NÝ HLJÓÐBÓK VÆNTANLEG - ÞJÓÐSÖGUR ÚR ÍSAFJARÐARBÆ
29.11.2007 | 16:16
Kómedíuleikhúsið vinnur nú að útgáfu hljóðbókarinnar Þjóðsögur úr Ísafjarðarbæ og er hún væntanleg á markaðinn næstu daga. Ísafjarðarbær er mikið og stórt sagnasvæði sem nær allt frá Dýrafirði til Hornstranda. Á þessari hljóðbók eru 33 þjóðsögur sem er skipt niður í fimm flokka: Álfa- og huldufólkssögur, Draugasögur, Galdrasögur, Skrímslasögur og Tröllasögur. Sögurnar eru sóttar í hin ýmsu þjóðsagnasöfn einsog safn Jóns Árnasonar og Arngríms Fr. Bjarnasonar. Það er Kómedíuleikarinn sem flytur sögurnar. Hljóðbókin er nú í fjölföldun og ætti að vera komin á markaðinn í byrjun desember. Þetta er önnur hljóðbókin sem Kómedíuleikhúsið gefur út en í vor sendi Kómedía frá sér bókina Þjóðsögur úr Vesturbyggð. Hljóðbækurnar fást í vefverslun Kómedíuleikhússins www.komedia.is og er þegar byrjað að taka við pöntunum á nýju hljóðbókinni, Þjóðsögur úr Ísafjarðarbæ. Einnig eru hljóðbækurnar til sölu á Hótel Ísafirði, í versluninni Orkustein á Ísafirði og Veitingastofunni Vegamót á Bíldudal.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.