. Faðir minn, Hannes Friðriksson, var þar félagi ásamt að ég held öllum fullorðnum karlmönnum í þorpinu. Alltaf þegar pabbi var kominn í jakkafötin þá vissi ég hvað stóð til. Hann var að fara á Lionsfund og ég fékk ekki að koma með og var nú ekkert alltof sáttur við það. En í dag skil ég það alveg. Hinsvegar fékk ég alltaf að fara með pabba á leikæfingar en það er önnur saga. Lions á Bíldudal átti stóran þátt í jólahaldinu í þorpinu. Fyrir það fyrsta hófu þeir jafnan jólabiðina mína. Því í lok nóvember gengu þeir á milli húsa í þorpinu, knúðu dyra. Buðu góðan dag, voru ávallt mjög kurteisir og í jakkafötum, og spurðu svo: Má ekki bjóða þér að kaupa súkkulaðijóladagatal?

Sama dag fékk ég leyfi hjá mömmu, Þórunni Helgu, til að taka upp jólahljómplöturnar og fyrst á fóninn var ávallt Verkstæði jólasveinanna. Leikrit eftir meistara barnaleikritanna Thorbjörn Egner túlkað af frábærum leikurum m.a. Helga Skúla og míns uppáhalds í æsku Bessa Bjarna. 

Tveimur vikum síðar var síðan haldið jólaball Lions. Það var haldið í grunnskólanum og þar mættu sko alvöru jólasveinar. Þeir voru svo raunverulegir að mitt barnshjarta brast í öll skiptin en þárin voru terruð þegar sveinarnir gaukuðu að manni jólaeplinu. Auðvitað var líka boðið uppá smákökur og heitt súkkulaði.

Þriðja Lions minning mín úr æsku er útilega á Dynjanda. Man reyndar ekki hvaða ár þetta var líklega 1977 eða 1978. Þetta var sko alvöru útilegupartý. Það var boðið uppá geggjaða matarveislu þar sem voru heilsteikt lömb á teini. Fór þetta fram í gömlu réttinni sem lengi stóð við paradísina á Dynjanda. Einn daginn voru við krakkarnir svo settir í það að safna flötum steinvölum sem mikið er af þarna á svæðinu. Við steinunum sléttu tóku nokkrir hleðslumenn sem pússluðu þessu svo vel saman að úr varð stór varða sem var ekki bara hefðbundinn varða. Heldur bókstafurinn L sem stendur auðvitað fyrir Lions. Margt fleira var gert þessa helgi sem stendur svo vel í minningunni ásamt mörgum öðrum Lionsminningum æskunnar.

Þakkir til Lionsklúbbs Bíldudals fyrir ómetanlegar stundir.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband