LEIKLISTARTÍMARIT HVER VILL VERA MEMM?
22.10.2007 | 12:45
Kómedíuleikhúsið hefur lengi haft áhuga á því að koma á fót sérstöku leiklistartímariti. Enda erum við mikil leikhúsþjóð og áhugi á listinni mikill. Aðsókn bara á sýningar Sjálfstæðu leikhúsanna á síðasta leikári var 255 þúsund. Sýnd voru 82 verk og voru að meðaltali 4 sýningar á dag alla daga ársins. Þetta eru svaka flottar tölur og er langt í frá allt því inní töluna vantar sýnignar stofnanaleikhúsanna og ekki má gleyma sýningum áhugaleikfélaga um land allt. Kómedíuleikarinn hefur oft fitjað uppá þessu við hin ýmsu tækifæri og enn og aftur er hann byrjaður að rausa um íslenskt leiklistartímarit. Það sem kveikti í honum aftur var að nú er búið að gefa út glæsilegt myndlistartímarit Sjónauki. Virkilega glæsileg útgáfa í alla staði. Nú er það svo og er svosem engin stór uppgötvun né leyndarmál að útgáfa á íslensku leiklistartímarit er náttúrulega fyrst og fremst hugsjón alveg einsog að detta sú vitlausa í hug að gefa út leikrit á bók og græða á því einhverja monnípeninga. Það telst nokkuð gott að ná fyrir kostnaði í þeim bransa. Kómedíuleikhúsið gaf fyrir nokkrum árum út bókina Íslenskir einleikir sem inniheldur safn innlendra einleikja og er fyrsta útgáfa sinnar tegundar hér á landi. Enn hefur útgáfan á þeirri góðu skruddu ekki náð yfir núllið fræga enda er mikið til ennþá af bókinni, áhugasamir geta pantað ritið á kómísku verði. Sama á við með útgáu á leiklistartímariti þetta er fyrst og fremst hugsjónaútgáfa. Á síðustu öld voru gefin út nokkur íslensk leiklistartímarit þar fór fremstur í flokki stórleikarinn Haraldur Björnsson sem gat út Leikhúsmál í áratug eða svo. Þetta var mjög mettnaðarfull útgáfa þykkur doðrantur með vönduðum greinum um leiklist bæði hér heima og erlendis. Einhverjum árum síðar hófu aðrir hugsjónamenn að gefa út leiklistartímarit. Bandalag Íslenskra leikfélaga, sú merka stofnun, gaf einnig út blað sem hét Leiklistarblaðið og fyrir áratug eða svo gaf Félag Íslenskra leikfélaga út Leikhúsmál nokkur tölublöð komu út úr þeirra ranni. Síðan ekki söguna meir. Þrátt fyrir að internetið sé alveg frábært og allt það þá er það staðföst trú kómedíu að þörf sé á prentuðu leiklistartímariti og það er örugglega áhugi meðal landans líka. Það væri alveg nóg að gefa út 2 tímarit á ári t.d. í upphafi leikárs og svo aftur í febrúar- mars eða svo og mætti kannski hugsa sér það í stærð Tímarits Máls og Menningar. Efni í blaðið væri umfjöllun um leiklistarstarfið hér á landi hvað eru leikhúsin að sýna með sérstakri áherlsu á ný íslensk verk, fræði- og sögugreinar t.d. um leikara, leikstjóra og leikskáld sem höfðu áhrif á söguna, greinar um áhugaverðar sýningar erlendis, fjallað um leiklistarhátíðir, strauma og stefnur og bara allt sem viðkemur leiklistinni nema sleppa gagnrýni. Erum alveg með nóg af gagnrýni í blöðum og tímaritum nú þegar og svo eru líka menn líka hættir að lesa hana. Já það væri sko að nógu að taka og ljóst að efni væri meira en hægt væri að koma að hverju sinni. Jæja eigum við að kikka á þetta og sjá hvort það sé ekki hægt að stofna eitt stykki leiklistartímarit. Hugsjónamenn og konur sem hafa áhuga á þessu hafið samband við Kómedíuleikhúsið sakar allavega ekki að pæla aðeins og finna leiðir til að hrinda þessu í framkvæmd. Hlakka til að heyra frá ykkur.
Haraldur Björnsson gaf út tímaritið Leikhúsmál með miklum bravúr.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.