ENGIN AUMINGJASKAPUR Á LJÓÐINU Á SIGLÓ
21.10.2007 | 17:08
Kómedíuleikhúsið er komið úr ljóðaleikferð frá Siglufirði þar sem leikhúsið sýndi ljóðaleikinn Aumingja litla ljóðið. Tilefnið var ljóðahátíð sem Ungmennafélagið Glói ásamt fleirum stóð fyrir á Siglufirði dagana 18. - 20. október og bar hátíðin nafnið Glóð. Aumingja ljóðið var sýnt í vinnustofu og gallerí listamanns á Siglufirði og var gerður góður rómur af sýningunni enda á ferðinni klassískur kveðskapur úr smiðju vestfirskra skálda. Að leik loknum var skundað í Herhúsið á Sigló þar sem fram fór Jónasarkvöld í tilefni af tveggja alda afmæli listaskáldsins góða. Þar lásu Kómedíuleikarinn og Sigurður Skúlason, einn af bestu upplesurum landsins, ljóð eftir Jónas. Einnig flutti Páll Helgason skemmtilegt erindi um skálidð og lauk lestrinum með því að fara með Gunnarshólma. En þess má geta að þegar kappinn Páll, sem er fyrrum kennari á Sigló, var í skóla þá var það eitt af verkefnum æskunnar í skólanum að læra þetta kvæði utanbókar og hefur hann staðið sína plikt því ljóðíð flutti hann með bravúr. Einog menn vita þá er Gunnarshólmi nú ekkert stutt kvæði og þar að auki nokkuð erfitt í fluttningi en þetta voru börnin læra hér í gamla daga og hefur það nú ábyggilega verið nokkuð erfið glíma. Reyndar er það nú svo að börn eru fljót að læra og eru meira að segja snögg að tileinka sér nýtt tungumál. Þegar aldurinn færist yfir þá minnkar þessi hæfileiki jafnt og þétt og þekkir Kómedíuleikarinn það að með hverju árinu þarf hann að eyða lengri tíma í að læra sinn texta. Það væri því ekki úr vegi að nýta æskuárin og læra svona klassíkur einsog Gunnarshólma utanbókar því það er nú líka þannig að þegar það er komið í kollinn þá ferð það ekkert þaðan aftur. Meðan Jónasardagskráin fór fram flaug það í koll ritara að það hefði nú verið gaman ef Rás eitt hefði verið á staðnum og hefði hljóðritað þessa uppákomu. Var úrvals efni í einn góðan útvarpsþátt um Jónas Hallgrímsson. Mættu þeir ljóðamenn á Sigló hafa þetta í huga að ári að hafa samband við ríkisviðtækið og bjóða þeim að koma á hátíðna og gera kannski einn eða tvo þætti um hátíðina. Það var allavega að heyra á fólki i gær að Ljóðahátíðin Glóð væri komin til að vera enda var dagskráin og skipulag í gær til mikillar fyrirmyndar. Landsbyggðin ætti að gera meira að því að fara útí listahátíðir því þar felast miklir möguleikar. Nefnum sem dæmi Ísafjörð þar sem árlega eru haldnar þrjár stórar listahátíðir leiklistarhátíðin Act alone sem Kómedíuleikhúsið stendur fyrir og svo tvær tónlistarhátíðir Aldrei fór ég suður og Við Djúpið. Þessar hátíðir hafa verið að stækka á hverju ári og lengjast Act alone stendur t.d. yfir í fimm daga núna. Fleiri byggðarlög á landsbyggðinni hafa verið að poppa uppá menningarlífið með listahátíðum t.d. á Patró var haldin heimildarmyndahátíð í vor. List á landbyggð er málið, höldum áfram á sömu braut og bætum bara við enn fleiri listahátíðum á landsbyggð. Aukum úrvalið það er margt fleira hægt að gera einsog t.d. smásagnahátíð nú eða teiknmyndasöguhátíð eða bara þöglumyndahátíð........
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.