Hinn dásamlegi hljóðheimur hljómplötunnar

Fátt er betra en að eiga góða stund með sjálfum sér og hlýða á tónlist. Hvað þá ef hlustað er á hinn einstaka hljóðheim hljómplötunnar. Sannarlega hljómar engin hljómplata eins og er þá ekki meint tónlistin sjálf heldur hljóðin. Eftir því sem gripurinn snýst oftar og nálin leikur um hann fara stundum að bætast við önnur hljóð. Smá sarg. Verra þó ef skífan stoppar í sama farinu en það getur samt verið ágætt því þá þarf maður að standa aðeins uppúr hægindastólnum og gefst þá gott tækifæri til að liðka eigin líkama. Í raun er hljómplatan ekki ósvipuð og hellu espresso kaffikannan. Eftir því sem oftar er helt uppá þeim mun betri og sterkari verður sopinn. Þannig er því einnig farið með hljómplötuna því oftar sem hún snýst þeim mun betri verður ekki bara tónlistin heldur gripurinn sjálfur. Sem heldur áfram að þróast og verður því meira lifandi þarna liggur einmitt munurinn á hljómplötunni og geisladisknum. Ef hann stoppar þá stoppar hann bara og snýst síðan bara endalaust í sama farinu og um sjálfan sig sama hvað er skrollað fram og aftur. 

Um jólin var ég svo heppinn að fá plötuspilara í jólagjöf en gamli Grundig hafði gefist upp á nálinni fyrr á árinu. Þessi nýji heitir Lenco og sómir sér heldur betur vel í borðstofunni í Strætinu. Nú þeytir maður skífum sem aldrei fyrr og mikið er gott að fá aftur að heyra þennan dásamlega hljóðheim hljómplötunnar. Safnið hefur nokkuð staðið í stað eftir að Grundig gaf upp öndina en strax í gær var þremur hljómplötum bætt í safnið. Þar fremst í flokki er Sóleyjarkvæði. Gefið út af Æskulýðsfylkingunni sambandi ungra Sósíalista, því miður er ekkert ártal ritað á umslagið. Hér er á ferðinni ljóðabálkur Jóhannesar úr Kötlum í tóngerð Páls Pálssonar. Ég segi ykkur það bara alveg strax að þetta er mikið snildarverk. Enda bjóst ég nú ekki við öðru þar sem einvalalið listamanna leiðir þarna saman hesta sína. Stjórnandi er vinur minn góður og lærifaðir í listinni Eyvindur Erlendsson. Meðal flytjanda má nefna Arnar Jónsson, Karl Guðmundsson og góðan vin minn Eyvind Eiríksson. 

Ef ég yrði spurður á götu hvort ég væri til í að taka þátt í flutningi á þessu verki þá mundi ég hoppa tvisvar í loft upp. Bara að nefna þetta ef svo skemmtilega vildi til að einhver sé að pæla í að dusta rykið af þessu einstaka listaverki. 

Afþví að það er ný hafið nýtt ár og vinsælt er að setja sér heit og markmið. Þá hef ég þegar gert mitt áramótahljómplötumarkmið en það er að halda áfram að safna SG hljómplötunum. Er þá að tala um þessar 33 snúninga. Vissulega er þetta stórt markmið því ég á aðeins 18 hæggengar SG en alls komu út 180. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband