Kemur sirkusinn ekki í bæinn í ár?

Þó ég hafi aldrei migið í saltann sjó enda kominn af kaupmönnum og klerkum langt, langt aftur í ættir. Þá má samt segja að ég sé einskonar sjómaður. Ég verð í minni vinnu að róa til að fiska. Segir sig sjálft ef þú gerir ekkert nú þá gerist ekkert og þar með kemur ekkert í sjóðinn. Ég er semsé ekki eignilegur sjómaður heldur kannski frekar ,,sjóvmaður". Já ég er nefnilega leikari einn af þeim sem ætti nú bara að fá sér vinnu. Er meira að segja með eigið leikhús sem heitir Kómedíuleikhúsið. Þetta er leikhús er staðsett á Ísafirði og er fyrsta og eina atvinnuleikhús Vestfjarða. Þrátt fyrir það þá er markaður okkar landið allt. Við ferðumst mikið um landið með sýningar okkar. Oftast sýnum við fyrir hópa og kemur það ávallt best út fyrir hið kómíska bókhald því þá er sýningin seld á ákveðnu verði. En við erum líka oft með svokallaðar opnar sýningar þ.e. þegar áhorfendur borga sig inn. Þá vill nú oft hið kómíska bókhald verða sérlega kómískt. Maður veit aldrei hve margir mæta í leikhúsið. En alltaf kemur nú einhver og stundum koma margir. Fyrir leikarann þá skiptir engu hve margir koma því hann þarf alltaf að gera sitt besta og sýna sýningu. Enda ekki annað sanngjarnt þegar fólk hefur keypt sig inn þá á það fullan rétt á því að fá sína leiksýningu burt séð frá því hvort 4 eða 104 eru í salnum. Oft hef ég sýnt fyrir innan við tíu áhorfendur og vissulega tekur það á, líklega meira fyrir áhorfendur. En ávallt næst gott samband og ávallt gerir maður sitt besta. Einsog vinur minn Hemmi Gunn sagði ávallt: Þetta er bara svona. 

Í minni æsku var vissulega mun færra í boði í afþreyingu en í dag. Ég meina ég var orðinn 10 ára þegar myndbandstæki kom fyrst inná mitt heimili. Það var meira að segja Beta tæki. Það var bara Ríkissjónvarpsstöðin með sjónvarpslausum fimmtudögum og sumarfrí stöðvarðinnar. Rás tvö kom svo á mínum táningsárum. Það var því ávallt mikið fjör í bænum þegar eitthvað var í boði í þorpinu leiksýning, tónleikar eða bíósýningar. Ég var svo heppinn að ég fékk að fara á alla þessa menningarviðburði sem ég vildi fara á. Samt vorum við ekkert rík en ríkidæmið voru þessar stundir sem fóru ávallt fram í samkomuhúsi þorpsins Baldurshaga. Ég gleymdi því aldrei þegar Sumargleðin kom. Þar var mitt uppáhald æskunnar Bessi Bjarnason. Og þarna fékk maður að sjá hann í alvörunni sko. Hann hóf sýninguna með því að sópa salinn og aldrei hef ég séð  nokkurn mann sópa jafn skemmtilega. Þjóðleikhúsið kom líka reglulega og ég fór alltaf þegar það kom. Reyndar hefur það nú ekki mikið farið útá land síðasta áratug eða svo. Það finnst mér nú nokk skrítið þar sem þetta á nú að heita Þjóðleikhús en það er allt önnur umræða og látum hana vera hér. Þrír trúbadorar komu svo árlega í nokkur ár. Og engir aukvissar. Erum að tala um Bubba, Hörð Torfa og Megas. Síðast en ekki síst voru það bíósýningarnar verst var þó að bíða eftir því að verða sextán til að komast á þær myndir sem manni fannst nú mest spennandi. Reyndar áttum við púkarnir það til að stelast í bíó en segju ekki frá því hér.

Eftir því sem árin liðu þá bættist nú alltaf í úrvalið í afþreyingunni. Árið 1990 er mér sérlega minnisstætt. Þá fór ég ásamt mínum besta vini sem er eiginkona mín í dag á tónleika með Herði Torfa. Einum af mínum uppáhalds listamönnum. Tónleikarnir voru að vanda haldnir í Baldurshaga. Til að byrja með leið mér ekki vel á þessum tónleikum. Ástæðan. Jú hún var sú að við vorum sex á tónleikunum. Já, sex manns mættu á Hörð Torfa. En listamaðurinn tók þessu einsog hetja og huggaði okkur með því að segja að: Þetta væri nú ekkert. Í síðustu viku þá var ég með tónleika í Borgarfirði og þar mætti ein kona. En þetta voru mínir bestu tónleikar til þessa.

Árið eftir voru engir tónleikar með listamanninum í þorpinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband