Betra það sem kemur utan en að innan

Skrítinn fugl ég sjálfur sagði breska leikskáldið og hitti sannlega beint í mark. Í það minnsta hvað mig varðar. Ég er óttalegur veslingur þó ekki Verzlingur enda aðeins leikskóla genginn þ.e. leiklistarskóla menntaður. Enda segi ég það alveg satt, einsog Gunnar fósturafi minn á Bíldudal sagði á góðum stundum, að ég hef bara verið að leika mér nánanst frá því ég man eftir sjálfum mér. Eldskýrnina fékk ég einmitt hjá nefndum fósturafa sem var hinn eini sanni jólasveinn þorpsins. Eitt sinnið vildi hann hafa einhvern Stúf með sér. Vitanlega bauðst ég strax til þess leiks þrátt fyrir að vera þá sem nú skíthræddur við jólasveina. Gunnar jóalafi minn dressaði sig sjálfan í rautt og svo mig setti því næst á okkur sitthvort skeggið. Renndi í gegnum Adam átti syni sjö og tróð mér svo ofan í pokann sinn. Þetta var mín eldskírn í leikhúsi lífsins og verður líklega seint toppað. Enda hef ég oft komið að fjöllum síðan. Bæði sem jólagæji og ekki síður komið að fjöllum í hausnum. Enda er ég einsog ég sagði í upphafi óttalega vitlaus. Eða ætti ég kannski að segja svoddan jólasveinn. Sumt finnst mér bara, einsog krakkarnir segja stundum, ekki meika sens. 

Í nóvember liðnum dvöldum við hjónin í Daviðshúsi fyrir nordan. Frúin í bókbandi meðan ég vann mín blekbóndastörf. Úr því varð reyndar leikritskríli, draugastykki, sem mun vonandi sveima um senuna í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal Dýrafirði næsta haust. Mikið sem það er annars gott að fara á nýjan stað til að huxa, vinna eða bara til að slæpast. Kynnast nýju fólki, nýjum siðum og síðast en ekki síst njóta lista viðkomandi staðar. Það var einmitt haldin þrælmerkilegur listafundur þar nyrðra nær við hjónin vorum þar að stúdera í húsi Davíðs. Efni fundarins var mikilvægi skapandi greina á landsbyggð. Málaflokkur sem er í raun bara einsog mín trú - því ég trúi því staðfastlega að mörg tækifæri felsist í list á landsbyggð. Eigi þó sagt gegn höfuðborg. Alls ekki og við eigum heldur ekkert að vera metast um það. Heldur jafna tækifærin en þannig er það því miður ekki í listinni í dag. En nóg um þá listapólitík, huxum kannski meira um það síðar.

Nema hvað í lok fundar sagði einn frummælanda að hann væri eiginlega búinn að segja allt sem hann vildi, nema eitt kannski í lokin. Það væri nefnilega eitt atriði sem hann ætti erfitt með að skilja og það væri að miklu fleiri utanbæjar og úr nágrannabyggðum sæktu sýninguna hjá sér en heimamenn. Það varð þögn á fundinum. En svo brosti nær allur þingheimur og hló í kampinn svo sögðu nánast allir í kór. Við könnumst líka við þetta úr okkar heimabyggð. 

Þetta er nú soldið skondið að þeir sem eru nærri eru í raun fjarri eða jafnvel fjarverandi. Meðan þeir sem eru fjarri og jafnvel enn lengra frá eru nærri, sumsé mæta í hús. 

Ég var nú bara svona að huxa upphátt á snjófögrum sunnudegi fyrir vestan. 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og fjórum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband