KÓMÍSK JÓL FRAMUNDAN

Í gærkveldi hófustu æfingar á nýju íslensku jólaleikriti. Um er að ræða einleik, ekki að spyrja að því uppskrift að hætti Kómedíu sem hefur líka bara einn leikara á sínum snærum, sem heitir Jólasveinar Grýlusynir. Leikurinn er eftir Soffíu Vagnsdóttur og Kómedíuleikarann. Vart þarf að nefna hver leikur en leikstjóri er Soffía. Fjölmargir vestfirskir listamenn koma að uppfærslunni. Hrólfur Vagnsson semur tónlist, Marsibil G. Kristjánsdóttir hannar brúður og leikmuni, Alda Veiga Sigurðardóttir hannar búninga og ljósahönnuður er í höndum Jóhanns Daníels. Leikurinn verður sýndur í Tjöruhúsinu á Ísafirði sem er staðsett á safnasvæðinu í Neðsta kaupstað. Í tilefni sýningarinnar verður Tjöruhúsið sett í sérstakan jólabúning og verður þá sannkallað ævintýrahús jólasveinanna. Jólasveinar Grýlusynir fjallar um gömlu íslensku jólasveinana áður en þeir fóru í rauðu sparifötin og byrjuðu að drekka Kóka Kóla. Soffía hefur samið nýjar vísur fyrir jólasveinanna og Hrólfur hefur samið skemmtilega músík við þær. Inní ævintýri Grýlusonanna fléttast samt allt annað ævintýri um unglingspilt sem er að leita að kúnni Búkollu sem hefur stungið af rétt einu sinni. Eða hvað? Var henni kannski stolið? Til að forðast allan misskilning þá styrkir Vódafón ekki sýninguna enda langt síðan Búkolla kom í heiminn og hefur verið á randi síðustu áratugi og lent í ótal ævintýrum. Jólasveinar Grýlusynir verður frumsýnt laugardaginn 17. nóvember kl.14.00 í Tjöruhúsinu. Sýningar verða síðan allar helgar í nóvember og desember.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband