Happasælt prúðmenni

Ef ég væri mín eigin völva þá væri ég löngu fallin á spámannsprófinu. Hvernig átti ég líka að geta séð það að púki, einsog krakkar eru oft kallaðir vestra, sem hugasaði bara um eitt í sínum uppvexti og það var fótbolti. Svo komu unglingsárin og enn var boltinn í aðalhlutverki en tónlist tók að taka meira af tímanum sérlega þegar kynni hófust við David nokkurn Bowie. Um tvítugut var boltinn langt innan við 50 prósentin og leikhúsið og listin með rest. Í dag hef ég ekki sparkað í knött í tæpa tvo áratugi. Nú er enn eitt breytingaskeyðið að taka yfir á mínu æviskeiði það er ahugi á íslenskri tungu. Þessum dásamlegu orðum sem við eigum og það að lesa fallegan texta er alveg á við það þegar maður tók hjólahestaspyrnu beint í mark í gamla daga. Þessu viðsnúningi míns áhugasvðis hefði engin getað spáð fyrir. Nóg væri að spyrja minn góða skólastjóra æskuáranna á Bíldudal sem er reyndar mikill og góður íslenskumaður. Já, nú hefði verið gott ef maður hefði hlustað í tímum í stað þess að fela erlendu knattspyrnublöðin inní skólabókunum og lesa fréttir af ,,Kampavíns Kalla" og félögum. Kampavíns Kalli var mín sparkhetja. Réttu nafni Charlie Nicholas sprækur Skoti sem lék með ,,fallbyssunum", Arsenal. Þar sem hann var svo flottur á vellinum þá átti hann það til að vera flottur utanvallar og gjarnan nokk þyrstur og því fékk hann kampavíns viðurnefnið. 

Svona er lífið. Alltaf að koma á óvart og þá sérílagi framtíðin. Enda væri það nú ekki gaman ef maður vissi þetta allt strax í móðurkviði. Vissulega vill maður ýmislegt með sitt líf en einsog einhversstaðar stendur þá fær maður ekki allt og ekki er nú óskastjarnan allsstaðar og alla daga yfir okkur. Oftar en ekki fær maður ekki það sem maður vill. Margir hafa til dæmis þegar gert sér skoðanir um ákveðið verk áður en þeir njóta þess og vilja að það sé svona og svona. Þegar þeir svo hafa séð verkið eru þeir náttúrulega ekki sáttir því það er ekki einsog þeir höfðu viljað hafa það.

Við áramót er við hæfi að kasta kveðju á samferðamenn sína. Vort ilhýra býður þar uppá sannkallað hlaðborð orða sem má nota. Gleðilegt ár. Árið. Farsælt nýtt ár og þakka liðið. Möguleikarnir eru margir kannski er þetta bara einsog einn meistari orðsins sagði ,,aðeins smekksatriði.". Mín uppáhalds áramótakveðja er: Happasælt ár. Þessi kveðja finnst mér alveg mögnuð og svo vel við hæfi. Tekur í raun yfir svo mikið í voru lífi sem framundan er hvort heldur er í leik eða starfi. Við áramót eru líka allir svo meirir og vilja að allir eigi happsæla tíð framundan. Sama í hvaða liði þeir eru en mikið væri nú gaman ef sú hugsun næði aðeins lengur en til 3. janúar ár hvert.

Annað orð sem ég hef í miklum metum í dag er: Prúðmenni. Þetta er verulega smart orð einsog álitsgjafar nútímans mundu gjarnan segja. Hver vill ekki vera prúðmenni? Hvað þá að vera kallað prúðmenni af sínum samferðamönnum. Líklega einn besti vitnisburður sem maðurinn getur fengið. Það er samt ekki langt síðan ég féll fyrir þessu orði. Samt stendur prúðmennið mér mjög nærri. 

Eitt af því sem fylgir því að vaxa uppúr knattskónum er áhugi á eigin ætt og fólki. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá er aðeins eitt sem skiptir máli og stendur fremst í flokki. Það er fjölskyldan.Nei, afsakið gott betur. Stórfjölskyldan. 

Á haustdögum fór ég að lesa mér til um mína stórfjölskyldu og þá einkum langafa minn á Bíldudal. Prúðmennið Hannes Bjarnason Stephensen. Var hann kaupmaður á Bíldudal og fékk það erfiða hlutverk að taka við af Bíldudalskónginum svonefnda Pétri Jens Thorsteinsson. Saga kóngsins hefur verið rituð í stórkostlegri bók sem heitir nefnilega Bíldudalskóngurinn og er eftir Ásgeir Jakobsson. Vissulega var það ævintýri en ævintýrið hélt áfram jafnvel þó konungurinn hafi yfirgefið ríkið. Fljótlega eftir að ég byrjaði að kynna mér söguna af langafa mínum fer þetta orð, prúðmenni, að koma við sögu í hvert sinn sem nafn hans kemur upp. Í hvert sinn hlýnaði mér um hjartarætur og fylltist um leið stolti. Um leið var mér hugsað til hins stórkostlega söngvara Louis Prima sem söng svo snildarlega í Skógarævintýri Mogla: Ég vil vera einsog þú.

Svona er galdur tungunnar mikill og mín býður eitt stærsta verkefni lífsins. Eins gott að hefjast handa strax í dag. 

Happasælt komandi ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband