List til lækninga og umhyggju
11.3.2025 | 15:16
Þar sem ég er starfandi listamaður á landsbyggð árið um kring þá þreytist ég seint á því að benda á mikilvægi lista. Þá ekki síður aðgengi að listum því listin er í raun lífheilsumál. Er einsog Maltið, bætir, hressir og kætir. En meira til fær mann oft til að huxa og jafnvel uppgötva, opna soldið hausinn því það er svo gott.
Listin mætti þó vera mun aðgengilegri og nú er lag fyrir nýja ríkisstjórn að gera stórátak í því að jafna aðgengi lista óháð efnahag og búsetu. Það síðastnefnda á sérlega vel við það svæði þar sem ég bý fyrir westan. Hingað kemur engin Sinfonía né Þjóðleikhús og hvað þá ballet sýning.
Í morgun var ég að kynna mér hið stórmerka breska grímu leikhús Vamos. Þau hafa einmitt unnið vel undir þeim formerkjum að koma listinni til fólksins og jafna aðgengi breskra að grímulist. Þau ferðast reglulega og sýna í skólum og einnig og takið nú eftir á dvalarheimilum og öðrum mikilvægum heimilum hvar fólk býr sökum bresta í heilsu eða vegna fötlunar. Í öllum þessum þáttum megum við sem hér búum og stöfum í listinni gera meira af. Vissulega eru leiksýningar og aðrir listviðburðir í skólum en því miður allt of lítið á dvalarheimilum og öðrum heilsuheimilum. Við í Kómedíuleikhúsinu höfum nokkrum sinnum sýnt á dvalarheimilum sem og þar sem þeir dvelja sem þjást af hinum miskunarlausa Hvergi sjúkdómi (alsæmer). Einu sinni fannst okkur við hafa rosa góða hugmynd fram að færa og vildum ferðast á dvalarheimili um land allt með leiksýningu okkar um þekktasta bónda landsins, Gísla á Uppsölum. Við höfðum samband við Hrafnistu og þar var svarið frábær hugmynd en það eru engir peningar til í svona lagað. Hins vegar náðum við að fara á nokkur dvalarheimili út á landi en mikið held ég að þetta hefði verið nauðsynlegt verkefni og liður í því að færa listina til fólksins sem hefur rutt brautina fyrir okkur sem nú störfum.
Að síðustu mundi ég svo vilja að okkar góðu læknar hefðu fjármagn til þess að geta ávísað listupplifun til sinna sjúklinga. Það skilar sér örugglega alveg jafn vel og einhver pilla og huxið ykkur bara lita perlurnar sem listin mun færa sjúklingnum allt listalitrófið einsog það leggur sig.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning