Tja tja tja og sturta niður en sturtum samt ekki niður listmenntun í landinu

Þegar ég var púki á Bíldudal voru skapandi greinar ekki mjög fyrirferðamiklar í námskrá grunnskólans. Við lærðum þó smíðar, handavinnu og myndlist. Þar sem ég er nú ekki mikill handansmaður þá var ég nú eigi mjög lúnkinn í þessum listhandgreinum. Hesturinn sem ég sagaði út úr krossviði var meira í ætt við sjalfan mig sumsé asna. Pottaleppaparið sem ég hekklaði brúkaðist eigi við að halda á heitu heldur þurrka fætur er maður steig úr sturtubaðinu heima. Í myndlistinni þá teiknaði ég bara fjall og kallaði það heiðina, krotaði þar inn vegaómynd og svo einhverjar bifreiðar sem kennarinn hélt reyndar að væru mýs eða jafnnvel menn, en þá á fjórum fótum sko. Nú svo fengum við danskennslu eina viku á ári. Þá kom danskennari að sönnan sem söng dansvísuna hástöfum: Tja tja tja og sturta niður. Síðan þá hef ég kunnað hvort tveggja uppá tíu. 

Sem betur fer hafa skapandi greinar fengið aðeins meira vægi í menntakerfi landsins en enn má þó bæta í að mínu mati. Þá ekki síst á landsbyggð. Margur segir kannski strax, en það er ekki hægt þið eruð svo fá það er ekki hægt að halda úti balletkennslu fyrir svo fáar sálir eða ekki hægt að bjóða uppá tveggja vikna grímunámskeið í skólanum því það er ekki til monningur í kerfinu. Allt er þetta rétt en í stað þess að segja að eitthvað sé ekki hægt þá er miklu frekar að huxa opið og reyna að finna lausnir. Því það hefur löngu sannað sig að listir og sköpun eru eitt það besta sem maðurinn hefur og vill ekki bara virkja heldur langar, verður bara að fá útrás fyrir sköpunina. Svo eru listir hin albesta forvörn.

Ég er einsog vinir mínir fyrir sunnan sem sagt er um að huxi ekki nema uppí Ártúnsbrekku þá huxa ég bara uppí miðja Bröttubrekku það er mér alveg nóg. Það er með listmenntun á landsbyggð einsog atvinnulistir á landsbyggð og nú meira að segja verslun á landsbyggð að hún gengur ekki nema með meðgjöf ríkisapparatsins. Vissulega er þetta ábyggilega orðið þreytt að alltaf þurfi landsbyggðin meðgjöf en það er bara staðreynd sérlega þar sem skóinn hefur kreppt hvað mest hér fyrir vestan. 

Hér vestra er því miður allt of lítið úrval í listmenntun fyrir æskuna og í raun alla flóruna því fullorðnir hafa ekki síður þörf og áhuga á að listmennta sig. Ástæðan er einföld, listmenntun kostar monní glás og þegar fáir eru nemarnir gengur dæmið ekki upp. Meira segja í fjölmenninu eru listappartötin að ströggla eða einfaldalega gefa upp öndina bara síðast í gær bárust fréttir af Kvikmyndaskólanum sem væri á leið í þrot og í morgun var frétt um að Söngskóli Sigurðar Demetz væri líklega að syngja sitt síðasta. 

Nú er óskandi að ríkisapparið geri gangskör í því að efla listmenntun á landsbyggð, líka á höfuðborgarsvæðinu vitanlega, ég huxa bara uppí mína brekku einsog áður gat. Því áhuginn er til staðar og svo má ekki gleyma því að það er ekki öll æskan sem fílar að sparka í bolta eða hafa uppi spotiðkun. Kannski væri hægt að skilgreina Barnamenningarsjóð betur og hafa ákveðið margar millur sem færu sérstaklega í listmenntun. Því listmenntun er góð menntun. 

Í lokin segi ég bara einsog söngvarinn; Megi sá draumur rætast okkur...og bæta við að á Þingeyri, hvar ég bý, muni í framtíðinni æskunni og þeim eldri líka standa til boða að nema  ballet sem leiklist í sinni heimabyggð óháð stétt og efnahag. 

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og tíu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband