Lærum íslensku með leikritalestri
31.3.2025 | 16:47
Sem starfandi leikari þá hef ég mikið yndi af því að lesa leikrit. Ekki bara leikrit sem ég er að fást við hverju sinni heldur bara að lesa mér leikrit til skemmtunar, íhugunnar og fróðleiks. Þessa lestraáráttu hef ég haft frá tvítugs aldri eða svo eða nær ég ákvað endanlega að mitt starf hér í heimi væri að leika - mér. Þá fór ég einnig markvisst að safna leikritum og ég held að ég eigi líklega öll leikrit sem hafa komið út á bók hér á landi. Eru það bæði verk eftir innlenda sem erlenda höfunda allt frá Oddi Björnssyni til Williams Shakespeare. Reyndar skal það strax áréttað að leikritaútgáfa er líklega sú bókaútgáfa sem minnst gengur hér á landi og nær líklega sjaldan núlli eða að komast réttu megin við línuna. En samt eru þetta einar 6 hillur sem mitt leikritabókasafn rúmar.
Svo mikla trú hef ég á gangsemi leikritalesturs að leikhús okkar hjóna Kómedíuleikhúsið, atvinnuleikhús Vestfjarða, er komið í samstarf við íslensku verkefnið Gefum íslensku séns, á Ísafirði, um að efna til leiklesturs á íslensku. Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess að íslensku verkefnið vestfirska hefur það að meginmarkmiði að stuðla að auknum möguleikum fólks í notkun íslensku á sem víðtækastan hátt, að fólk sem er að nema málið fái stuðning og skilning þeirra sem vald hafa á tungumálinu. Þetta hefur verið gert með því að efna til fjölbreyttra viðburða þar sem allt fer fram á íslensku allt frá leiksýningum til gönguferða og nú verður lesið leikrit á íslensku.
Fyrir valinu var eitt af betri leikverkum síðustu aldar Skjaldhamrar eftir Jónas Árnason. Lesturinn hefst á morgun 1. apríl kl.19.30 og já það er ekki spaug, leiklesturinn hefst þriðjudaginn 1. apríl í Fræðslumiðstöð Vestfjarða og er öllum opin. Hvort heldur fólk vill lesa eða bara hlusta á lesturinn. Skjaldhamrar er leikrit í fullri lengd og verður því lestrinum skipt niður á tvö kveld. Seinni leiklesturinn verður fimmtudaginn 3. apríl.
Afhverju Skjaldhamrar spyrja líklega margir. Sérlega þar sem sumir hafa kannski ekki heyrt af þessu mæta leikverki. Skjaldhamrar hefur nefnilega vestfirska tengingu og því þótti gráupplagt að hefja þetta íslensku verkefni með efni heiman af, einsog séra Baldur vinur minn sagði gjarnan. Leikritið var frumflutt hjá Leikfélagi Reykjavíkur haustið 1975 í Iðnó. Svo vel lukkaðist að verkið var á fjölunum í þrjú leikár í röð og fór einnig á írska leiklistarhátíð. Eftir það var verkið sýnt hjá áhugaleikfélögum víða um land m.a. hjá Leikfélaginu Baldri á Bíldudal 1978. Efni leiksins á vel við íslenskuverkefnið því hér er fjallað um rétt smáþjóðar til að halda sjálfstæði sínu, tungumáli og sérkennum. Verkið gerist í seinni heimstyrjöldinni hvar breska setuliðið leitar að þýskum njósnara og berst leitin alla leið á Vestfirði nánar tiltekið á Skjaldhamra hvar vitavörðurinn Kormákur stendur sína vakt ásamt systur sinni æðarkollunni Matthildi og maddömmu Rósalind sem er kýr. Verkið byggði Jónas lauslega á sögnum af þýskum njósnara er faldi sig í fjallinu á Patreksfirði.
Öll eru velkomin til leiklesturs á Skjaldhömrum í Fræðslumiðstöð Vestfjarða Ísafirði dagana 1. apríl og 4. apríl, lestur hefst kl.19.30 bæði kveldin.
Flokkur: Menning og listir | Breytt 2.4.2025 kl. 00:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning