TVÆR FRUMSÝNINGAR Í NÓVEMBER
1.11.2007 | 14:47
Nóvember verður sannarlega kómískur og skemmtilegur því sjaldan hefur verið jafn mikið fjör í herbúðum Kómedíu og nú þó sjaldan sé hann nú logn hægur í kringum Kómedíuleikarann (Ef rídalín hefði verið komið til sögunnar á æskuárum hans á Bíldó hefði hann ábyggilega verið á tvöföldum skammti, en sem betur fer var þetta undarleg lín ekki komið þá enda á bara að leifa krökkum að njóta sín og hvað með það þó það sé smá aktion í kringum þau. En hættum okkur ekki lengra í þessa umræðu enda þessi svigi orðin alltof langur og átti heldur ekki að vera fyrirlestur um hið umdeilda rídalín - púnktur). Nú standa yfir æfingar á tveimur nýjum verkum og verða þau bæði frumflutt og sýnd núna í nóvember. Fyrst ber að nefna ljóðaleikinn Ég bið að heilsa sem verður frumsýndur miðvikudaginn 7. nóvember kl.20 á veitingastaðnum Við Pollinn. Leikurinn er settur upp í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jónasar Hallgrímssonar. Verkið er fyrir leikara, Elfar Loga Hannesson, og tónlistarmann, Þröst Jóhannesson, og munu þeir flytja um 20 ljóð eftir listaskáldið góða. Elfar Logi í leik og tali en Þröstur flytur frumsamda tónlist við ljóð skáldsins. Tíu dögum síðar eða nánar tiltekið 17. nóvember er annar í frumsýningu en þá verður frumflutt splunkunýtt jólaleikrit. Verkið heitir Jólasveinar Grýlusynir og er eftir Elfar Loga og Soffíu Vagnsdóttur. Leikmynd og brúður gerir Marsibil G. Kristjánsdóttir og Hrólfur Vagnsson semur tónlist sem er mjög fyrirferðamikil í leiknum því allir sveinarnir 13 taka lagið. Sýnt verður í Tjöruhúsinu í Neðsta kaupstað á Ísafirði, hjá Byggðasafni Vestfjarða, og verður það sko engin tjara því húsið verður sannkallað ævintýrahús jólasveinanna frá 17. nóv. til þrettánda dags jóla. Jólasveinar Grýlusynir verða sýndir allar helgar í nóvember og desember og einnig á milli jóla og nýárs. Já lífið er sko kómedía þessa dagana.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.