Faðir minn Clark Gable

Árið er 1978 nánar tiltekið 11. mars og það er hátíðardagur í leikhúsinu á Bíldudal því um kveldið verður frumsýning hja Leikfélaginu Baldri á leikritinu Skjaldhamrar eftir Jónas Árnason. Þetta man ég svo vel enn þann dag í dag þó ég hafi aðeins verið sex ára þarna og fékk samt að fara á frumsýninguna. Hef síðan tekið upp þann góða sið að börn mín fái að fara í leikhús ef þau vilja jafnvel þó eigi sé um skilgreint barnaleikrit að ræða. Reyndar er það nú svo að ég var líka á langflestum æfingum Skjaldhamra allan febrúar og svo fram í mars eða alls í sex vikur sem er hinn algengi æfingatími leikrits í fullri lengd. Á frumsýningu var pakkaður salur 130 manns, pabbi mundi líklega segja það hafa verið 165 jafnvel 170. Allt í lagi að bæta aðeins í sérlega þegar vel tekst til.

En á æfingum var þar mun fámennarra. Það var vitanlega leikstjórinn sem var hin listræna og mér vel minnuga, því hún gisti á æskuheimilinu mínu á æfingatímanum, stórleikkonan Kristín Anna Þórarinnsdóttir. Mamma var þarna oft sérlega þegar á leið æfingatímann því hún sá ávallt um að gera búningana fyrir sýningar Baldurs. Nú svo vorum við frændsystkinin og bestu vinir í okkar sætum á hverri æfingu, ég og Sirrý góðfrænka mín dóttir Ödda frænda sem var líka ávallt á sviðinum ásamt föður mínum. Við vorum bara sex ára þarna við Sirrý en sátum samt dolfallinn einsog yfir einhverjum Dallas þætti á hverri einustu æfingu á Skjaldhömrum. Þarna var náttlega ekki komið myndbandstæki í dalinn og hvað þá internet. Svo leikhúsið var okkar skemmtan. 

Faðir minn fór þarna á kostum í höfuðrullunni lék heimsmanninn, sem hafði þó lítið farið úr sínum firði líkt og sveitungi minn Gísli á Uppsölum, Kormák vitavörð. Nema hvað haldiði að hann hafi ekki verið með þetta örmjóa og fína yfirvaraskegg alveg einsog og filmuleikarinn Clark Gable var með. Enda er pabbi enn þekktur á Bíldudal sem Hannes Gable. Öddi frændi lék breskan major með miklum bravúr og svo var uppáhaldsleikkonana mín Margrét Friðriksdóttir í hlutverki hinnar bresku Katrínar Stanton. Ekki má gleyma Eyjó bankamanni, já þá var banki á Bíldudal (fer hlutunum aftur eða fram spyr maður sig oft) hann lék breskan korporol. Hann var með ótal kækji, saug upp í nefið og hafði uppi ýmiskonar munnkæki sem eru mér enn minnisstæðir. Þetta var víst í fyrsta sinn sem hann steig á leiksvið en þeir er sáu töldu hann hafa bara rétt skroppið af sviðinu í Iðnó, leikhúsi Leikfélags Reykjavíkur hér í denn, til að taka þátt í sýningu Baldurs. Þessir bresku búningar voru svo flottir að flestir töldu þá hafa bara komið beint frá breska setuliðinu. Svo var nú eigi því það var hún móðir mín, Þórunn Helga, sem gerði þá. Hvernig? Jú, hún byrjaði á því að símaa til Strætisvagna Reykjavíkur og spurði hvort það væru ekki til strætisvagnabílstjóra jakkar sem þau mættu missa og gætu sent með næstu vél vestur á Bíldudal. Bingó, einsog faðir minn mundi segja. Strætójakkarnir komu vestur og móðir mín bætti á þeim borðum og orðum svo úr urðu þessir fínu bresku herjakkar. Ef Churchill hefði ekki verið horfinn af sviðinu fyrir rúmum tíu árum þá, hefði hann án efa pantað nokkur dúsín af þessum breskíslenskustrætójökkum móður minnar. 

Afhverju er ég nú að huxa þetta allt upp núna, jú ég var nefnilega að lesa í fyrsta sinni handritið af Skjaldhömrum. Sá aðeins stykkið 1978 reyndar allar æfingar og sýningar en samt rifjaðist textinn upp fyrir mér nær ég las sérlega setningarnar hjá Kormáki vitaverði, er faðir minn Gable lék svo listilega. Pælið bara í hvað minnið er merkilegt fyrirbæri. En afhverju var ég nú loksins að lesa Skjaldhamra jú vegna þess að ég er að fara að taka þátt í stórskemmtilegu verkefni á vegum Gefum íslensku séns og Kómedíuleikhússins þar sem á að hittast og leiklesa Skjaldhamra. Þeir sem lesa eru okkar nýju íslendingar þ.e. íbúar sem hafa íslensku eigi að móðurmáli en eru að nema hana enda orðin hér búsett. Ég hef nebblega svo mikla trú á leikhúsinu að ég tel að leiklestur sé hin besta íslenskukennsla. Hlakka til lestursins og endurkikks á Skjaldhamra Kormáks og Jónasar Árnasonar.  skjaldhamrar


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og fjórtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband