Listapparöt landsbyggðar
13.3.2025 | 14:29
Í þessu líka brakandi sólskini á leikhúseyrinni Þingeyri er eigi annað hægt en huxa með hlakkandi huga til sumars. Lóan víst mætt á klakann en þegar Fryggerlan (í dag nefnd Maríuerla - en á Bíldudal heyrði ég og lærði reyndar að heiti þessa smáafugls væri Máríuerla) fer að skoppa um göturnar þá fyrst sumrar. Þá fjölgar líka gestunum hér á landsbyggð og þá þarf nú að hafa eitthvað meir en ósnerta náttúru og þar kemur afþreyingin sterk inn. Hvort heldur það eru opnar sundhallir, möguleiki á fjórhjólaferðum, skoða söfn eða mæta bara í leikhús, sumarleikhús.
Alla þessa mikiklvægu þætti til að laða að gesti í bæinn má nefna hinu aðdragandi nafni, segla. Því fleiri seglar þeim mun fleiri gestir koma. Hér á eigi við að segja minna er meira en þó vissara að hafa það soldið geggjað en þó ávallt vandað, gjört alla leið. Hinar geggjuðu hugmyndir eru oft soldið góðar í gestadeildinni því eigi hefði maður áhuga á að sjá bara endalaus byggðasöfn er öll sýndu bara rokka og aska. Miklu heldur vildi maður sjá eitthvað einstakt sem er nærri hvurgi annarsstaðar. Ég hefði t.d. alveg áhuga á því að fara á hákarlasafn eða grásleppusafn og mundi alveg taka extra krók á ferðalagi mínu til að kikka á slíkt.
Hér fyrir vestan höfum við einstaka listahátíð sem helgar sig eins fólks listinni og heitir uppá enskuna Act alone sem útleggst á vort ilhýra Leikur einn. Þessi hátíð var fyrst haldin 2004 og hefur síðan verið einn af seglum Vestfjarða og laðað að sér fjölda gesta bæði innlendra sem erlendra. Ég tel nokk víst ef þetta hafði bara verið almenn listahátíð eða einfaldlega leiklistarhátíð, því einleikurinn er í aðalhlutverki á Act alone, þá hefði þessari hátíð ekki vegnað svona vel og hefði jafnvel ekki náð táningsaldri. Því víða eru leiklistarhátíðir um heim allan en fáar eru þær einleikjahátíðarinnar. Act alone er eina einleikjahátíð landsins, Norðurlandanna einnig en hinsvegar eru nokkrar haldnar í suður Evrópu og svo víðar um heiminn. En ekkert Act á Íslandi nema á Suðureyri aðra helgina í ágúst ár hvert ( smá auglýsing).
Þannig að það felast tækifæri í geggjuninni (lesist crazy, finn samt ekki nógu gott orð sem tekur utan um það að vera crazy en vil samt rita mína íslensku, annars verður vinur minn Óli íslenski alveg brjál) og mikilvægt og rétt að koma að því mikilvæga í þessu öllu að listaapparötin á landsbyggðinni fái brautargengi frá ríkinu. Já, enn er ég að bögga nafna minn í Menningarráðuneytinu en þetta er bara staðreynd sem þarf að laga - að veita listum á landsbyggð tækifæri því list á Íslandi og hvað þá á landsbyggð, í góðmenninu, þrýfst eigi án meðgjafar.
Nú er bara að láta hugann reika hvað mikið geggjað er hægt að gera í listapparat málum á landsbyggð. Stofna grímuleikhús sem sýnir aðeins grímuleiki. Koma upp safni um Sölva Helgason fyrir norðan. Stofna balletskóla á Raufarhöfn. Vera með sumargötuleikhús á Bíldudal þar sem sumrin eru líkt og á Spáni og því hvergi betra að stunda útilist en í firði Arnar.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning