ACT ALONE 2008 BESTA HÁTÍÐIN

Leiklistarhátíðinni Act alone á Ísafirði lauk þriðjudaginn 8. júlí í Iðnó í Reykjavík þar sem erlendu sýningar hátíðarinnar voru sýndar. Þar með lauk sjö daga einleiknu stuði en Act alone var sett á Ísafirði miðvikudaginn 2. júlí. Óhætt er að segja að hátíðin hafi dafnað vel og að margra mati er hátíðin í ár sú besta frá upphafi. Gaman að heyra það. Enda var dagskráin sérdeilis glæsileg boðið var uppá hvorki fleiri né færri en 25 sýningar sem er algjört met í sögu Act alone. Fjölmargar nýjungar voru á Act alone 2008 því nú bættist danslistin við og má því segja að Act alone sé ekki lengur bara leiklistarhátíð heldur almenn listahátíð. Sýningar Act alone 2008 voru fjölbreyttar og gátu allir aldurshópar fundið sér góðgæti við hæfi. Að vanda voru einleikir í aðalhlutverki en einnig var boðið uppá tónlist, myndlist, tvíleiki og í fyrsta sinn var boðið uppá einleikin dansverk. Leiklistarnámskeið var haldið að ógleymdri kennslustund í að reka eins manns leikhús. Loks er ógetið Act alone verðlaunanna sem nú voru afhent í fyrsta sinn. Sérstök dómnefnd skipuð þremur áhorfendum á Ísafirði fylgdist grannt með öllum sýningum hátíðarinnar. Lokasýning Act alone 2008 var í Haukadal og um leið myndaðist rafmögnuðstemmning því þá var búið að tilkynna komu dómnefndar. Vissulega hefur þetta ekki verið auðvelt starf hjá nefndinni að velja bestu sýningu hátíðarinnar og besta leikarann. Besta sýning Act alone 2008 var valin Fragile í flutningi tékkneska leikhópsins Krepsko og besta leikarinn var Hörður S. Dan fyrir leik sinn í Englar í snjónum. Einsog áður var getið var einnig skundað til borgarinnar þar sem erlendu sýningar Act alone 2008 voru sýndar. Því miður varð að fella niður eina af þeim sýningunum sökum veikinda leikkonunnar í verkinu Völuspá. Hinar tvær erlendu sýningarnar Fragile og Chick with a Trick voru hins vegar sýndar. Fjölmargir lögðuð leið sína á Act alone í Iðnó og fengu sýningarnar báðar frábærar undirtektir. Til gamans má geta þess að gagnrýnandi Fréttablaðsins gaf Act alone í Iðnó fullt hús stiga eða FIMM STJÖRNUR. Stjórn Act alone 2008 vill að lokum þakka þeim fjölmörgu sem réttu okkur risastóra hjálparhönd á hátíðinni. Þið eruð öll alveg frábær. Sérstaklega vill stjórnin þakka þeim Þorsteini J. Tómassyni, Þresti Ólafssyni og honum Sæla kærlega fyrir frábærlega vel unnin störf. Þið eruð hetjur án ykkar hefði þetta ekki verið jafn einleikið og skemmtilegt. Bæjarbúar voru líka boðnir og búnir að aðstoða okkur, Morrinn tók virkan þátt í Act alone 2008 og síðast en ekki síst þökkum við öllum þeim fjölmörgu gestum sem sóttu hátíðina. Milljón takk til ykkar allra. Þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að kannski væri þetta síðast Act alone hátíðin sem yrði haldin. Þá er rétt að taka það strax fram að Act alone hátíðin mun halda áfram og strax í ágúst hefst undirbúningur fyrir Act alone 2009. Þökk sé öllum þeim fjölmörgu fyrirtækjum, félögum og einstaklingum sem hafa stutt hátíðina frá upphafi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband