Í Bæjarins Besta í dag er lofsamlegur dómur um Forleik sýningu Kómedíuleikhússins og Litla leikklúbbsins á Ísafirði. Nú er bara að skella sér á Forleik. Næsta sýning er á morgun föstudag 23. maí kl.21 á Veitingastaðnum við Pollinn. Miðasala á heimasíðu Kómedíu www.komedia.is
Hér er dómurinn í Bæjarins Besta:
Frumsýning leiksýningarinnar Forleiks á veitingastaðnum Við Pollinn á föstudag heppnaðist í alla staði vel. Fjórir áhugaleikarar sýndu ólíka en afar áhugaverða íslenska leiki; Súsan baðar sig eftir Lárus Húnfjörð, Munir og minjar eftir Þórunni Guðmundsdóttur, Það kostar ekkert að tala í GSM hjá guði eftir Pétur R. Pétursson og Örvænting eftir Jónínu Leósdóttur. Leikarar eru þau Marta Sif Ólafsdóttir, Marsibil Kristjánsdóttir, Árni Ingason og Sveinbjörn Hjálmarsson og stóðu þau sig öll með mikilli prýði. Sýningin er metnaðarfull og stigu leikararnir ekki eitt feilspor undir styrkri leikstjórn Elfars Loga Hannessonar en Forleikur er samstarfsverkefni Kómedíu-leikhússins og Litla leikklúbbsins á ísafirði.- Sýningin byrjar á dramaleikritinu Örvæntingu þar sem Marsibil Kristjánsdóttir leikur konu sem reynir að lappa upp á óhamingjusamt líf sitt með því að lappa upp á útlitið. Áhorfendur fylgjast með henni er hún bíður eftir því að fara á skurðarborðið í ítarlega lýtaaðgerð. Þrátt fyrir að á yfirborðinu virðist konan hafa það gott með vel stæðan eiginmann, börn og fallegt hús er ekki allt eins og það sýnist og grunnt undir yfirborðinu kraumar á örvæntingu og djúpstæðri óhamingju. Marsibil náði afar vel að láta þögula örvæntinguna skína í gegn þrátt fyrir að konan væri að reyna sannfæra áhorfendur og um leið sjálfa sig um að lífið væri ljúft.
- Því næst var slegið á létta strengi og hláturtaugarnar kitlaðar með háalvarlegu efni, sjálfum dauðanum. Það kostar ekkert að tala í GSM hjá Guði fjallar um yfirborðskenndan efnishyggjumann sem lýsir síðustu augnablikum lífs síns og fyrstu stundum hans fyrir handan. Það sem er efst á borði hjá honum er GSM síminn en hann var einmitt að tala í hann þegar hann lést. Sveinbjörn Hjálmarsson var óborganlegur í hlutverkinu og framkallaði mörg hlátrasköll frá áhorfendum.
- Viðfangsefni leiksins Munir og Minjar er safnaðareðlið í fólki en ófáir hafa það sem áhugamál og safna öllu milli himins og jarðar. Marta Sif Ólafsdóttir var óþekkjanleg í hlutverki gamallar og léttruglaðrar konu sem stolt segir frá sínu mesta afreki, að hafa safnað Hagkaupsblaðinu frá upphafi. Hlátursrokurnar sem þessi sérkennilega persóna framkallaði í salnum voru stöðugar í gegnum allan einleikinn og er óhætt að telja að margir hafi haft eymsli í kjálkum og mögum eftir öll ósköpin.
- Súsan baðar sig er ádeila á strípistaði sem notið hafa mikilla vinsælda á íslandi en jafnframt hlotið mikla gagnrýni. Árni Ingason leikur eiganda eins stærsta og virtasta súlustaðar höfuðborgarinnar. Hann segir frá því hversu vel smurð og góð starfsemi fer þar fram en ljóstrar í leiðinni upp að ekki er allt eins frábært og hann segir það vera og að peningagræðgin lætur menn leggjast ansi lágt. Árni fékk allan salinn til að taka þátt í einleiknum með tilheyrandi hlátrasköllum, lófataki, flauti, hrópum og köllum.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.