LJÓÐ DAGSINS - ERLA

Enn höldum við áfram að kynna vestfirsk skáld og nú er það Stefán frá Hvítadal. Hann er án efa eitt af mögnuðustu ljóðskáldum síðustu aldar. Stefán fæddist á Hólmavík 11. október árið 1887 og er fyrsti innfæddi Hólmvíkingurinn já það er ekki lengra síðan að Hólmavík byggðist. Og glöggir reikningsmenn og konur taka líka eftir því að það eru 120 ár frá fæðingu hans. Hafa heimamenn eitthvað verið að minnast þess með tónleikum ef ég man rétt en gæti þó hafa verið í Dölunum þar sem hann settist að seinna meir. Fyrsta ljóðabók Stefáns Söngvar förumannsins kom út árið 1918 og er sú útgáfa ,,eitt af ævintýrum íslenzkrar bókmenntasögu" segir skáldbróðir hans, Tómas Guðmundsson, í formála ljóðsafns Stefáns sem hét einifaldlega Ljóðmæli frá árinu 1945. Í fyrstu ljóðabókinni er eftirlætisljóð Kómedíuleikarans vöggukvæðið Erla. Að hans mati flottasta kvæði sinnar tegundar og í örðu sæti er Sofðu unga ástin mín eftir Jóhann Sigurjónsson, en það kvæði er í leikritinu Fjalla - Eyvindur einsog öllum þeim fáum er kunnugt sem lesa leikbókmenntir. Það þarf því vart að kynna hvað sé ljóð dagsins:

ERLA

Erla, góða Erla!

Ég á að vagga þér.

Svíf þú inn í svefninn

í söng frá vörum mér.

Kvæðið mitt er kveldljóð,

því kveldsett löngu er.

Úti þeysa álfar

um ísi lagða slóð.

Bjarma slær á bæinn

hið bleika tunglskinsflóð.

Erla, hjartans Erla,

nú ertu þæg og góð!

Æskan geymir elda

og ævintýraþrótt.

Tekur mig með töfrum

hin tunglskinsbjarta nótt.

Ertu sofnuð, Erla?

Þú andar létt og rótt.

Blunda, reyndu að blunda

og byrgja augun þín.

Myrkri sveipast mjöllin

og mánaljósið dvín.

Sorti leggst á sessinn.

Þú sefur, Erla mína!

Rek ég eigin raunir

og rökkurtómsins garn.

Liðast rauðir lækir

um lífsins eyðihjarn.

Svipir eru á sveimi.

Þú sefur, elsku barn.

Hart er mannsins hjarta,

að hugsa mest um sig.

Kveldið er svo koldimmt,

ég kenndi í brjósti um mig.

Dýrlega þig dreymi,

og drottinn blessi þig.

Hugann grípur helgi

og hjartað þráir jól.

Klökkur vil ég krjúpa

í kveld við drottins stól.

Ofar dagsins eldum,

já, ofar heimsins sól.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband