Að vera einn af einum á köldu svæði
16.3.2025 | 15:56
Ég bý sumsé á köldu svæði. Enda kostar nú heldur betur monninginn að kynda sinn kofa, því segir maður oft einsog unglingurinn nær maður sér húshitunarreikniginn: Ertu að kidda mig. Hinsvegar komst ég að því að, kemur fyrir að ég komist að einhverju þó ég sé frekar grannur þ.e. vitrgrannur, að þar sem ég bý á köldu svæði þá á ég rétt á niðurgreiðslu til kaupa á hinu stórmerka apparati varmadælu. Með því að fjárfesta í slíkri græju og koma í gagnið ku maður víst lækka sinn húshitunarreikning um jafnvel helming á mánuði, munar um það hjá listamanni á landsbyggð.
Úr köldu í eitt og soldið einstakt. Talan einn er mér einstaklega hugleikin. Ég bý á svæði þar sem lögmálið er voða mikið einn af einum. Það er einn pípari, einn rakari, einn leikari, eitt skáld..... Það þarf því engan að undra að ég hafi valið mér einleikjaformið, eða reyndar var það frekar leikformið sem valdi mig einmitt sökum þess að nær ég ætlaði að fara að starfrækja atvinnuleikhús okkar hjóna á búsvæði eins af einum þá komst ég að því að ég var og er eini atvinnuleikarinn á svæðinu. Svo þá kom náttlega ekkert annað til greina en að setja bara upp einleik og svo hef ég bara leikið einn. Hemmi vinur minn Gunn hafði nú svar við afhverju það væri. Ég væri bara svona lélegur leikari og ég held að það sé bara alveg rétt hjá mínum kæra góða vin sem ég huxa nú samt ávallt hlýtt til, enda var þetta bara djókur.
Tilveran er nefnilega einkennileg á stundum. Svo þegar ég var orðin leiður á að útskýra hvað einleikur er nær fólk spurði mig, og kannski vegna grunnhygni minnar og trúðaminnis, þá ákváðum við hjónin að stofna bara til sérstakrar einleikjahátíðar. Er nefnist Leikur einn en uppá enskuna Act alone. Þannig að ef einhver spyr mig í dag þá er svarið bara komdu á Act alone eða á næstu einleikssýningu mína í Kómedíuleikhúsinu Haukadal. Allt í einu fatta ég að kannski hafi nú kaupmannsgenið komið þarna upp í mér án þess þó að ég vissi af því - væri góð leið til að fá fleiri gónendur í okkar einstaka leikhús. Já í stað einstakra orða er bara best að viðkomandi skelli sér í leikhúsið okkar að sjá einleik.
Að því sögðu er rétt að binda enda á þetta einstaka pár mitt með því að minna á að einleikur sumarsins í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal er, Þannig var það, eftir Norska Nóbelskáldið Jon Fosse og verður sýnt alla fimmtudaga í júlí í dalnum þar sem engin býr í Haukadal Dýrafirði (ekki einu sinni einn). Act alone hin einstaka listahátið verður svo haldin einstaklega hátíðleg dagana 7. - 9. ágúst á Suðureyri því einstaka sjávarþorpi.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning