Töfrandi sýning í Tjarnarbíó
3.2.2025 | 12:18
Við hjónin brugðum okkur ásamt einum afa- og ömmudreng okkar í leikhús á helginni. Ávallt er það nú jafn gaman og töfranadi að mæta með æskuna í leikhús eða bara á listviðburð yfirhöfuð. Það er ekki bara stundin sem er svo töfrandi heldur er þetta einhver besta fjárfesting sem mar' getur gert bæði fyrir sig sjálfan og ekki síður listalífið sjálft. Því eigi viljum við hafa listina einsog í Spilverkssöngnum: Styttur bæjarins sem engin nennir að horfa á.
Við fórum í Tjarnarbíó, musteri hinnar sjálfstæðu senu, og sáum skemmtilega og fróðlega sýningu Lalla töframanns, Nýjustu töfra og vísindi. Sannarlega voru þarna töfrar til staðar og svo vísindin sem eru sannlega töfrar útaf fyrir sig líka. Lalli er náttlega alveg afskaplega skemmtilegur listamaður. Ávallt orkumikill og svo er það þetta með leikgleðina, hún er í hæstu hæðum. Það er fátt betra en að sjá listamann njóta sín í list sinni. Þannig var það svo sannlega í Tjarnarbíó í gær á sýningu Lalla Nýjustu töfrar og vísindi. Afadrengurinn skemmti sér alveg konunglega kallaði reglulega aðstoðarorð til listamannasins og það gerðu fleiri fulltrúar æskunnar á sýningunni. Lalli náði greinilega vel til þeirra allt frá upphafi sýningarinnar til loka.
Við fullorðna fólkið skemmtum okkur ekki síður. Vísindin hafa nú ekki alltaf náð til mín enda er ég nú ekki mjög gáfaður piltur, þó 53 sé, náði t.d. aldrei algebru í skóla. Hins vegar horfði ég á vísindaþáttinn Nýjasta tækni og vísindi er Sigurður Richter stýrði með stæl. Skyldi samt ekki margt þar þó vel hafi Sigurður lagt það fyrir gónendur. Það er bara með tölur og tækni eftir svona 1- 2 mínútur þá er hugur minn bara horfinn, ég dett bara út. En ég datt alls ekkert út á helginni á sýningu Lalla á Nýjustu töfrum og vísindum. Ég sé að það verða sýningar á leiknum í febrúar í Tjarnarbíó svo nú er bara um að gjöra að panta sér miða og leyfa töfrunum að taka þig í ævintýralegt ferðalag í Tjarnarbío. Töfri töfri.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning