Þrjár dætur, þrjár systur

Ég er ríkur. Alveg ofboðslega ríkur. Ég á þrjú yndisleg börn. Þrjár dætur. Reyndar kynni ég oft sjálfan mig þannig að við hjónin eigum fjögur börn og ég sé það fjórða. Já, það er mikið lagt á mína góðu konu. Enn bættist í ríkidæmið þegar ég var svo gerður að afa fyrir tveimur árum. Það var minn miðburður sem setti mig í þetta frábæra afahlutverk. Já, það er þessi í miðjunni. Svo er það okkar frumburður og loks síðburður. 

Ég veit ekki hvort það er aldurinn eða hvað en síðustu ár hef ég alltaf verið að uppgötva betur og betur hvað það er í raun sem skiptir mestu máli í lífinu. Það er fjölskyldan. Við foreldrarnir erum bæði sjálfstætt starfandi listamenn og þið getið því vel ímyndað ykkur að mánaðarmótin eru oft erfið. En það eru bara ekkert þessir monnipeningar sem lífið snýst um. Það er fjölskyldan, samveran. Við þurfum ekker að eiga flatskjá, tvær bifreiðar, alla Lord of the Rings diskana helst í hátíðarúgáfu eða alla þessa dauðu hluti. Þegar ég hugsa um það þá leið okkur t.d. mjög vel þegar ég var í leiklistarnámi í Danmörku. Þá tókum við ekkert með okkur nema sokka og fataplögg. Ég tók ekki einu sinni námslán. Samt áttum við þar geggjuð tvö ár og gerðum margt saman sem fjölskylda. Fórum oft í dýragarðinnn, í tívolí, í alla þessa frábæru garða sem eru útum alla Kaupmannahöfn og enduðum oft á því að borða pakkaís, já þið vitið einsog hann var í gamla daga, útí garði. Fullkomið líf. Þarna komst maður fyrst að þessum stóra sannleika að fjölskyldan á ávallt að vera í fyrsta sæti. 

Vissulega hefur oft verið erfitt fyrir okkar góðu dætur. Pabbi á endalausum leikferðum eða þá að vinna í leikhúsinu. Stundum gerist það að eitthvert listaverkið gengur ekki og þá kemur ekkert í kassann. En samt hefur þetta gengið allt saman og líklega bara styrkt alla. Því það er ekkert gaman að fá allt uppí hendurnar. Eða einsog minn góði leiklistarskólastjóri sagði ávallt: Það sagði engin að þetta yrði auðvelt.

Og svona hafa árin liðið og dætur okkar eru alltaf að stækka og mikið sem við erum stolt af þeim. Frumburður löngu flutt að heiman og er að standa sig svona líka vel á Listnámsbraut FB. Miðburður er að stúdera hár og snyrtigreinar við Menntaskólann á Ísafirði og hefur heldur betur náð að festa hendur á verkefnið. Síðburður er svo í Grunnskólanum á Ísafirði og hlakkar mikið til að ganga áfram menntaveginn. Já, þær eru flottar þrjár systur. Framtíðin er þeirra.

Afastelpan mín er byrjuð á leikskólanum Sólborg og fílar sig heldur betur vel þar. Við eigum margar góðar stundir saman því bæði erum við miklir bókaormar. Loksins þegar afi kemur heim er hann settur í gamla stólinn í borðstofunni. Svo fer sú stutta í bókahilluna og nær í fyrstu bókina, oft verða sömu bækurnar fyrir valinu Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á hausinn á sér er mjög vinsæl. Svo tekur við lestur á svona tíu til fimmtán bókum. Afi skemmtir sér ekki síður en litla skottið.

Ég er mjög stoltur pabbi og afi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband